fbpx
Sunnudagur 06.október 2024
Fréttir

Kona varð að ganga með neyðarhnapp árum saman vegna ofsókna Kourani – „Varð óvinnufær með öllu“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. júlí 2024 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögfræðingur sem starfaði hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands mátti þola gengdarlausar ofsóknir af hendi Mohamad Kourani, Sýrlendings sem réttað var yfir í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni vegna ákæru um sex ofbeldisbrot, þar á meðal manndrápstilraun og stórhættulega líkamsárás með hnífi á tvo menn í versluninni OK Market í marsmánuði síðastliðnum.

Kourani kom hingað til lands árið 2018 og hlaut alþjóðlega vernd. Hann hefur framið fjölmörg afbrot hér á landi síðan og er margdæmdur, meðal annars fyrir líkamsárásir og sprengjugabb. Á undanförnum mánuðum hefur stigið fram fólk sem Kourani hefur ofsótt á liðnum árum, þar á meðal vararíkissaksóknari, Helgi Magnús Gunnarsson.

Við þingsetningu málsins gegn Kourani í Héraðsdómi Reykjaness hótaði hann dómara, lögreglumönnum, eigin lögmanni, túlki og fleira starfsfólki dómsins lífláti. Við aðalmeðferð málsins hafði hann í hótunum við blaðamann DV sem leiddi til þess að dómari setti ofan í við hann.

Sjá einnig: Réttarhöld yfir Mohamad Kourani – Reyndi að svipta mann lífi í OK Market – „Ég gerði ekki neitt“

Kona sem kýs að koma fram undir nafnleynd liðsinnti Kourani í starfi sínu sem lögfræðingur hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Kourani sýndi henni ekki þakklæti fyrir þjónustuna heldur tók að ofsækja hana vegna gremju yfir því að hún gat ekki aðstoðað hann að því marki sem hann hafði væntingar um.

 Þurfti að ganga með neyðarhnapp

„Ég fæ ennþá brjálæðislega hræðslutilfinningu, kvíðahnút og kökk í hálsinn þegar ég heyri minnst á þennan mann en ég var ein af þeim útvöldu sem hann fékk á heilann,“ segir konan.

Hún þurfti að ganga með neyðarhapp í nokkru ár vegna hótana Kourani: „Hann sagðist hlakka til að sprengja mig upp, ætlaði að kæfa mig með getnaðarlimi sínum, ætlaði að ganga frá börnunum mínum, ætlaði að míga yfir gröf móður minnar, já hann gekk svo langt að vera búinn að finna það út að móðir mín væri dáin, og svona mætti lengi telja. Kærugögnin skipta tugum blaðsíðna með hótunum, svívirðingum og viðbjóði.“

Konan telur Kourani ekki eiga heima í mannlegu samfélagi: „Þetta gekk svona í mörg ár. Þessi maður er óstöðvandi, hann á ekki að eiga þann kost að draga að sér sama súrefni og við hin.“

Aðspurð hvaða vernd hún hafi fengið gegn ofsóknum mannsins segir konan hana hafa verið takmarkaða:

„Satt best að segja þá fann ég ekki fyrir miklu öryggi frá þessum meinta öryggishnappi þó að ég hafi fengið einn slíkan hjá lögreglu, enda viðbragðstíminn óheyrilegur líkt og ég fékk nokkrum sinnum að finna fyrir, þá var ég einnig með svokallaða krækju á símanúmerinu mínu sem og vinnusímanum svo ég yrði í forgangi myndi ég hringja inn til Neyðarlínunnar. Auk þess var málið fellt niður hjá lögreglu án útgáfu ákæru þannig að hann þurfi aldrei að svara fyrir þau brot sem ég varð fyrir af hans hálfu.“

 Telur vinnustaðinn bera ábyrgð

Konan telur þáverandi vinnuveitanda sinn bera vissa ábyrgð í málinu:

„Ég tel að þáverandi vinnuveitandi minn hafi ekki sinnt skyldum sínum um að gæta öryggis á vinnustað enda fékk þetta að ganga á í langan tíma án nokkurra öryggisráðstafana og enn í dag mæti ég fullkomnu skilningsleysi af þeirra hálfu vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem mál þetta hefur haft á mína heilsu, en ég að lokum lagði inn kæru til lögreglu árið 2021 þegar heilsan mín var orðin þess eðlis að ég var  hér um bil orðin óvinnufær. Ég fæ þá fyrrgreindan öryggishnapp sem ég var með þar til snemma á síðasta ári, en þá hafði ég játað mig sigraða og varð óvinnufær með öllu og lauk þar með störfum mínum fyrir Mannréttindaskrifstofu Íslands.“

Hún nefnir dæmi um helstu ofsóknaraðferðir Kourani í hennar garð: „Þetta voru ýmist líflátshótanir, svívirðingar og ofsóknir sem bárust á vinnupósta, á Facebook og svo gerði hann í því að hringja að næturlagi á þeim tíma sem sími skrifstofunnar var framsendur til mín vegna COVID-lokana, og ýmist anda í símann, stynja í símann eða tala að því er virtist tungum. Þá kom hann líkt og fyrr greinir af og til inn á skrifstofur okkar að Túngötu, gekk framhjá gluggum skrifstofunnar, gerði ýmsar hreyfingar sem bentu til þess kynferðislega ofbeldis sem hann hafði oft hótað mér með, varnaði mér einu sinni aðgangi að skrifstofunni þegar ég mætti um morgun, þ.e. stóð fyrir framan skrifstofuna snemma morguns og svona mætti lengi telja.“

Konan segir að þeir sem hafi orðið fyrir barðinu á ofsóknum og andlegu ofbeldi Kourani verði lengi að jafna sig: „Það mun taka mig, líkt og eflaust flesta aðra sem lent hafa í honum eða slíkum aðstæðum, mörg ár að jafna mig, – ef ég þá mun nokkurn tímann gera það að fullu.“

Dómur yfir Mohamad Kourani fyrir árásina í OK Market og fleiri ofbeldisbrot verður kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness þann 15. júlí.  Héraðssaksóknari fer fram á sex til átta ára fangelsi í málinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Engin miskunn gegn eftirlýstri móður – Verður framseld og þarf að sitja í fangelsi

Engin miskunn gegn eftirlýstri móður – Verður framseld og þarf að sitja í fangelsi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki

Hyggjast knýja á um íbúakosningu fyrst bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykki hana ekki