fbpx
Þriðjudagur 09.ágúst 2022
Pressan

Dularfullar lygar Tom Hagen

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 7. október 2020 05:26

Anne-Elisabeth og Tom Hagen.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dulkóðaðir tölvupóstar, dularfull fótspor í forstofunni og þéttskrifað hótunarbréf með mörgum stafsetningarvillum. Þetta eru meðal þeirra „sönnunargagna“ sem norski milljarðamæringurinn Tom Hagen útbjó og kom fyrir til að hylma yfir dularfullt hvarf eiginkonu sinnar. Að minnsta kosti að mati norsku lögreglunnar sem telur að Tom Hagen hafi á einn eða annan hátt verið viðriðinn hvarf hennar. Hann var handtekinn í lok apríl en sleppt nokkrum dögum síðar.

Það er eiginlega bara eins og Anne-Elisbeth Hagen hafi horfið af yfirborði jarðar að morgni 31. október 2018. Klukkan 09.14 ræddi hún við son sinn í síma. Þegar símtalinu lauk hvarf síðasta vísbendingin um Anne-Elisabeth einnig. Rafvirki einn reyndi síðan að ná sambandi við hana en hún svaraði ekki. Hún svaraði heldur ekki þegar Tom hringdi í hana. Það var bara eins og hún hefði horfið af yfirborði jarðarinnar.

Eitt dularfyllsta og umtalaðasta sakamál Noregssögunnar var þar með hafið.

Nú eru tæplega tvö ár síðan Anne-Elisabeth hvarf og enn hefur ekki fundist tangur né tetur af henni. Lögreglunni virðist ekki hafa miðað mikið áfram við rannsókn málsins nema hvað hún er sannfærð um að Tom hafi verið viðriðinn það. Lögreglan er einnig viss um að Anne-Elisabeth hafi ekki verið numin á brott til að hægt væri að krefjast lausnargjalds. Það hafi eingöngu verið látið líta út fyrir það til að villa um fyrir lögreglunni. Telur lögreglan að hún hafi verið myrt á heimili sínu.

Telur lögreglan því að lausnargjaldsbréfin, sem fundust á heimili hjónanna, eftir að Tom tilkynnti um hvarf hennar hafi verið sett þar til að villa um fyrir lögreglunni.

Heimili Hagen-hjónanna.

Tom Hagen var handtekinn í lok apríl en lögreglan hafði þá rannsakað aðild hans að hvarfi Anne-Elisabeth mánuðum saman. Lögreglan trúir ekki sögu hans um að hann sé óhamingjusamur eiginmaður sem hafi áhyggjur af horfinni eiginkonu sinni. Telur lögreglan að allt hafi þetta verið sviðsetning hjá honum.

Lögreglan stendur enn fast á þessari skoðun þrátt fyrir að Tom hafi vísað þessu öllu á bug og segist vera fórnarlamb og að eiginkonu hans hafi verið rænt fyrir tæpum tveimur árum.

Þegar hann tilkynnti um hvarf hennar fyrir tveimur árum sagði hann að eitt og annað á heimilinu hafi vakið áhyggjur hans, til dæmis hafi persónulegir munir Anne-Elisabeth legið í forstofunni, hann fann plastspennu og dularfullt og þéttskrifað bréf á nokkrum A4 blöðum. Margar stafsetningarvillur voru í bréfinu en innihaldið var skýrt. Greiða skyldi níu milljónir evra í lausnargjald fyrir Anne-Elisabeth, að öðrum kosti yrði hún drepin. Að því loknu sögðust mannræningjarnir ætla að birta upptöku af morðinu á netinu.

Dularfullar vísbendingar

Lögreglan fór leynt með málið í upphafi en hún óttaðist að mannræningjarnir fylgdust með heimili hjónanna en þeir höfðu haft í hótunum um að Anne-Elisabeth yrði myrt ef lögreglunni yrði gert viðvart.

Þegar upptökur úr eftirlitsmyndavél nærri vinnustað Tom voru skoðaðar fannst það sem lögreglan taldi fyrstu vísbendinguna. Dökkklæddur maður gekk fram hjá skrifstofunni þennan morgun og sneri svo við og fór sömu leið til baka. Var þetta kannski gerandinn eða samverkamaður?

Einnig fundust dularfull fótspor á heimili hjónanna en ekki var vitað eftir hvern þau voru. Síðan var það auðvitað dularfulla lausnargjalds- og hótunarbréfið.

Anne-Elisabeth Hagen.

Eftir að lögreglan skýrði loks opinberlega frá málinu þann 9. janúar 2019 bárust henni margar vísbendingar og Tom bárust nokkrir dularfullir dulkóðaðir tölvupóstar þar sem hann var krafinn um háar fjárhæðir ef hann vildi fá sönnun fyrir að Anne-Elisabeth væri á lífi. En lögreglunni tókst ekki að ná sambandi við mannræningjana. Lögreglumenn fóru að undrast þetta.

„Það er eitthvað í þessu máli sem passar bara ekki,“

sagði heimildarmaður hjá lögreglunni við VG. Lögreglan undraðist einnig að Tom Hagen hafði ekki heitið verðlaunum fyrir upplýsingar sem gætu leyst málið. Sjálfur sagði hann ekki mikið og hélt bara áfram að vinna í fyrirtækinu sínu. Það var líklega á þessum tímapunkti sem athygli lögreglunnar fór að beinast að honum en Tom hafði ekki hugmynd um það. Lögreglan greip því til nýrra og mjög leynilegra aðgerða. Byrjað var að grafast fyrir um fortíð hjónanna og þá kom í ljós að þau voru ekki eins hamingjusöm og vinir og ættingjar töldu. Eitt og annað benti til að Anne-Elisabeth hefði viljað fá skilnað. Var það vendipunkturinn fyrir Tom?

Lögreglan kom hlerunarbúnaði fyrir á heimili hans. Hún vildi vita hvað hann sagði og gerði þegar hann var einn.

Eftir handtökuna í lok apríl á þessu ári var Tom úrskurðaður í gæsluvarðhald í fjórar vikur en Hæstiréttur felldi úrskurðinn úr gildi og var Tom látinn laus og hefur gengið laus síðan. En það þýðir ekki að lögreglan telji hann saklausan. Hún vinnur út frá þeirri kenningu að hann viti meira um málið en hann hefur látið uppi. Hann neitar staðfastlega að hafa verið viðriðinn hvarf eiginkonu sinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Lík eiginmannsins í baðkarinu og elskhuginn í skápnum

Lík eiginmannsins í baðkarinu og elskhuginn í skápnum
Pressan
Fyrir 3 dögum

14 látnir í eldsvoða á skemmtistað

14 látnir í eldsvoða á skemmtistað