fbpx
Fimmtudagur 07.júlí 2022
Fréttir

Handbolti, strandbarir og borgarblús: Íslendingar flykkjast til útlanda þrátt fyrir viðvaranir sóttvarnaryfirvalda – Öll lönd heims enn „áhættusvæði“

Heimir Hannesson
Föstudaginn 21. janúar 2022 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Íbúum Íslands er eindregið ráðið frá ónauðsynlegum ferðalögum til áhættusvæða vegna Covid-19 nema vera fullbólusett.“ Þannig hljóma skilaboðin sem blasa við gestum Covid.is um þessar mundir, og þannig hafa þau reyndar staðið óbreytt frá því að síðan fór fyrst í loftið í febrúar 2020.

Það er svo ekki flókið að leggja á minnið hvaða lönd teljast til áhættusvæða. Það eru „öll lönd og svæði heims,“ samkvæmt ákvörðun Sóttvarnalæknis frá 26. nóvember 2021. Fyrir utan örlitlar tilfærslur fram og til baka með Grænland og Færeyjar hafa reyndar öll lönd heims verið á listanum frá því í ágúst 2020, eða í um eitt og hálft ár. „Reglulega verður endurmetið hvort lönd falli ekki lengur undir áhættusvæði,“ segir jafnframt á heimasíðu Landlæknisembættisins.

Sambærilegan tón er svo að finna inni á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. „Sóttvarnalæknir ráðleggur íbúum Íslands frá ferðalögum á áhættusvæði. Stór hluti annarra þjóða er enn óbólusettur og mikið um smit meðal óbólusettra en bólusettir einstaklingar smitast líka og geta smitað aðra, þótt bólusetning verji einstaklinginn gegn alvarlegum sjúkdómi,“ segir á síðu ráðuneytisins undir flokknum „ferðaráð.“ Inni á síðunni má jafnframt finna lista yfir lönd og þær kröfur sem einstaka ríki gera varðandi sóttvarnir á sínum landamærum.

Þrátt fyrir eindregnar viðvaranir sóttvarnalæknis og Covid-tal utanríkisráðuneytisins er ljóst að ófáir Íslendingar hafa undanfarið sagt skammdeginu að eiga sig og stungið af til útlanda. Fjöld Íslendinga var til dæmis á leik Íslands og Danmerkur á heimsmeistaramótinu í handbolta sem fram fór nú í kvöld en flestir vilja gleyma. Sjálfur Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, þar á meðal. Guðni er auðvitað annálaður stuðningsmaður íslenska handboltalandsliðsins, enda bróðir Patreks Jóhannessonar, og gat því ekki látið sig vanta. Þá mátti sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar í hópi áhorfenda og skal engan undra enda bæði núverandi og fyrrverandi landsliðsmenn í handbolta í fjölskyldunni.

Þá hefur Bjarni Benediktsson verið gagnrýndur fyrir að hafa dregið fríið sitt erlendis á langinn. DV hefur reyndar heimildir fyrir því að fjöldi þingmanna og ráðherra hafa undanfarið sleikt sólina um víðan völl á suðrænum sælureitum.

En forsetinn, handboltaunnendur og ráðamenn eru ekki þeir einu. Í óvísindalegri könnun DV meðal lesenda þar sem um 6.700 manns tóku þátt sögðust um 3.100, eða rétt tæpur helmingur, aldrei hafa farið til útlanda frá því að Covid faraldurinn hófst. 22% sögðust hafa farið einu sinni, 12% tvisvar og um 20% þrisvar eða oftar.

Sjá nánar: Helmingur ferðaglöðustu þjóðar heims ekkert ferðast í Covid – Fimmtungur farið þrisvar eða oftar

Rímar þessi mikla ferðaþrá ekki beint við ráðleggingar sóttvarnarsérfræðinganna, en er þó í takt við þá tölfræði sem birst hefur undanfarin misseri. Til dæmis í nýbirtum farþegatölum Play, en flugfélagið flutti rúmlega eitt hundrað þúsund farþega á sínu fyrsta hálfa ári. Í viðtali við DV fyrr í mánuðinum sagði Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, að hann væri sáttur með árangurinn og benti á að þetta væru aðeins farþegar sem fluttir væru til og frá landinu, þar sem félagið hefur enn ekki hafið flug til Bandaríkjanna. Þannig væri ljóst, að sögn forstjórans, að félaginu hafi tekist að narta töluvert í markaðshlutdeild í farþegaflutningum til og frá landinu.

Sjá nánar: Hundrað þúsund farþegar og fimm þúsund umsóknir um flugfreyjustarf – Birgir gerir upp fyrsta hálfa árið

Þá hafa tilboð frá flugfélögunum vakið athygli undanfarið. Play bauð í þessari viku flug til Kanaríeyja á tíu þúsund krónur aðra leið, sem hlýtur að vera, eða hið minnsta nálægt Íslandsmetinu í Kanaríprísum. Hefur DV heimildir fyrir því að Tenerife flugin hafi selst upp. Í dag stukku Playverjar svo á handboltavagninn og auglýstu flug til Danmerkur á átta þúsund krónur, eða 7.999 kr., nákvæmlega. Icelandair hafa jafnframt herjað af nokkurri hörku á landann með sínum auglýsingum. Það síðarnefnda með töluvert breiðara úrval af áfangastöðum, en verðin hærri, af upplifun þess sem þetta ritar að dæma.

Sagði ferðavefurinn Turisti.is þá enn fremur frá því í vikunni að fleiri Íslendingar væru nú á spóka sig um Tenerife en fyrir faraldurinn. Var því gaukað að blaðamanni í vikunni að Íslendingar þar þyrftu að passa sig hvernig þeir töluðu á strandarbarnum, enda stutt í íslenskt eyra. Vafalaust eitthvað fært í stílinn þar, en gefur þó tóninn.

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu frá 2019 fóru Íslendingar um 2.5 sinnum á ári, að meðaltali, til útlanda. Enn á þjóðin langt í land með að ná þeim tölum á ný, en þó er ljóst að við þokumst í þá átt. Heildarfjöldi brottfara Íslendinga frá Leifsstöð fór úr tæplega 700 þúsund árið 2018, í 611 þúsund árið 2019 og niður í 130 þúsund árið 2020. Árið 2021 fór þessi fjöldi svo upp í 219 þúsund.

Innherjar og aðrir fylgjast nú grant með fyrstu skýrslu Ferðamálastofu um brottfarir Íslendinga í janúar 2022, en gera má ráð fyrir að hún verði birt fljótlega eftir mánaðamót. Er búist við að þær muni sýna nokkuð reffilega byrjun á spánýju ferðaári, öllum til ómældrar ánægju, nema sóttvarnaryfirvöldum, kannski.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Brjálaður út í spilakassa í miðborginni og hótaði starfsfólki

Brjálaður út í spilakassa í miðborginni og hótaði starfsfólki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Breskir stríðsfangar í Úkraínu áfrýja dauðadómi – Verða að óbreyttu leiddir fyrir aftökusveit

Breskir stríðsfangar í Úkraínu áfrýja dauðadómi – Verða að óbreyttu leiddir fyrir aftökusveit
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Héðinn og Sveinn segja mannréttindabrot framin á stofnunum landsins „nær daglega“

Héðinn og Sveinn segja mannréttindabrot framin á stofnunum landsins „nær daglega“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn um ósæmilega hegðun foreldra á knattspyrnumótum: „Þetta er toppurinn á ísjakanum“

Þorsteinn um ósæmilega hegðun foreldra á knattspyrnumótum: „Þetta er toppurinn á ísjakanum“