Í færslu sem birtist á Facebook-síðu hópsins í hádeginu eru tíundaðar ástæður þess að gosið gæti dregist á langinn.
„Nú þykir einnig nokkuð ljóst að landris í Svartsengi hefur stoppað. Því virðist ákveðið jafnvægi vera komið á kerfið – innflæði kviku upp í jarðskorpuna er til jafns við það sem streymir út í eldgosinu. Síðustu mánuði hefur slíkt sírennsli ekki verið til staðar, heldur hefur innstreymið safnast fyrir í grunnstæðu kvikuhólfi/laggangi undir Svartsengi, sem síðan hefur orsakað ítrekuð, skammlíf eldgos þegar þrýstingur í hólfinu var nægur til að brjóta leið upp á yfirborð.“
Bent er á það að þetta innstreymi hafi verið í gangi síðan í október, eða í tæplega hálft ár.
„Því má ætla að eldgosið gæti orðið nokkuð langdregið, þar sem engar vísbendingar hafa verið um það síðustu mánuði um að tekið sé að hægja á þessu innstreymi. Hraunbreiðan hefur síðustu daga hækkað töluvert norðan leiðigarðana við Grindavík. Ásýnd landsins hefur þar breyst mikið frá því um síðustu helgi.“