fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Matur

Veitingageirinn snýst gegn áhrifavöldum – Endalok glysgjarna „horfðu-á-mig“-tímabilsins

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 26. janúar 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er vinsælt að sérfræðingar í veitingahúsageiranum hefji nýja árið á að spá fyrir um strauma og stefnu í bransanum, hvort sem það er í mat eða drykk. Athygli vekur að eitt trend er að finna á mörgum listum sérfræðinga, en það er kallað á ensku „anti-Instagram interiors“, sem gæti útlagst sem „and-Instagram innréttingar“. Þessi tíska er meðal annars talin með þeim stærri í bransanum samkvæmt alþjóðlegri skýrslu markaðsfyrirtækisins J. Walter Thompson.

Hér má sjá hvernig Lucky Cat í London er innréttaður.

Þeir nýju veitingastaðir sem hafa náð hvað mestri athygli í veitingahúsabransanum hafa tileinkað sér þetta trend, til að mynda veitingastaður Gordons Ramsay, Lucky Cat, sem var opnaður í London í júní í fyrra. Staðurinn er innréttaður í dökkum tónum og vildu hönnuðir meðvitað forðast sterka liti, djarft veggfóður og ágenga lýsingu, sem veitingastaðir hafa unnið með svo fólk gæti tekið myndir fyrir Instagram á staðnum. Djúpir litir og dökk lýsing Lucky Cat skapar andrúmsloft sem á að njóta á staðnum – ekki af skjá.

Andrúmsloftið á Lucky Cat er huggulegt.

Viljandi dökkt

Það var hönnunarstofan AfroditiKrassa sem sá um að innrétta staðinn og segir stofnandi stofunnar, Afroditi Krassa, í samtali við Dezeen að stofan hafi viljandi gert staðinn dökkan til að letja fólk í að deila myndum af honum og matnum á Instagram.

„Við reyndum að vinna með efni og liti sem eru mildir og klassískir, sem æpa ekki á mann,“ segir hún. „Hve oft heimsækir maður stað því hann lítur vel út á myndum en veldur manni vonbrigðum í raunheimi?“

Lifa í núinu

Farið er fögrum orðum um Lucky Cat í skýrslu J. Walter Thompson, en einnig bent á aðra staði sem hafa orðið brautryðjendur í þessum tískustraumi, þar á meðal veitingastaðurinn og barinn Marcus á Four Seasons-hótelinu í Montreal sem var opnaður í maí í fyrra. Í skýrslunni er því spáð að þetta marki upphaf endaloka Instagram-hugarfarsins, þar sem allt þarf að enda á samfélagsmiðlum, og við taki tímabil þar sem almenningur reynir að aftengjast.

Marcus í Montreal – Gráir tónar og ljúf stemning.

„Þessi hönnunaraðferð markar endalok glysgjarna „horfðu-á-mig“-tímabilsins sem gerði mun meira en þurfti úr upplifun og varð til þess að rými voru hönnuð með þann eina tilgang að líta vel út á samfélagsmiðlum,“ stendur í skýrslunni. „Í framtíðinni munu neytendur velja rými sem hvetja þá til að lifa í núinu frekar en að upplifa heiminn í gegnum linsuna á símanum.“

Grammið út

Síðasta tæpa áratuginn hefur samfélagsmiðillinn Instagram fest sig vel í sessi og er þriðji stærsti samfélagsmiðill í heimi, á eftir Facebook og YouTube. Margir tala ekki lengur um að taka myndir heldur einfaldlega „að gramma“ eða „setja á Instagram“. Myndir eru þvældar til í leit að fullkomnun og eitt af því sem hefur verið hvað vinsælast á miðlinum eru myndir af mat og veitingastöðum. Raunar hafa margir áhrifavaldar atvinnu af því að heimsækja veitingastaði og borða þar mat sem síðan er myndaður í bak og fyrir í þeim eina tilgangi að setja á Instagram og auglýsa veitingastaði.

Yfirdrifið Elan Café í London er dæmi um stað sem er hannaður fyrir Instagram.

Nú virðist stefna í að veitingastaðir, allavega þeir sem eru með verð og standard í hærri endanum, ætli að snúa baki við markaðssetningu með hjálp áhrifavalda og einbeita sér að því að skapa góða upplifun fyrir veitingastaðagesti, í rólegu og mildu andrúmslofti þar sem síminn er víðs fjarri og hugurinn bundinn við mat, drykk og félagsskap.

Grammaður í drasl Corbaci Café í Vín er annar mjög Instagram-vænn staður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa