Porfirio Duarte-Herrera slapp nýverið úr fangelsi í Nevada, Bandaríkjunum. Duarte-Herrera var að afplána lífstíðardóm fyrir sprengjuárás sem hann framdi í bílastæðakjallara Luxor hótelsins í Las Vegas árið 2007.
Einn lést í árásinni, 27 ára gamall karlmaður að nafni Willebaldo Dorantes Antonio, en hann hafði verið í sambandi með fyrrverandi kærustu vinar Duarte-Herrera, Omar Rueda-Denvers. Rueda-Denvers fékk einnig lífstíðardóm fyrir árásina.
Það komst í ljós að Duarte-Herrera, sem í dag er 42 ára gamall, hafði flúið úr fangelsinu þegar nafnakall var gert í fangelsinu árla morguns á þriðjudaginn. Það leið ekki langur tími þar til farið var að leita að honum en síðar um daginn var greint frá því að í raun hafði Duarte-Herrera flúið úr fangelsinu síðastliðinn föstudag.
Duarte-Herrera fékk þó ekki að njóta frelsisins nema í örfáa daga því í dag var hann gómaður. Samkvæmt færslu frá lögreglunni í Las Vegas var Duarte-Herrera á leiðinni til Mexíkó með strætó en það var einmitt strætómiðinn sem varð honum að falli. Árvökull starfsmaður á strætóstöðinni er nefnilega sagður hafa komið auga á flóttafangann og tilkynnt það til yfirvalda.
Þessu stutta fríi Duarte-Herrera frá fangelsinu fékk því snöggan endi þar sem lögreglan náði að góma hann og skila honum aftur á sinn stað.