Það vantaði hluta af tveimur gluggum í farþegarýminu og það gerði flugferðina mjög hættulega. Mirror skýrir frá þessu og segir að eins og gefur að skilja hafi flugmennirnir strax breytt um stefnu og ákveðið að halda aftur til London og lenda þar. Ekkert kom fyrir farþegana eða áhöfnina.
Eftir því sem Air Accident Investigation Branch, AAIB, segir þá voru það farþegar sem gerðu áhöfninni viðvart um að eitthvað væri að. Þeim fannst meiri hávaði en venjulega og að það væri kaldara en venjulega.
AAIB segir að þetta hefði getað endað með miklum hörmungum ef loftþrýstingurinn inni í vélinni hefði fallið niður á hættustig eða ef skrokkur vélarinnar hefði skemmst.
Talið er að vélin hafi skemmst daginn áður en þá var hún notuð við kvikmyndatöku. Gríðarlega sterkir ljóskastarar voru látnir lýsa á vélina og benda frumniðurstöður rannsóknar til að ljósin hafi sent svo mikinn hita frá sér að gluggarnir skemmdust.