fbpx
Sunnudagur 25.október 2020
Pressan

Eiginkonan, börnin og nágrannarnir vissu ekki um leyndarmál hans: „Hann leit á fórnarlömb sín sem rusl“

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 7. desember 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

John Wayne Gacy heillaði alla þegar hann brá sér í hlutverk trúðsins Pogo. En á bak við yfirborð trúðsins leyndist einn skelfilegasti raðmorðingi sögunnar. Flestir héldu að hann væri hress, kátur og gjafmildur maður. Hann var virkur í stjórnmálastarfi og kom oft fram í trúðsgervinu og skemmti börnum í heimabæ sínum, Norwood Park í Illinois í Bandaríkjunum. Hann var einnig iðinn við að skipuleggja samkomur fyrir nágranna sína þar sem hann skemmti börnunum með blöðrum og bröndurum.

„Ég segi alltaf að það hræðilega við Gacy var að hann var alls ekki hræðilegur,“ sagði Sam Amriante, verjandi hans, í samtali við Chicago Tribune. Amriante var verjandi Gacy á áttunda og níunda áratugnum.

„Hann gat verið bróðir allra, faðir, frændi. Hann var alls ekki hræðileg manngerð nema þegar hann skipti skyndilega úr því að vera hlýr og heillandi yfir í að vera sá morðingi sem hann var,“ sagði Amriante um þennan fyrrverandi skjólstæðing sinn.

Í dulbúningi Sem trúðurinn Pogo.

Óhætt er að segja að fólki hafi brugðið illa við þegar Gacy játaði að hafa pyntað, nauðgað og myrt að minnsta kosti 33 unglingspilta og unga menn. Mörg líkanna hafði hann falið í kjallara sínum. Þegar kjallarinn var orðinn fullur af líkum henti hann þeim í á nærri heimili sínu.

„Hann leit á fórnarlömb sín sem rusl. Hann hafði engar tilfinningar í þeirra garð,“ sagði Amriante.

Bandarískir fjölmiðlar gáfu Gacy viðurnefnið „The Killer Clown“ (Drápstrúðurinn). Hann er sagður hafa verið innblástur rithöfundarins Stephens King að bókinni „It“ sem kom út 1986. Bókin fjallar um trúðinn „Pennywise“ sem laumast um holræsakerfi og drepur og limlestir börn.

Fagurt yfirborð

Gacy fæddist 1942 í Chicago. Faðir hans, John Stanley Gacy, var áfengissjúklingur og ofbeldisfullur. Hann lamdi Gacy og systkin hans reglulega. Móðir barnanna, Marion, fékk einnig að kenna á ofbeldi eiginmannsins reglulega. Gacy átti erfitt með að eignast vini en hann sagði það vera vegna meðfædds hjartagalla sem gerði að verkum að hann gæti ekki leikið við önnur börn. Hann var einnig í yfirþyngd og var strítt vegna þess.

Um leið og hann varð lögráða flutti hann að heiman og lá leiðin til Las Vegas. Hann varð heillaður af hryllingsmyndum og -sögum og dauðinn heillaði hann mikið. Hann fékk vinnu í líkhúsi í Las Vegas og starfaði þar í þrjá mánuði. Þegar lögreglan yfirheyrði hann sagðist hann eitt sinn hafa lagst upp í kistu hjá látnum unglingspilti og látið vel að líkinu klukkustundum saman.
Hann fékk síðan starf hjá skyndibitakeðju, seldi skó og stýrði verktakafyrirtæki. Hann tók virkan þátt í stjórnmálum og hitti meðal annars Rosalynn Carter, eiginkonu Jimmys Carter forseta. Hann kvæntist unnustu sinni, Marlynn, 1964 og eignuðust þau Michael og Christine. Allt leit vel út á yfirborðinu enda hafði Gacy mikla hæfileika til að heilla fólk upp úr skónum og stýra því.
„Allir sem hittu John Gacy vissu eitt um hann: Hann var snillingur í að stjórna fólki. Hann gat selt eskimóum ís,“ skrifaði Sam Amriante í bók sem hann skrifaði um Gacy, „John Wayne Gacy: Defending a Monster“.

Illskan uppmáluð Gacy sýndi aldrei iðrun.

Dæmdur í fangelsi

Árið 1968 var Gacy dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn tveimur piltum í Waterloo í Iowa. Hann hafði lokkað piltana heim til hans undir því yfirskini að þeir gætu fengið starf í byggingariðnaðinum. Hann nauðgaði þeim síðan. Hann játaði brot sín og skömmu síðar krafðist Marlynn skilnaðar. Hann sá hana aldrei aftur og heldur ekki börnin.

