fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Matur

Besti maturinn til að takast á við timburmennina

DV Matur
Sunnudaginn 31. júlí 2022 16:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru líklega einn eða tveir sem hafa ákveðið að fá sér í glas nú um verslunarmannahelgina, sem er gott og blessað á meðan drukkið er af ábyrgð. Áfengisdrykkjunni fylgir þó gjarnan óvelkomnar aukaverkanir – timburmenn og þá eru góð ráð dýr.

Rannsóknir hafa bent til að timbrað fólk leiti í fitugan, saltan og frekar óhollan mat til að berjast við þynnkuna, en það er líklega ekki besta meðalið, þó það sé ljúffengt.

Morgunmaturinn

Egg – Til að byrja þynnkudaginn er góð hugmynd að sá sér egg. Þau eru rík af amínósýrum sem líkaminn notar til að framleiða andoxunarefnið glutathione. Áfengisdrykkja gengur á birgðir líkamans af þessu andoxunarefni sem er ekki gott þar sem efnið hjálpar líkamanum að brjóta niður acetaldehíð sem myndast þegar líkaminn byrjar að brjóta niður áfengið. Acetaldehíð veldur til að mynda rjóðum kinnum hjá sumum sem fá sér í glas og getur valdið þessum ekki-svo-frábæra öskrandi höfuðverk og munnþurrk daginn eftir drykkju.

Avocado – Lárperur eru ríkar af kalíum sem kemur sér vel eftir drykkju. Eins hafa rannsóknir bent til að lárperur innihaldi fleiri mikilvæg efni sem geta komið í veg fyrir lifrarskemmdir.

Hafragrautur – Líklega er það ekkert gífurlega spennandi tilhugsun að byrja þynnkudag á því að fá sér strangheiðarlegan hafragraut, en gefið því séns. Hafragrauturinn inniheldur flókin kolvetni sem líkaminn er lengur að vinna úr heldur en þessum einföldu sem finnst gjarnan í skyndibitanum. Þetta heldur blóðsykrinum í betra jafnvægi og þar með orkunni líka. Rannsóknir hafa bent til að morgunmatur með flóknum kolvetnum í kjölfar drykkju geti bætt skapið og dregið úr þreytu.

Ristað heilhveitibrauð með hunangi – Ef hafragrauturinn er óbærileg tilhugsun þá er hægt að grípa heilhveitibrauð og skella á því góðu magni af hunangi. Þessi samsetning gefur sódíum, kalíum og frúktósa sem hjálpar líkamanum að ná sér aftur á strik. Rannsókn sem Delta State háskólinn framkvæmdi benti til þess að hunang geti hjálpað líkamanum að losa sig við áfengið, eða allt að 32% fljótar.

Millimál

Banani – Banani er ríkur af kalíum og einstaklega þynnkuvænn.

Vatnsmelóna – Vatnsmelónur innihalda Lcitrulline sem er næringarefni sem eykur blóðflæði. Höfuðverkurinn eftir drykkju stafar oft af minnkuðu blóðflæði í heilann og þá getur vatnsmelónan hjálpað til við koma blóðinu aftur á hreyfingu.

Appelsína – Appelsínur eru ríkar af C-vítamíni sem getur flýtt fyrir niðurbroti áfengis í líkamanum með því að hjálpa líkamanum að viðhalda birgðum af glutahione, sem áður var minnst á. Þarna er best að fá sér ávöxtinn sjálfan frekar en safa.

Súrar gúrkur – Nei ég er ekki að djóka. Súrar gúrkur geta fyllt á birgðir af A-vítamíni og K-vítamíni. Þá eru þær fullar af steinefnasöltum á borð við kalíum, kalsíum og mangani.

Hádegismatur

Núðlusúpa með kjúkling – Góð kjúklingasúpa er gulls ígildi. Rannsókn frá háskólanum í Iowa sýndi fram á að núðlusúpa með kjúkling og kjúklingasoð virkuðu betur til að seðja þorsta þátttakenda heldur en vatn og íþróttadrykkir.

Kjöt (eða annar prótínríkur matur) – Hvaða próteingjafa sem þú kýst að nota þá er góður þynnkumatur próteinríkur. Ekki bara verður maður frekar saddur af prótínríkum mat heldur fylgja þarna með amínósýrur sem hjálpa líkamanum að skola eiturefni úr lifrinni.

Kál – Rannsakendur í Zurich sýndu fram á að stórir skammtar af e-vítamíni geti virkað sem mótvægi við skaðan sem áfengisdrykkja veldur á ónæmisfrumum líkamans.

Kvöldmatur

Lax – Þegar líkaminn brýtur niður áfengi getur hann gengið freklega á b-vítamínið. B-vítamín er vatnsleysanlegt og ekki til varabirgðir af því svo gott er að bæta úr tapinu sem fyrst. Lax inniheldur mikið magn af B-vítamíni sem og ómega 3-fitusýrur sem geta unnið gegn bólgum.

Sætar kartöflur – Sætar kartöflur gefa okkur A-vítamín sem hjálpar við að berjast gegn bólgum og til að róa niður ónæmiskerfið. Sætar kartöflur innihalda líka góðu tegundina af kolvetnum og magnesíum sem hjálpar líkamanum að brjóta niður áfengið og losa það úr líkamanum.

Aspas – Aspas gæti verið þynnkumaturinn sem þú hefur leitað að. Neysla á aspas getur aukið virkni ensíma sem brjóta niður áfengið og eins inniheldur aspas efni sem hjálpa frumum lifrarinnar að verjast skaða.

Drykkir

Vatn – Áfengisdrykkja þurrkar okkur upp og ættum við að gæta þess að drekka vatn samhliða áfengisdrykkju – eitt glas minnst fyrir hvern áfengan drykk. En stundum gleymist það og við vöknum í vökvaskort og vansæld. Þá er gott að hafa vatnsbrúsann við hönd og vera duglegur að vökva sig.

Kókosvatn – Kókosvatn er aðeins betra heldur en venjulegt vatn því þarna erum við komin með næringarefni og vítamín líka. Mörgum þykir líka kókosvatn fara vel í viðkvæma maga.

Hvaða mat ætti að forðast?

Því miður ættir þú að forðast flestan þann mat sem þig langar sennilega í í þynnkunni. Feitur matur getur ruglað í meltingarkerfinu og jafnvel gert þynnkuna verri – sem er ekki það sem við viljum.

Kaffidrykkja er heldur ekkert sniðug. Koffínið hvetur nýrun til að leggja harðar að sér sem veldur því að líkaminn losar sig við enn meira af steinefnum og vökva – sem er öfugt við það sem er æskilegt í þessu ástandi.

Og gleymum afrétturunum. Þeir lækna ekki þynnku heldur fresta henni og á meðan tapar líkaminn jafnvel meira af nauðsynlegum efnum og vökva svo þegar þynnkan mætir aftur er hún enn verri.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa