fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024

Hinsta orrusta og aftaka aðmírálsins

Ritstjórn DV
Laugardaginn 8. febrúar 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður er nefndur John Byng. Hann fæddist í Southill Park í Southill-sókn í Bedfordshire á Englandi og var skírður 29. október árið 1704.

Faðir Johns, George Byng, var enginn meðaljón. George hafði stutt William III til valda árið 1689 og allar götur þaðan í frá hafði vegsemd hans aukist statt og stöðugt. George Byng var hæfileikaríkur skipstjórnandi og hafði haft sigur í fjölmörgum sjóorrustum. Hann var mikils metinn af þeim þjóðhöfðingjum sem hann þjónaði og árið 1721 umbunaði George I Englandskonungur George Byng með því að gera hann að vísigreifa af Torrington.

Snemma beygðist krókurinn

John Byng fetaði í fótspor föður síns og gekk í sjóherinn aðeins þrettán ára að aldri. Hann hlaut kannski sína eldskírn þegar hann tók þátt í Cape Passaro-orrustunni árið 1718, en í henni var breski flotinn einmitt undir stjórn föður hans og hafði sigur gegn Spánverjum.

Næstu þrjátíu árin gat hann sér orð sem traustur sjóliðsforingi og var hækkaður í stöðu varaaðmíráls árið 1747.

John Byng
Gekk í sjóherinn aðeins 13 ára að aldri.

Til að byrja með var John Byng viðloðandi hin ýmsu verkefni við Miðjarðarhafið og var tilveran að mestu tíðindalítil. Árið 1742 var hann sendur til bresku nýlendunnar á Nýfundnalandi þar sem verk hans fólst í að veita vernd árlegum skipalestum breskra fiskimanna sem vor hvert lögðu upp frá Englandi til fiskimiðanna við Nýfundnaland.

Einnig var John Byng þingmaður, fyrir Rochester, frá árinu 1751 til dauðadags, sem kom fyrr en hann sennilega hugði.

Frakkar steyta görn

Árið 1756 dró til tíðinda á Miðjarðarhafi, en þá var skip Johns Byng við eftirlit á Ermarsundi. Franski sjóherinn var eitthvað að steyta görn á þeim slóðum og settist um virki Englendinga á Minorca-eyju, St. Philip í Port Mahon, sem hafði tilheyrt Bretum frá árinu 1708.

Cape Passaro-orrustan 1718
Fyrsta orrustan sem John Byng tók þátt í.

Það hugnaðist Englendingum lítt og fékk John Byng fyrirmæli um að fara og rjúfa herkvína. Fyrirvarinn var skammur og þrátt fyrir mótmæli Johns fékk hann ekki svigrúm til undirbúa skip sitt fyrir leiðangurinn. Þann 6. apríl, 1756, var þó búið að fullmanna áhöfn skipsins og það kom til Gíbraltar 2. maí.

Áhyggjufullur aðmíráll

Þar fór frá borði deild léttvopnaðra fótgönguliða til að skapa pláss fyrir hermenn þá sem styrkja áttu varnir í St. Philip.

Bréfaskrif Johns Byng til flotamálaráðuneytisins sýna að hann hafði efasemdir um ágæti aðgerðanna. Hann taldi að hann væri of fáliðaður og að virkið gæti ekki staðist árás Frakka eins og í pottinn var búið.

Flotamálaráðuneytið hafnaði beiðni John Byng um fleiri hermenn og Byng lagði úr höfn á Gíbraltar 8. maí.

Áður en hann náði höfn á Minorca höfðu 15.000 franskir hermenn gengið á land á vesturströnd eyjarinnar og dreift sér þaðan um alla eyjuna. Skip Johns var úti fyrir auströndinni og þaðan reyndi hann að koma á samskiptum við landa sína í virkinu.

Farið til Gibraltar

Í stuttu máli urðu málalyktir orrustunnar, 20. maí 1756, á milli Frakka og Breta þær að hvorugur aðili missti skip og fjöldi særðra og fallinna var svipaður; Bretar misstu 43 sjóliða og 168 særðust, en Frakkar misstu 38 og 175 særðust.

Breski flotinn hélt sig í grennd við Minorca en náði hvorki sambandi við virki Breta né sá til Frakka og Byng kallaði til fundar skipstjóra skipanna. Þar lýsti hann þeirri skoðun sinni að Minorca væri glötuð og það besta í stöðunni að snúa til Gíbraltar og láta gera við skipin.

St. Philip-virkið í Port Mahon
Frakkar náðu virkinu á sitt vald í júní 1756.

Skipstjórar hinna skipanna, sem lutu yfirstjórn Johns Byng, voru honum sammála og komu skipin til Gíbraltar 19. júní. Þar bættust fjögur skip í flotann, viðgerðir fóru fram og vistir teknar.

Uppgjöf með skilmálum

Áður en floti Byng gat haldið úr höfn á ný kom skip frá Englandi með frekari fyrirmæli. Byng var sviptur stjórn og honum gert að snúa heim til Englands.

Þegar Byng kom til Englands var hann hnepptur í varðhald. Fyrir kaldhæðni örlaganna hafði honum verið veitt yfirstjórn flotans (e. full admiral) 1. júní, í kjölfar orrustunnar við Minorca en áður en tíðindi bárust af lyktum þar.

Hermenn í virkinu gátu staðist umsátur Frakka til 29. júní en neyddust þá til að gefast upp sem þeir gerðu með skilmálum. Samkvæmt skilmálunum gátu breskir hermenn farið óáreittir til Englands og Minorca féll Frökkum í skaut.

Byng úthúðað

Aftur að John Byng. Að Byng hefði mistekist að frelsa virkið á Minorca fór fyrir brjóstið á kollegum hans heima fyrir, og reyndar almennings einnig. Honum var gert að standa skil að aðgerðum sínum frammi fyrir herdómstól, sem vel að merkja hafði þá nýlega, í kjölfar endurskoðunar, öðlast heimild til að beita dauðarefsingu. Ein lög skyldu gilda fyrir alla og skyldu innibera dauðadóm yfir hverjum yfirmanni, án tillits til tignar, sem ekki gerði sitt allra besta gegn óvini í orrustu eða eftirför.

Þetta leit ekki vel út fyrir John Byng og herdómstóll kom saman þann 28. desember, 1756, um borð í gömlu 96 fallbyssna skipi, HMS St. George, í höfninni í Portsmouth.

Ekki heigull

Eðli málsins samkvæmt voru það kollegar Johns Byng sem skipuðu herdómstólinn; fjórir aðmírálar og níu skipstjórar. Niðurstaðan lá fyrir fjórum vikum síðar, 27. janúar, 1757, og var útlistuð í lýsingu á atburðarás í orrustunni við Minorca og túlkun á aðgerðum og ákvörðunum Johns Byng.

John Byng var sýknaður af ákæru um heigulshátt, en í megindráttum var niðurstaðan sú að honum hefði mistekist að halda flota sínum saman í orrustunni við Frakka, skotið hefði verið úr of mikilli fjarlægð og að hann hefði átt að halda áfram aðgerðum til að frelsa virkið í stað þess að snúa til Gíbraltar. John Byng hafði sem sagt ekki gert „sitt allra besta“ í að takast á við óvininn og þannig gerst brotlegur við áðurnefnda viðbót herlaga þess tíma.

Beðið um mildun

Fátt var í stöðunni hjá herdómstólnum annað en dæma John Byng til dauða og gerði hann það, en einróma var þó mælst til þess að lávarðarnir í flotamálaráðuneytinu færu þess á leit við Georg II Englandskonung að hann nýtti forréttindi sín og mildaði dóminn.

Það kom í hlut aðmíráls að nafni John Forbes í flotamálaráðuneytinu að undirrita dauðadóminn, en hann neitaði að gera það; sagði dóminn ólöglegan og útskýrði mál sitt í löngu máli.

Flotamálaráðherrann, Richard Grenville-Temple, fékk áheyrn hjá konunginum, en bón hans um miskunn til handa John Byng var hafnað í frekar reiðilegum tón.

Byng fær stuðning

Þaðan í frá, þrátt fyrir að hver maðurinn af öðrum reyndi að tala máli Byng, tóku stjórnmálin við – þrátt fyrir að ljóst væri að flotamálaráðuneytið bæri að minnsta kosti hluta ábyrgðar á óförunum við Minorca.

Það kvisaðist að flotamálaráðuneytið hefði reynt að firra sig sök með því að kasta John Byng fyrir úlfana og stuðningur við hann jókst hvort tveggja innan sjóhersins og landsmanna almennt, sem höfðu þó áður sýnt annan lit, og Englandskonungur beitti ekki forréttindum sínum.

Vasaklúturinn látinn falla

Frá því að dómur var kveðinn upp hafði John Byng verið í haldi um borð í HMS Monarch (Monarque, skip sem tekið var herfangi af Frökkum) á Solent-sundi. Þann 14. mars, 1757, var John Byng færður upp á afturþilfar og tekinn af lífi að allri áhöfn skipsins, og áhöfnum annarra nærliggjandi skipa, viðstaddri.

Byng mætir örlögum sínum
Skiptar skoðanir eru um réttmæti dauðadóms yfir aðmírálnum.

John Byng aðmíráll kraup með hnén á púða og gaf til kynna að hann væri reiðubúinn með því að láta vasaklút sinn falla. Aftökusveitin var úr röðum konunglegra sjóliða.

François-Marie Arouet, franskur heimspekingur með meiru og betur þekktur sem Voltaire, hæddist að aftökunni og tilurð hennar í bók sinni, Candide. Í bókinni er söguhetjan, Candide, látin verða vitni að aftöku sjóliðsforingja í Portsmouth og er sagt við hann: „Í þessu landi er gott að drepa aðmírál endrum og sinnum, til að vekja hugrekki hjá öðrum.“

Skiptar skoðanir

Árið 2007 fóru niðjar Johns Byng þess á leit við bresku ríkisstjórnina að honum yrði veitt sakaruppgjöf. Beiðninni var hafnað þrátt fyrir að flestir sem þekkja til málsins séu þeirrar skoðunar að dauðadómurinn hafi verið óverðskuldaður, enda hefur aftakan verið sögð „versti réttarfarslegi glæpurinn í sögu þjóðarinnar.“

Þeir eru til sem telja að hvort tveggja dauðadómurinn og aftakan hefði haft áhrif á seinni tíma foringja í sjóhernum. Þeirra á meðal er sagnfræðingur að nafni N.A.M. Rodger sem segir að örlög Johns Byng hefðu skapað „menningu herskárrar staðfestu sem skildi á milli breskra foringja og útlendra kollega, og sem síðar meir veitti þeim sívaxandi sálfræðilega yfirburði.“

Ekki verður lagt mat á það hér og nú.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Verstu skrif Þórðar Snæs úr blogginu alræmda – „Hún var ekki með brjóst, samt með vömb, stóran rass, stuttar lappir, gróft hár og þrútið andlit“

Verstu skrif Þórðar Snæs úr blogginu alræmda – „Hún var ekki með brjóst, samt með vömb, stóran rass, stuttar lappir, gróft hár og þrútið andlit“
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Ekki hlustað á Akurnesinga sem sökuðu Morgunblaðið um smellubeitu – „Sem er verulega ámælisvert af blaðamanni“

Ekki hlustað á Akurnesinga sem sökuðu Morgunblaðið um smellubeitu – „Sem er verulega ámælisvert af blaðamanni“
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Tom Brady viðurkennir að hafa gert mistök í föðurhlutverkinu

Tom Brady viðurkennir að hafa gert mistök í föðurhlutverkinu
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Glímir við mjög sjaldgæfa kynlífsröskun – „Ég þarf að læsa mig inni í herbergi“

Glímir við mjög sjaldgæfa kynlífsröskun – „Ég þarf að læsa mig inni í herbergi“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt

Hart sótt að Þórði Snæ eftir afsökunarbeiðnina – Ingibjörg á Heimildinni segir hann skorta auðmýkt
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Einar Bárðar: „Ef maður væri hræddur við það ætti maður líklega ekki erindi í að fara í framboð“

Einar Bárðar: „Ef maður væri hræddur við það ætti maður líklega ekki erindi í að fara í framboð“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot – Missir bílprófið

Dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot – Missir bílprófið
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“