Eftir aðeins 18 mánuði í fangelsi var hann látinn laus vegna góðrar hegðunar. Hann kvæntist á nýjan leik, Carol, og fluttu þau í hús í Nordwood Park. Carol vissi ekki að þá hafði Gacy stungið unglingspilt til bana í húsinu sem varð síðar sannkallað hryllingshús. Hann fékk þá mikinn áhuga á trúðum og lærði að setja upp trúðsgervi með öllu tilheyrandi. Hann skapaði síðan trúðana Pogo og Patches. Hann varð félagi í sirkushóp, Jolly Joker Club, sem kom meðal annars fram á barnasjúkrahúsum.

Með tímanum vöknuðu ýmsar spurningar hjá Carol í tengslum við áhuga eiginmannsins á trúðum og dóminn sem hann hafði fengið. Þegar hún fann blað með myndum af nöktum körlum gekk hún á hann og spurði hvort hann væri samkynhneigður. Hann játaði að vera tvíkynhneigður og tæki unga pilta fram yfir konur. Þá var Carol nóg boðið, pakkaði saman og yfirgaf hann.

Hryllingshúsið

Nú sat Gacy einn og yfirgefinn í húsinu og rann þá mikið morðæði á hann. Hann pyntaði, nauðgaði og myrti tugi unglingspilta í húsinu. Mörg morðanna framdi hann í gervi Pogo. Þegar Carol var yfirheyrð mörgum árum síðar játaði hún að hafa séð Gacy fara með unga pilta inn í bílskúrinn.

Safnari Gacy safnaði listaverkum með trúðum.

Jason Moran lögreglumaður hefur haft það verkefni á undanförnum árum að reyna að bera kennsl á öll fórnarlömb Gacy. Morðin voru framin á sex ára tímabili og mörg líkanna voru svo illa farin að ekki var hægt að bera kennsl á þau. Mörg líkanna voru nánast orðin að engu og engar samsvaranir fundust í tannlæknaskýrslum þegar önnur voru rannsökuð. Moran segir að Gacy hafi oft haldið stór samkvæmi heima hjá sér, oft hafi verið rúmlega 200 manns þar, aðallega ungir piltar.

„Hann var síðasti maðurinn sem þig grunaði að væri raðmorðingi,“ segir Moran.

Við yfirheyrslur sagði Gacy að hann hefði oft lokkað piltana til sín með því að bjóða þeim 50 dollara fyrir að hjálpa honum við „vísindarannsóknir“ eða með því að þeir gætu fengið vinnu hjá verktakafyrirtæki hans. Stundum gaf hann sig út fyrir að vera lögreglumaður sem þyrfti að ræða alvarlega við þá. Um leið og piltarnir komu heim til hans fór í hann í Pogo-búninginn, gaf þeim áfengi að drekka og róandi lyf. Því næst notaði hann það sem hann kallaði „handjárnabragðið“ en í því fólst að fórnarlömbin féllust á að hann setti handjárn á þau. Hann sagði að þegar pyntingunum og nauðgunum var lokið hefði hann bundið enda á allt með því að kyrkja piltana.

Grafin upp Íbúð Gacy innihélt dimm leyndarmál.

„Trúðar geta komist upp með morð“

Það liðu sex ár áður en sjónir lögreglunnar fóru að beinast að Gacy og það var árvökulli móður að þakka. Þann 11. desember 1978 hvarf Robert Piest, 15 ára, skyndilega. Móðir hans, Elizabeth Piest, sagði lögreglunni að hann hefði ætlað að hitta Gacy til að ræða við hann um hugsanlegt starf, vellaunað. Lögreglan komst þá að því að Gacy hafði hlotið fyrrgreindan dóm fyrir kynferðisofbeldi og byrjaði að fylgjast með honum. Þegar lögreglumaður, í dulargervi, ræddi við hann um starf sagði Gacy:

„Trúðar geta komist upp með morð.“

Nánast óteljandi Yfirlitsmynd yfir fórnarlömb Gacy.

