fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Matur

Girnilegur helgarmatseðill í boði þáttarins Matur og Heimili – nú er líka grillað

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 1. apríl 2022 12:16

Helgarmatseðillinn þessa helgina er í boðið þáttarins Matur og heimili. Hér er brot af þeim réttum sem eldaðir hafa verið í þáttunum. MYNDIR AÐSENDAR.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgarmatseðillinn að þessu sinni er í boði þáttarins Matur og heimili á Hringbraut en allar uppskriftirnar eiga það sameiginlegt að þær hafa verið gerðar í þættinum og notið mikilla vinsælda. Hér má sjá síðu þáttarins Matur og heimili.

Þar sem það er vor í lofti mælum við með að taka út grillið um helgina og grilla alla vega eitt kvöld og njóta ljúffengra sælkerakræsingar sem boða sumar og sól. Svo eru líka hér réttir með asísku ívafi sem krydda bragðlaukana. Syndsamlegar uppskriftir af kjúklingaréttum sem framreiddir eru með nýstárlegum hætti og loks klassísk djöflaterta sem er fullkomin með helgarkaffinu. Gaman er að geta þess að allt hráefnið í þessa rétti fæst í verslunum Bónus svo hægt er að gera hagkvæm innkaup fyrir helgina.

Við mælum með edamame baunum með chili og hvítlauk og risarækju í asískum fushion stíl á föstudagskvöld. Mjög skemmtilegt tvist þar bragðlaukarnir fá að njóta sín í botn.

Eda­mame baunir með chili og hvít­lauk

1 poki frosnar eda­mame baunir
2 litlir hvít­laukar (riflausir) saxaðir
2 stk. ferskur, rauður chili­pipar, gróft saxaður
1 tsk. svartur pipar úr kvörn
1-2 tsk. chili krydd­flögur
grófar salt­flögur eftir smekk
ó­lífu­olía til steikingar

Byrjið á því að setja vatn í pott og sjóða. Þegar suðan er komin upp, hellið eda­mame baununum í vatnið og stráið ör­litlu af salt­flögum yfir og látið sjóða í um það bil 3 mínútur. Hellið vatninu af baununum í gegnum sigti. Hitið pönnu með ó­lífu­olíu í rúm­lega miðlungs hita. Þegar ó­lífu­olían er orðin vel heit, setjið þá saxaða hvít­laukinn og chili piparinn út í olíuna og steikið þar til hvít­laukurinn og chili piparinn eru orðnir mjúkir. Bætið þá baununum við og leyfið þeim að malla að­eins saman við. Kryddið í lokin með chili krydd­flögunum, svörtum pipar og grófum salt­flögum. Berið fram á fal­legan og að­laðandi hátt. Það er bæði mjög gott og fal­legt að strá grófum salt­flögum yfir þegar eda­mame baunirnar eru bornar fram.

Risa­rækjur í asískum fusion stíl

500 g risa­rækjur, ó­eldaðar, fást í Bónus
2-3 litlir hvít­laukar, fínt saxaðir
2 stk. rauður ferskur chili­pipar, gróft saxaður
4 msk. ó­lífu­olía
2 msk. maukað chili (fæst í krukku í Bónus)

Af­þíðið rækjurnar og þerrið vel á pappír eftir að þær hafa þiðnað. Setjið rækjurnar í skál með hvít­lauknum, chili, olíunni og chili-maukinu. Marínerið í 10-15 mínútur. Má marínera lengur. Steikið á rjúkandi heitri pönnu í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Það er líka hægt að þræða rækjurnar upp á stál­grill­pinna eða tré­grill­pinna og grilla á fun­heitu grilli í 2-3 mínútur á hvorri hlið.

Risa­rækjurnar eru gjarnan bornar fram með því að setja kletta­salat í grunna skál eða veg­legan bakka, síðan risa­rækjurnar yfir þegar þær eru til­búnar og skreytt með límónu­bátum og jafn­vel æti­blómum. Gott að setja smá límónu­safa yfir rækjurnar. Það má skreyta að vild með því sem ykkur þykir passa vel með rækjunum. Einnig er líka ljúft að snæða rækjurnar beint af pönnu eða grilli og njóta þeirra án þess að hafa salat með.

Á laugardagskvöld mælum sælkerakræsingum að hætti Hrefnu Sætran á grillið sem enginn verður svikinn af. Hér eru á ferðinni safaríkum grilluðum lambaprime, bökuðum hvítlauk og grilluðu paprikusalati með parmesanosti. Í eftirrétti er síðan syndsamlega ljúffeng grilluð epli með kókos súkkulaðisósu og/eða grillaðir ávextir með hunangi og geitarsosti.

