fbpx
Miðvikudagur 22.júní 2022
Pressan

Feðginin sögðu að hún hefði verið drepin af heimilislausum manni – Sannleikurinn var enn óhugnanlegri

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 22. maí 2022 06:00

Jacquelyn og Keith Smith.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í hvítum brúðarkjól, með slör og blómvönd í höndunum brosti Jacquelyn hamingjusöm framan í myndavélina. Við hlið hennar stóð eiginmaður hennar, Keith Smith, í sínu fínasta pússi. Þau voru engin unglömb en þóttu fallegt brúðarpar.

Fjórum árum síðar, 2018, bjuggu þau í Aberdeen í MarylandJacquelyn, sem var 54 ára, átti tvo uppkomna syni frá fyrri samböndum, starfaði sem rafmagnsverkfræðingur hjá rannsóknarstöð á vegum hersins. Hún þótti greind, örlát og skemmtileg.

Smith, sem var 52 ára, átti uppkomna dóttur, Valeria, og hafði starfað sem bílstjóri.

Um miðnætti 1. desember hringdi hann í neyðarlínuna úr bíl sínum og sagðist vera á leið á sjúkrahús með Jacquelyn. Hann sagði að það blæddi úr henni. „Þið verðið að hjálpa mér. Þau stungu konuna mína!“ grét hann í símann.

Þegar hann kom á Johns Hopkins sjúkrahúsið var Valeria með honum. Læknar tóku við Jacquelyn og gerðu allt hvað þeir gátu til að bjarga lífi hennar. Hún hafði verið stungin fimm sinnum í brjóst og var einnig með sár á hægri handlegg. Því miður reyndist ekki unnt að bjarga lífi hennar.

Jacquelyn.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Smith og Valeria voru í miklu uppnámi og sögðu hvað hafði gerst. Þau sögðust hafa verið úti að halda upp á 28 ára afmæli Valeria í American Legion Hall í Baltimore. Síðan óku þau heim á leið og var Smith undir stýri. Skyndilega sá Jacquelyn heimilislausa konu betla og virtist hún vera með barn í fanginu.

Smith sagði að Jacquelyn, sem sat í farþegasætinu, hafi beðið hann um að aka upp að konunni til að hún gæti gefið henni pening. Valeria var í aftursætinu. Feðginin lýstu því síðan að þau hefðu stoppað og Jacquelyn hefði skrúfað gluggann niður.

Keith og Valeria.

 

 

 

 

 

Þau sögðu að því næst hafi maður komið til konunnar og hrifsað hálsmen sem Jacquelyn var með. Hann hafi síðan stungið hana fimm sinnum í bringuna með hníf, tekið töskuna hennar og flúið af vettvangi með konunni.

Smith sagði að þau hefðu flýtt sér á sjúkrahús með Jacquelyn því þau hefðu talið að það tæki of langan tíma að bíða eftir sjúkrabíl. Valeria sagði sömu sögu.

Vakti óhug

Morðið vakti óhug meðal Bandaríkjamanna. Á þessum tíma bjuggu um 12.000 heimilislausir á götum Baltimore. Flestir fjölmiðlar fjölluðu um morðið á „Miskunnsama samherjanum“ og fólk fór að óttast að heimilislaust fólk væri hættulegt.

Feðginin ræddu við fjölmiðla og var ekki annað að sjá en sorgin væri að yfirbuga þau. Þau hvöttu yfirvöld til að banna betl á götum Baltimore áður en einhver annar yrði drepinn.

Smith lýsti því hálf grátandi að hann hefði dansað við eiginkonu sína skömmu áður en hún var myrt og hafi brúðkaupslagið þeirra verið leikið undir.  „Þau myrtu eiginkonu mína. Ég vona að það hafi verið þess virði því þið verðið að svara fyrir það dag einn,“ sagði hann í einu viðtali.

Morðið fór ekki fram hjá spjallþáttadrottningunni Oprah Winfrey. Hún skrifaði um það á Twitter og lýsti því hvernig það hefði breytt skoðun hennar á að gefa heimilislausum peninga. „Þessi saga snerti við hjarta mínu. Ég hef gert þetta þúsund sinnum. En ég mun hugsa mig tvisvar um áður en ég geri þetta aftur,“ skrifaði hún og átti þar við peningagjafir til heimilislausra.

Oprah tjáði sig um málið.

