fbpx
Sunnudagur 10.nóvember 2024

Morðið á aðstoðarmanninum í Atherton

Ritstjórn DV
Föstudaginn 17. maí 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gróusögur voru líf og yndi frúar Söruh Clews í enska bænum Atherton, á Stór-Manchester-svæðinu. Júlímorgun einn, árið 1889, klukkan tuttugu mínútur yfir níu skaust Sarah yfir í skartgripabúðina við Market-stræti því þar vann ungur aðstoðarmaður, Walter Davies, sem hafði gaman af masinu í henni. Reyndar var viðkoma í versluninni orðin fastur liður í tilveru Söruh Clews.

Market-stræti
Í skartgripaverslun við þessa götu var Walter Davies myrtur.

En þennan morgun var engan að sjá í versluninni og hún kallaði: „Walter,“ en fékk ekkert svar. Sarah vogaði sér aðeins innar í búðina og sá þá að kjallarahurðin féll ekki alveg að stöfum. Að frú Söruh Clews setti ugg.

Allt löðrandi í blóði

„Walter, Walter, ertu þarna?“ kallaði Sarah niður í niðadimman kjallarann. Að neðan heyrði hún óhugnanleg hljóð, líkt og einhver væri að kafna. Henni leist ekki meira á blikuna en svo að hún yfirgaf verslunina í flýti og hraðaði sér heim til að ná í Jack, son sinn.

Jack fór með henni í verslunina og fór niður í kjallarann með lukt. Í skímunni sá hann hvar Walter lá í blóði sínu og einnig voru veggirnir baðaðir blóði. Walter var dáinn og ljóst að hann hafði verið barinn heiftarlega, með beittu vopni, í höfuð og háls og hálsæðin var í sundur.

Prúttaði um verð

Nokkur vitni sögðu lögreglu að þau hefðu séð virðulegan mann fara inn í búðina rétt fyrir klukkan átta og eitt vitni sagðist hafa séð umræddan mann prútta um verð á silkivasaklút. Þar sem ekki var að sjá nokkur ummerki átaka ályktaði lögreglan að maðurinn hefði síðan snúið aftur í búðina.

Walter hefði sennilega gripið hann glóðvolgan við að stela úrum, þjófurinn náð að slá Walter svo hann féll niður í kjallarann. Þar hefðu hin banvænu átök síðan átt sér stað.

Bent lögregluforingi, sem sá um rannsókn málsins, sagði síðar í endurminningum sínum: Hann [morðinginn] var síðan svo óforskammaður og kaldrifjaður að fara í gegnum vasa fórnarlambs síns, þar sem það lá blóðugt við fætur hans. Hann stal úrinu hans og keðju og því litla fé sem hann hafði í vösunum.“

Handtaka á markaði

Síðar þennan sama dag komst lögreglan á snoðir um að morðinginn hefði veðsett einhverja muni hjá veðlánara við Rochdale-veg í Manchester. Hann hafði kvittað fyrir með nafninu Fred Smith.

Gerðist fátt næstu mánuði, eða þar til snemma í október. Þá handtóku þrír lögreglumenn 48 ára karlmann, John Edward Lorn, á markaði í Wigan.

Hann var færður í höfuðstöðvar lögreglunnar í Manchester og þar bar veðlánarinn frá Rochdale kennsl á hann og sagði að þar væri kominn maðurinn sem veðsetti úr og fleira úr fórum Walters Davies.

Sýndist lögreglu nú sem málið væri upplýst.

Gómaður í veðlánabúð

Ekki voru þó öll kurl komin til grafar og á þessum tíma var mikið um þjófnaði á lestarstöðvum í Eccles, Manchester, Carlisle og Crewe. Þjófurinn sem þar var á ferðinni var virðulegur að sjá og einbeitti sér alla jafna að konum og körlum sem virtust í þokkalegum efnum.

Áður nefndan Bent grunaði að þjófurinn hefði aðsetur í Eccles og þann 28. október var William nokkur Chadwick, 28 ára, gripinn þegar hann reyndi að veðsetja muni sem stolið hafði verið af ónefndum lestarfarþega.