Lambaprime í balsamiklegi

4 stk. lambaprime (eða um 180 g á mann)

110 ml agave sýróp

50 ml balsamikedik

50 g grófkorna sinnep

1 msk. chili flögur

2 stk. hvítlauksrif, rifin

Blandið öllu saman í fati og marínerið lambið upp úr leginum í að minnsta kosti 20 mínútur (má vera í sólarhring). Grillið lambið í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Takið kjötið aðeins til hliðar og grillið svo aftur í 3-4 á hvorri hlið. Lambaprime má elda meira en minna svo við mælum með að ná kjarnhitanum upp í 58°c.

Grillað papriku salat með parmesan osti

1 rauð paprika

1 græn paprika

1 appelsínugul paprika

Olía eftir smekk

salt og pipar eftir smekk

Skerið paprikurnar í frekar þykka hringi. Penslið með olíu, kryddið með salt og pipar og grillið sneiðarnar þangað til að fallegar grillrendur myndast. Setjið paprikuna á disk og raspið parmesan ost yfir.

Bakaðir hvítlaukar

2 stk. heilir hvítlaukar (stórir)

nokkrar timian greinar

olía

salt

álpappír

Pakkið hvítlaukunum inn í álpappír ásamt timjan og olíu og kryddið með smá salti. Bakið hvítlaukinn í rúman klukkutíma á óbeinum eld þar til hvítlaukurinn er orðinn mauk eldaður.

Grillað og bakað grænt epli með kókos súkkulaðisósu og ristuðum kókos flögum

2 stk. græn epli

4 msk. hrásykur

4 msk. ristaðar kókosflögur

Skerið eplin í tvennt og veltið upp úr hrásykrinum. Grillið sykurhliðina á heitu grilli þar til grillrendur myndast. Snúið þá eplinu við og setjið það á óbeinan eld og leyfið því að bakast alveg í 20-30 mínútur. Takið eplið af grillinu, setjið vel af súkkulaðisósu yfir og svo ristuðum kókos. Það skemmir ekki fyrir að bera fram ís með þessum rétt.

Kókos súkkulaðisósa

120 ml kókosmjólk

120 ml rjómi

200 g súkkluaði að eigin vali (mæli með saltkaramellu súkkulaði frá Nóa Siríus)

Setjið í pott og bræðið saman.

 

Grillaðir ávextir með hunangi og geitarosti

3 stk. plómur

3 stk. ferskjur

3 stk. fíkjur

Ólífuolía eftir smekk

1 stk. baquette

1 stk. franska geitarost, t.d. þennan í rúllunni (fæst í Bónus).

Hunang eftir smekk

Valhnetur eftir smekk

Plómur, ferskjur og fíkjur skornar í helminga. Penslið með olíu og grillið þar til fallegar grillrendur myndast. Skerið svo baquette brauð í þunnar sneiðar og grillið í örskamma stund. Setjið ávextina á disk og myljið geitarost yfir. Hellið svo hunangi yfir og setjið nokkrar valhnetur líka með.

Sunnudagskvöldið er helgað kjúklingnum og þá er um að gera að gefa sér tíma í eldamennskuna og töfra fram nýstárlegan og skemmtilegan kjúkling sem borinn er fram á vöfflu að hætti Friðgeirs Helgasonar kokks á Hótel Flatey. Það má líka stytta sér leiðina og vera með tilbúna kjúklingastrimla og útbúa þá sósuna með til toppa bragðið. Síðan er líka hægt að vera með tvist af mexíkósku í vafi, bjóða upp á kjúklinga taco og kjúklingavængi með sterkir sósu sem tekur örskamma stund að framreiða.

New Orleans Hood Style kjúklingurinn

4 bringur, skornar í tvennt

1 l súrmjólk

1 tsk. salt, gróft

1 tsk. svartur pipar

1 tsk. paprika

1 tsk. cayenne-pipar

1 tsk. hvítlauksduft

1 tsk. laukduft

1 tsk. timían

1 tsk. oreganó

1 tsk. basilíka

Setjið allt kryddið í súrmjólkina og hrærið saman. Setjið síðan kjúklingabitana út í. Setjið plast yfir og geymið í ísskáp í 12 til 24 tíma, því lengur sem kjúklingurinn er í krydduðu súrmjólkinni, því bragðbetri verður hann.