 

 

 

 

 

Skrif hennar vöktu enn meiri athygli á morðinu. En var allt sem sýndist? Lögreglan var að rannsaka málið og sá að frásögn Smith passaði ekki. Af hverju hafði hann stoppað seint um kvöld og leyft henni að skrúfa rúðuna niður til að tala við ókunnuga?

Fjölskylda Jacquelyn dró ekki í efa að hún hefði viljað hjálpa einhverjum en var full efasemda um að hún hefði viljað stoppa svona seint að kvöldi af þessu tilefni.

Lögreglan skoðaði upptökur eftirlitsmyndavéla í götunni þar sem árásin átti að hafa átt sér stað en ekkert sást til bíls Smith. Þess utan sýndu staðsetningargögn farsíma hans ekki að hann hefði verið á þessum slóðum. Síminn var í um 6 kílómetra fjarlægð, í Druid Hill Park.

Bað bróður sinn um að drepa Jacquelyn

Lögreglan komst síðan að því að Smith hafði eitt sin beðið bróður sinn um að drepa Jacquelyn. Ástæðan var að hún ætlaði að skilja við hann eftir fjögurra ára hjónaband.

Smith var með sakarferil að baki. 2001 var hann dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir að hafa rænt sama bankann þrisvar. Hann afplánaði 6 ár. Ekki er vitað hvort Jacquelyn var kunnugt um fortíð hans.

Sönnunargögnin hrúguðust nú upp og bentu til að saga feðginanna væri ósönn. Þá uppgötvuðu lögreglumenn að þau höfðu látið sig hverfa. Smith hafði sagt fólki að þau væru að fara til Flórída en bílaleigubíll, sem þau höfðu tekið, fannst hins vegar í um 2.000 km fjarlægð, nærri mexíkósku landamærunum.

Valeria.

 

 

 

 

 

 

5. mars 2019 voru feðginin handtekin í Harlingen í Texas. Þau sögðust vera á leið í frí en Smith hafði reynt að kaupa flugmiða aðra leiðina til Kúbu eða Kanada. En hann glímdi við það vandamál að hann átti ekki vegabréf og því reyndist erfitt að komast úr landi.

Þau voru bæði ákærð fyrir morð og skyndilega breyttust fyrirsagnir fjölmiðla um málið. Lögreglan sagði að Smith hefði misnotað þann mikla vanda sem heimilisleysi var í Baltimore og alið á tilefnislausum ótta í garð heimilislausra til að leyna því að hann hefði myrt eiginkonu sína.

Hann hélt fram sakleysi sínu en skömmu áður en réttarhöldin hófust í september 2019 gerði Valeria samning við saksóknara. Hún játaði að hafa verið í vitorði með föður sínum og að hafa séð hann myrða Jacquelyn.

Gegn því að bera vitni gegn honum slapp hún með fimm ára fangelsisdóm og þrjú ár á skilorði að afplánun lokinni.

Mál Smith var loks tekið fyrir í desember á síðasta ári og var hann dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir morðið og í þriggja ára fangelsi til viðbótar fyrir að hafa notað banvænt vopn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Gaia geimfarið varpar ljósi á þróun sólkerfisins og óvænta „stjörnuskjálfta“

Gaia geimfarið varpar ljósi á þróun sólkerfisins og óvænta „stjörnuskjálfta“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Gjafapoki til kynningar á bandarískri iðnframleiðslu innihélt „Made in China“ gjafir

Gjafapoki til kynningar á bandarískri iðnframleiðslu innihélt „Made in China“ gjafir
Pressan
Fyrir 4 dögum

Rússneskt herskip siglir tvisvar inn í danska löghelgi – „Óásættanleg rússnesk ögrun“

Rússneskt herskip siglir tvisvar inn í danska löghelgi – „Óásættanleg rússnesk ögrun“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fundu milljarða virði af kókaíni í bananakössum

Fundu milljarða virði af kókaíni í bananakössum
Pressan
Fyrir 5 dögum

Forseti Kína opnar fyrir „sérstakar hernaðaraðgerðir“

Forseti Kína opnar fyrir „sérstakar hernaðaraðgerðir“
Pressan
Fyrir 6 dögum

Hryllingurinn í Hollandi – Misþyrmdi börnunum sínum til að losa þau við „illa anda“

Hryllingurinn í Hollandi – Misþyrmdi börnunum sínum til að losa þau við „illa anda“