Tíu dögum síðar knúði lögreglan dyra hjá honum og framkvæmdi húsleit, en fann ekkert. Gacy var margoft tekinn til yfirheyrslu og lögreglumenn komu reglulega heim til hans til að reyna að fá svör við hver hefði numið fjölda pilta í Chicago á brott. Þegar lögreglan gerði aftur húsleit heima hjá honum fann einn lögreglumannanna, Bob Schultz, vonda lykt koma frá viftu inni á baðherbergi. Gacy var þá í yfirheyrslu á lögreglustöðinni en um leið voru lögreglumenn að átta sig á hvað var falið í húsinu.

Leiðarlok

Þann 22. desember 1978 sá Gacy að nú var hann kominn í blindgötu og að hann gæti ekki sloppið frá þessu. Í yfirheyrslum játaði hann allt og lýsti hvernig hann hefði árum saman ekið um og leitað að ungum piltum sem hann sagði stunda „vændi“ og vera „lygara“. Mörg fórnarlambanna fann hann á strætisvagnastöðvum. Hann lofaði að gefa þeim áfengi, eiturlyf og að þeir fengju rúm til að sofa í. Því næst nauðgaði hann þeim, pyntaði og myrti.

„Gacy var illmennska holdi klædd. Hann var bara vondur, vondur maður,“ sagði einn lögreglumannanna um hann.

Gacy teiknaði upp hvar hann hafði komið líkum fórnarlamba sinna fyrir og játaði að hafa myrt 30 manns síðan 1972.

„Hann gerði uppdrátt; hvar öll líkin voru grafin í kjallaranum. Þegar hann nálgaðist lík númer 24, 25 og 26 hugsaði ég bara: „Þessi maður er klikkaður,“ sagði Phil Bettiker, sem yfirheyrði Gacy, í samtali við Chicago Tribune.

Gacy sagði lögreglumönnunum að þegar ekki var lengur pláss fyrir lík í kjallaranum hefði hann byrjað að henda þeim í Des Plaines-ána. Lík Roberts Piest var eitt þeirra. Ekki er vitað með vissu hversu marga Gacy myrti en hann neitaði að upplýsa það.

„Þið verðið sjálfir að finna út úr því,“ sagði hann í yfirheyrslu.

Á sama stað Lík drengjanna voru geymd í einni og sömu hvelfingunni meðan á rannsókn málsins stóð.

„Kiss my ass“

Í febrúar 1980 hófust réttarhöld yfir Gacy. Hann játaði morðin en krafðist þess að verða úrskurðaður veikur á geði og dæmdur til vistunar á réttargeðdeild.

Ekki var orðið við þeirri kröfu hans og fékk hann 12 dauðadóma og 21 lífstíðarfangelsisdóm. Þetta er þyngsti dómur sem kveðinn hefur verið upp yfir raðmorðingja.

Hús hans var jafnað við jörðu. Gacy byrjaði að mála í fangelsinu, mörg verkanna voru af Pogo, og voru málverk hans sýnd í Chicago og Boston. Sum þeirra seldust fyrir háar fjárhæðir. Gacy sat í 14 ár á dauðadeild í Menard Correctional Center en hann var tekinn af lífi 10. maí 1994 með eitursprautu. Síðasta máltíð hans var fata full af djúpsteiktum kjúklingalærum, jarðarber, franskar og sykurlaus kóladrykkur.

Vitni að aftökunni segja að hinstu orð hans hafi verið:

„Kiss my ass.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Níu úr sömu fjölskyldu létust – Borðuðu núðlur sem voru geymdar í frysti

Níu úr sömu fjölskyldu létust – Borðuðu núðlur sem voru geymdar í frysti
Fyrir 2 dögum

Mokveiði ennþá í Eystri Rangá

Mokveiði ennþá í Eystri Rangá
Pressan
Fyrir 3 dögum

Rudy Giuliani sagður fitla við sig fyrir framan falda myndavél í nýju Borat-myndinni

Rudy Giuliani sagður fitla við sig fyrir framan falda myndavél í nýju Borat-myndinni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skelfileg mannréttindabrot í Katar þrátt fyrir fögur fyrirheit gestgjafa næsta HM í knattspyrnu

Skelfileg mannréttindabrot í Katar þrátt fyrir fögur fyrirheit gestgjafa næsta HM í knattspyrnu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Báru kennsl á líkið eftir 35 ár – Beltissylgja var lykillinn

Báru kennsl á líkið eftir 35 ár – Beltissylgja var lykillinn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ævintýrið breyttist í dularfulla martröð? Af hverju gerðu þau þetta?

Ævintýrið breyttist í dularfulla martröð? Af hverju gerðu þau þetta?