Hjúpur fyrir djúpsteikingu

2 bollar hveiti

1 msk. lyftiduft

1 tsk. salt, gróft

1 tsk. svartur pipar

1 tsk. cayenne-pipar

1 tsk. hvítlauksduft

1 tsk. laukduft

1 tsk. timían

1 tsk. oreganó

1 tsk. basilíka

Blandið lyftiduftinu og kryddinu saman við hveitið. Takið kjúklinginn, einn og einn bita upp úr krydduðu súrmjólkinni og veltið honum upp úr hveitinu. Setjið svo kjúklinginn, svona 2 til 3 bita í senn út í djúpsteikingarpott, með góðri kornolíu á 375°C gráðu hita í um sex til átta mínútur, eða þangað til kjúklingurinn verður fallega brúnn og að minnsta kosti 73°C. Leggið bitana á ofnplötu með grind ofan á.

Þegar kemur að vöfflunum er hægt að nota Vilko-vöfflumixið. Þið getið þá sparað ykkur tíma og einfaldað eldamennskuna. Þá er upplagt að bæta við það 1-2 teskeiðum af vanilludropum og svo er hægt að toppa þær með því að bæta við einum bolla af gróft hökkuðum pekanhnetum. Alltaf er þó best að gera sínar eigin vöfflur frá grunni, en uppskriftin að vöfflunum hans Geira fylgir hér með líka.

Vöfflur að hætti Geira

1 ½ bolli hveiti

1 tsk. salt, gróft

½ tsk. matarsódi

1 tsk. sykur

2 msk. smjör, mjúkt

1 tsk. kornolía

½ bolli hálfur & hálfur (rjómi og mjólk)

½ bolli mjólk

¼ bolli súrmjólk

¼ tsk. vanilludropar

1 bolli pekanhnetur, grófsaxaðar

1 egg, skilið

Blandið öllu saman nema egginu. Sláið eggjarauðuna og blandið í deigið. Mixið vel. Sláið eggjahvítuna þangað til hún er stinn, brjótið saman við deigið, ekki mixa of mikið né þeyta of mikið. Hitið vöfflujárnið og bakið fallegar vöfflur.

Hrásalatið hans Geira

½ hvítkálshaus

1 paprika, rauð

1 rauðlaukur

2 gulrætur

Graslaukur og fersk steinselja eftir smekk

1 tsk. fennelfræ

1 tsk. kúmen

1 tsk. salt, gróft

1 tsk. svartur pipar

2 tsk. sykur

½ tsk. cayenne-pipar

½ tsk. paprika

1 tsk. hvítlauksduft

1 tsk. cumin

Safi úr 1 sítrónu

2 tsk. sérrí-edik

1 msk. majónes

1 msk. Dijon-Sinnep

Skerið allt grænmetið í þunna strimla og blandið öllu saman. Bragðið og lagið eftir smekk.

Lögur á kjúkling

1 bolli smjör, bráðið

½ bolli Sriracha-sósa

½ bolli pönnukökusíróp, Maple (hlynsíróp) til að mynda.

Setjið kjúklinginn í bakarofn í 5 mínútur á 180°C hita.

Blandið smjörinu, Sriracha og pönnukökusírópinu í skál. Veltið kjúklingnum upp úr öllu gúmmulaðinu. Setjið graslaukinn og steinseljuna út í.

Leggið vöfflu á disk og svo 2 kjúklingabita ofan á. Hellið svo aðeins meiri sósu yfir. Má líka bæta við smá hlynsírópi ofan á ef þið eruð í stuði. Framreiðið að lokum með hrásalatinu hans Geira.

Taco með kjúkling og kjúklingavængir  er skemmtilegt tvist til að njóta á sunnudagskvöldi. Í verslunum Bónus eru komnir hinu girnilegu kjúklingavængir, “Crispy chicken Hot wings“ og kjúklingastrimlar,“Crispy chicken Strips“, sem hægt er að elda á örskammri stundu í vinsælasta heimilistæki landsins Air Fryer eða svo nefndum loftsteikingarpotti. Kjúklingastrimlarnir eru fullkomnir í soft taco, toppað með fersku grænmeti, kóríandersósu og sýrðum rjóma. Kjúklingavængirnir eru gómsætir með “hot wings“sósu og nachos. Stökkir að utan og safaríkir að innan eins og sælkerarnir vilja hafa þá.

Kjúklinga taco með kóríandersósu

1 poki kjúklingastrimlar Crispy chicken Strips

1 p litlar tortillur

1 dós sýrður rjómi, hræra,

1 búnt vorlaukur, skera í litlar sneiðar eða saxa eftir smekk

2 stk. chilipipar rauður, skera í sneiðar eða saxa eftir smekk

1 p salat að eigin vali eða salatblöð

kóríandersósa (sjá uppskrift fyrir neðan)

Byrjið á því að gera kóríandersósuna. Síðan er lag að skera allt grænmetið og taka það til. Bakið eða steikið kjúklinginn eftir leiðbeiningum. t.d. setjið í Airfryer pottinn ef hann er til staðar annars bakið kjúklinginn í ofni við 200°C hita þar til hann verður gullinbrúnn. Setjið síðan saman hráefni í tortillu eða raðið hráefninu upp svo hver og einn geti valið í tortilluna.