William Chadwick
Hneigðist ungur til þjófnaða.

Við leit á heimili Williams Chadwick fannst ógrynni af veðmiðum og fjöldi muna auk 600 sterlingspunda í reiðufé.

„Með rangan mann í haldi“

Nú tóku mál óvænta stefnu því á meðan Chadwick var í varðhaldi las hann í dagblaði um handtöku Johns Edwards Lorn vegna morðsins í Atherton.

„Þeir eru með rangan mann í haldi vegna þess máls. Veðlánarar myndu sverja hvað sem er,“ sagði hann við lögreglumann að nafni Chipchase.

Þegar Chadwick var síðar færður fyrir dómara og ákærður fyrir lestarstöðvaþjófnaði gaf Chipchase sig á tal við Bent og sagði honum hvað William Chadwick hefði sagt.

Bent fór til Williams og sagði að hann mætti vænta ákæru fyrir alvarlegri glæp en þjófnað.

Sama rithönd

Chadwick sagði við Bent að hann hefði vitað að hann yrði kærður fyrir Atherton-morðið áður en langt um liði. Þann 29. október sagði William Chadwick við Bent: „Þú getur sleppt manninum sem þú ert með í varðhaldi. Hann er ekki sekur. Hann kom ekki nálægt því [morðinu].

Bent bað þá Chadwick að skrifa nafnið Fred Smith sem hann gerði möglunarlaust. Ekki fór á milli mála að um sömu rithönd var að ræða og á kvittunum veðlánabúðarinnar í Rochdale.

Vitni voru kölluð til og öll bentu þau hiklaust á William Chadwick sem manninn í skartgripaversluninni í Atherton.

Sagðist saklaus

Hvað sem orðaskiptum Bent og Williams leið þá sagðist William saklaus af morðinu í Atherton þegar réttarhöld yfir honum hófust í Liverpool, 28. mars árið 1890.

Lestarstöðin í Eccles
Vettvangur margra þjófnaða Williams Chadwick.

Verjandinn benti á hve óáreiðanleg vitni væru, enda hefðu sömu vitnin bent á Lorn á sínum tíma. Gætu þau ekki haft rangt fyrir sér núna, spurði verjandinn.

Dómarinn benti þá á að William hefði haft í fórum sínum ýmsa muni sem stolið hefði verið í Atherton auk þess sem hann hefði veðsett muni undir nafninu Fred Smith, það gæti ekki verið tilviljun.

Áður dæmdur

Það tók kviðdómara innan við hálftíma að komast að niðurstöðu um sekt Williams Chadwick. Hann fékk tækifæri til að segja nokkur orð áður en dómur yrði kveðinn upp. Hann nýtti sér það og hélt svo langa ræðu að dómarinn neyddist til að fyrirskipa að hann yrði fjarlægður úr stúkunni.

Síðan var kveðinn upp dauðadómur.

Í ljós kom að Chadwick hafði ungur að árum byrjað að stela og lenti iðulega upp á kant við lögin. Einnig hafði hann, árið 1882, verið dæmdur til sjö ára hegningarvinnu eftir að hafa gengið í skrokk á gjaldkera í ráni í Radcliffe. Gjaldkerinn lést síðar af áverkum sínum.

William Chadwick var tekin af lífi 15. apríl árið 1890.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Þorgerður lofsyngur landsliðsmann Íslands – „Svo mikil seigla, kraftur og dugnaður í honum“

Þorgerður lofsyngur landsliðsmann Íslands – „Svo mikil seigla, kraftur og dugnaður í honum“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Maðurinn sem lýst var eftir er fundinn

Maðurinn sem lýst var eftir er fundinn
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Amorim útilokar að Gyokores semji í byrjun árs

Amorim útilokar að Gyokores semji í byrjun árs
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ fær að finna fyrir reiði kvenna

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ fær að finna fyrir reiði kvenna