fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fréttir

Telur að varnargarður við Svartsengi gæti stefnt Grindavík í aukna hættu – „Þetta getur stytt viðbragðstíma og aukið líkur á að hraun flæði yfir byggð“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 28. desember 2023 20:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Varnargarðarnir við Svartsengi gætu mögulega orðið til þess að meira hraun en ella flæði til Grindavíkur með tilheyrandi afleiðingum. Þetta segir landfræðingurinn Daníel Páll Jónasson, sem furðar sig á því að þessi möguleiki hafi ekki komið til opinberrar umræðu, og að stjórnvöld hafi í engu ráðist í að verja Grindavík.

Gæti beint hrauninu að Grindavík

Daníel vakti athygli á þessu í færslu á Facebook þann 18. nóvember, um viku eftir að kvikugangur hafði myndast á svæðinu og vinna við varnargarða hófst. Um mánuði síðar kom svo stutt gos, sem þó var nokkuð kröftugt. Sem betur fer reyndi ekki á varnargarðana, en nú er kvikusöfnun hafin að nýju undir Svartsengi og þær sviðsmyndir á borðinu að annað gos sé ekki langt undan.

„Svo það komi nú alveg skýrt fram, þá er ég alls ekki að gagnrýna þennan varnargarð, þennan eystri varnargarð, enda er hann nauðsynlegur til að verja Svartsengi,“ segir Daníel í samtali við DV. „En málið er þó svo að ef gosið kemur upp á milli Sundhnúks og Hagafells, og rennur til vesturs í átt að Svartsengi þá getur varnargarðurinn beint hraunflæðinu til suðurs í átt til Grindavíkur. Taki hraunið stefnuna bæði til Grindavíkur og til Svartsengis þá getur varnargarðurinn beint auknu hraunflæði suður til Grindavíkur, en þetta getur stytt viðbragðstíma og aukið líkur á að hraun flæði yfir byggð.“

Seint í rassinn gripið að verja Grindavík

Það sé því svo að þó varnargarðurinn sé nauðsynlegur, þá stefnir hann á sama tíma Grindavík í aukna hættu. Einkum ef gossprunga opnast á milli Hagafells og Sundhnúks, sem Daníel telur nokkuð góðar líkur á þar sem kvikugangurinn liggur um það svæði, þá séu líkur á að hraun flæði meðal annars í átt að Svartsengi, reki sig þar á varnargarð og renni þá suður að Grindavík.

„Nú þegar stefnir í annað gos, þætti mér réttast að stjórnvöld drífi sig að skella upp varnargörðum fyrir Grindavík, það er að segja ef það á að verja Grindavík þar sem þeir virðast nú vera frekar seinir með slíkar ráðstafanir á meðan það gekk hratt og greitt að koma þessu upp fyrir Svartsengi og Bláa lónið. Heldur ætti að setja orkuna nú í að verja Grindavík, því það er ekkert víst að hraunið drífi norður fyrir Sýlingarfell og Stóra Skógfell, þ.e.a.s að það reyni á nyrðri varnargarðana sem eru þarna hálfhringurinn utan um Bláa lónið og Svartsengi á myndum.

Ekki er víst að hraunið drífi þangað, sérstaklega ef næsta gos verður stutt. En það er mjög líklegt að ef gosið kemur upp þarna sem ég nefni, þá muni reyna á þennan eystri varnargarð, sem er mikilvægur fyrir Svartsengi en um leið, ef það er kraftur í gosinu eins og síðast, kemur upp af miklum hraða og flæðir hratt, þá gæti verið að þessi varnargarður stýri það mikið að hrauni í átt að Grindavík að viðbragðstíminn þar verði ekki neitt rosalega langur.“

Gæti gerst í dag, gæti gerst eftir viku

Daníel segir að vissulega eigi þessar áhyggjur við aðstæður sem alls ekki er víst að muni koma upp. Engu að síður hafi verið ráðist í að verja Svartsengi og Bláa lónið fyrir mögulegu hraunflæði, en sambærilegar aðgerðir ekki gerðar fyrir Grindavík, þrátt fyrir að varnargarðurinn stefni bænum í aukna hættu.

„Þetta gæti gerst í dag, gæti gerst eftir viku, eftir tvær. Kannski gerist aldrei neitt, maður veit það aldrei,“ segir Daníel sem skrifaði einmitt bakkalár-ritgerð sína um hraunflæði á höfuðborgarsvæðinu, sögu hraunflæðis á svæðinu og kortlagningu mögulegra farvega til byggða.

Daníel bætir við að ljóst sé þó að Reykjanesskaginn er mjög virkur núna og sá hluti kvikugangsins sem liggur milli Hagafells og Sundhnúks gæti vel skilað upp eldgosi því þaðan hafa áður runnið hraun, bæði til Svartsengis og í átt til Grindavíkur. Stjórnvöld hafi í það minnsta talið líkurnar nægja til að ráðast á þá varnargarða sem þegar hefur verið hafinn framkvæmd við.

Blm: Ertu þá að í raun að segja að stjórnvöld þurfi að gera eitthvað til að verja Grindavík eða segja það hreint út að það verði ekki gert?

„Það er nú kannski dálítið hart að segja þetta svona, en jú þetta eru í grunnin þau skilaboð sem ég er að senda. Að stjórnvöld leggi eitthvað púður í að verja Grindavík líka.“

Uppkast að varnargarði við Svartsengi

Möguleg skaðabótaábyrgð ef illa fer

Daníel segir að aðstæður eins og þær eru núna, ef ekkert verði gert til að verja Grindavík, þá vakni áleitnar spurningar. Svo sem ef hraun rennur til Grindavíkur í ríkari mæli en ella út af varnargarðinum við Svartsengi, hefur þá skapast bótaskylda á hendur ríkinu gagnvart þeim Grindvíkingum sem verða fyrir tjóni?

Daníel sem er mikill áhugamaður um eldgos, og fór meðal annars 40 sinnum að gosinu við Fagradalsfjall og hefur gefið út tvær ljósmyndabækur um það gos, segir að það þýði lítið að bíða of lengi með nauðsynlegar varnir.

„Það er alveg ljóst að menn eru ekki að fara að skella upp varnargarði á korteri. Fyrst það er búið að reisa þennan eystri varnargarð við Svartsengi sem getur stytt viðbragðstíma í Grindavík og beint meira hrauni þangað, þá er ekkert hægt að skella upp varnargarði fyrir Grindavík bara þegar gos er hafið. Það þarf að ráðast í þetta strax.“

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur nú skorað á ríkisstjórnina að ljúka við hönnun og fjármögnun á varnargörðum norðan við Grindavík, en slíkir garðar yrðu töluvert stærri heldur en varnargarðar sem verið er að ljúka við í kringum Svartsengi. Hafa jarðvísindamenn og varað við því að eldgos geti orðið enn nær Grindavík, næst þegar gýs.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg
Fréttir
Í gær

Leita að einstaklingi í Tálknafirði sem hefur ekki náðst í um tíma

Leita að einstaklingi í Tálknafirði sem hefur ekki náðst í um tíma
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Læknar vara við því að vinsælar olíur geti verið að valda mikilli aukningu krabbameins í ungu fólki

Læknar vara við því að vinsælar olíur geti verið að valda mikilli aukningu krabbameins í ungu fólki