Kóríandersósan ómótstæðilega

¾ bolli af hráum kasjúhnetum (lífræna enn betra)

½ bolli af ferskum kóríander laufblöðum

1 stk. hvítlaukur, marinn (þessir í körfunum)

½ bolli af vatni – eða eins og ykkur finnst þurfa

3 msk. af ferskum límónu safa, kreista úr límónu

2 -3 msk. af avókadó

½ tsk. af fínu sjávarsalti

½ tsk. af hvítlauksdufti

Byrjið á því að setja kasjúhneturnar í skál og hellið sjóðandi vatni yfir þær. Passið að vatnið nái yfir allar hneturnar. Látið liggja í vatninu í klukkutíma eða í volgu vatni yfir nótt. Hreinsið hnetur og hellið vatni af. Bætið síðan öllu hnetumaukinu og öðru hráefni í góðan blandara. Blandið vel. Ef hneturnar og hitt hráefnið er ekki að blandast nógu vel saman að þínum smekk þá má bæta örlitlu af vatni saman við. Berið sósuna fram í fallegri skál eða í glasi á fæti og skreytið með kóríanderblöðum. Hún verður fislétt og fallega fagurgræn á litinn.

Kjúklingarvængir með sterkri sósu og nachos

1 poka kjúklingavængir “Crispy chicken Hot wings“

1 poka svart Doritos

1 flaska af sterkir hot wingssósu (fæst í Bónus líka)

Eða útbúa sterkasósu að eigin vali.

Kjúklingavængirnir hitaðir upp eftir leiðbeiningum og síðan eru þeir bornir fram ásamt meðlætinu á skemmtilegan hátt, til dæmis á stórum disk eða fati.  Líka hægt að vera með sýrðan rjóma með eða hvað eina sem bragðlaukarnir ykkar fíla.

Vert er að halda í gamlar og góðar hefðir og nýta sunnudagana til að bjóða fjölskyldumeðlimum og/eða vinum í gott sunnudagskaffi. Þá er tilvalið að bjóða upp á veitingar sem lagaðar eru úr uppskriftum sem hafa verið í fjölskyldunni í áratugi. Mælum eindregið með þessari syndsamlegu ljúffengu Djöflatertu með helgarkaffinu.

Syndsamlega ljúffeng Djöflaterta að hætti ömmu

1 ½ bolli hveiti

1 ¼ bolli sykur

½ bolli kakó

1 ¼ tsk. matarsódi

¼ tsk. salt

2/3 bolli mjólk (má vera laktósafrí)

2/3 bolli íslenskt smjör

1 tsk. vanilludropar

2 meðalstór egg

1/3 bolli mjólk

Djöflatertukremið

345 g flórsykur

2 msk. kakó dökkt

120 g íslenskt smjör

1 stk. egg

Hitið ofninn í 200°C og smyrjið miðlungs stórt form og sáldrið hveiti yfir allt formið og bankið lausa hveitið úr. Setjið til hliðar meðan hráefnið er að blandast saman. Setjið fyrst saman í skál öll þurrefnin, hveiti, sykur, kakó, matarsóda og salt. Hrærið vel saman. Síðan setjið 2/3 bolla af mjólk (ekki alla mjólkina strax, þess vegna er hún skráð í tveimur hlutum), smjörið og vanilludropana og hrærið vel saman. Loks setjið þið eggin ásamt 1/3 bolla af mjólk og hrærið vel. Hellið í formið og tryggið að deigið liggi jafnt í forminu. Bakið í miðjum ofni í 30-40 mínútur eða þar til þið sjáið að kakan hefur losnað frá kantinum. Getið notað prjón og stungið í og sjáið ef hann kemur hreinn út þá er kakan tilbúin. Takið kökuna úr forminu á þann disk sem þið ætlið að bera hana fram á og látið kólna áður en kremið er smurt á.

Djöflatertukremið þeytt saman

Þegar kakan hefur kólnað þeytum við kremið. Setjið saman flórsykur, kakó, smjör og egg og þeytið vel saman þar til kremið er orðið þétt og slétt í sér, kekkjalaust. Smyrjið kremið ofan á kökuna og skreytið að hjartans list. Berið Djöflatertuna fram með þeyttum rjóma, jarðarberjum og hvað eina sem bragðlaukarnir girnast.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa