Daily Mail greinir frá því í dag að konan sem um ræðir sé Rita Roberts og var hún 31 árs þegar hún lést.
Rita var breskur ríkisborgari en lík hennar fannst í á í borginni Antwerp í Belgíu þann 3. júní 1992. Hún hafði flutt frá Cardiff í Wales í febrúar 1992 og heyrði fjölskylda hennar síðast í henni í maí þetta ár.
Þrátt fyrir mikla eftirgrennslan gekk belgískum yfirvöldum illa að bera kennsl á konuna og var það ekki fyrr en ættingi Ritu rak augun í mynd af húðflúrinu að hjólin fóru að snúast.
Belgísk, hollensk og þýsk yfirvöld, í samvinnu við Interpol, fóru í alþjóðlegt átak fyrr á þessu ári til að bera kennsl á 22 konur sem grunur leikur á að hafi verið myrtar og var Rita í hópi þeirra. Ættingi hennar sá umfjöllun um málið í sjónvarpinu og hafði strax samband við yfirvöld.
Belgíska lögreglan hefur nú biðlað til almennings að stíga fram hafi það einhverjar upplýsingar um málið og hver það var sem bar ábyrgð á dauða Ritu. Aðstandendur Ritu hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að hvarf hennar hafi haft gríðarleg áhrif á fjölskylduna öll þessi ár. Fjölskyldan sé engu að síður þakklát fyrir að vita hver örlög hennar urðu.