fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Hundrað þúsund farþegar og fimm þúsund umsóknir um flugfreyjustarf – Birgir gerir upp fyrsta hálfa árið

Heimir Hannesson
Sunnudaginn 9. janúar 2022 09:00

Birgir Jónsson, forstjóri Play. mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flugfélagið Play hóf loks starfsemi sína í júní á síðasta ári og óhætt er að kalla fyrstu sex mánuði rekstursins sigurför, en félagið flutti yfir 101 þúsund farþega á þessu fyrsta hálfa ári sínu. Hugmyndin að stofnun nýs flugfélags fór fyrst af stað fljótlega eftir fall WOW. Ýmis vandræði urðu þó á vegi Play hópsins á fyrstu stigum, og fyrir þá sem kunna að vera að vakna upp úr tveggja ára svefni, ber þar auðvitað helst að nefna heimsfaraldur Covid-19.

DV tók Birgi Jónsson, forstjóra flugfélagsins unga, á tal vegna tímamótanna.

„Við finnum fyrir því núna í desember og janúar að fólk er minna að ferðast. Fólk var minna að fara í verslunarferðir og svona er þetta bara hjá flestum flugfélögum heims. Þau eru að draga saman sitt framboð. En þetta er ekkert að setja okkur út af sporinu. Þetta er bara partur af því að vera í bissness,“ segir Birgir um hvernig það sé að reka flugfélag á Covid tímum.

Play tilkynnti seint á síðasta ári að félagið myndi hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna á þessu ári og fyrir jól fóru miðar í sölu. Aðspurður hvernig miðasalan hafi farið af stað dregur forstjórinn ekkert undan: „Alveg ótrúlega vel!“

Er það eitthvað sem þið segið bara, eða gengur hún raunverulega vel?

„Já, ég meina það!“ svarar Birgir kíminn. „Fólk er að kaupa sér miða langt fram í tímann og alveg frábær sala,“ segir hann og nefnir að fólk sé að kaupa sér miða fimm, jafnvel sex mánuði fram í tímann. „Þetta er alveg stórmerkilegt.“

En reksturinn er ekki bara gull og grænir skógar. „Bókanir inn í vor og sumar eru sterkar en háveturinn er erfiður,“ segir Birgir.

Play, eins og önnur flugfélög, hafa þurft að gera miklar breytingar á skilmálum flugmiðasölu þeirra. Stóraukinn sveigjanleika má greina hjá flugfélögum um allan heim og er Play ekki undanskilið. Aðspurður hvort ekki sé hætta á að þessi mikla miðasala fram í tímann endi með allsherjar endurgreiðslum seinna fari Covid ferðatakmarkanir aftur í það far sem þekktist 2020, segir Birgir svo ekki vera. „Við erum að selja miða með sveigjanlegum dagsetningum, svo þessar ferðir verða farnar.“ Eftir stendur auðvitað hvenær, nákvæmlega, þær verða farnar.

„Það var auðvitað vitað að þetta yrðu krefjandi aðstæður og þess vegna förum við af stað svona vel fjármögnuð. Við erum með þykkan púða undir okkur sem gerir okkur kleift að hugsa til framtíðar en ekki bara fram að næstu mánaðamótum. Nefnir Birgir í þessu samhengi að félagið hafi getað leyft sér að setja sér ábyrga og metnaðarfulla stefnu í sjálfbærni- og samfélagsmálum og réðu meðal annars til sín sérstakan fulltrúa í það hlutverk undir lok síðasta hausts. „Það er eitthvað sem við hefðum ekki getað gert ef staðan væri öðruvísi,“ bætir hann við.

Fimm þúsund vildu verða flugliðar hjá Play

Play auglýsti á dögunum laus störf um borð í vélum sínum. Birgir segir að félagið muni ráða 150 nýja starfsmenn á næstunni. Af þeim séu 100 flugliðar og 50 flugmenn.

„Við erum að taka á móti þremur nýjum flugvélum núna bráðlega og erum á fullu í ráðningarviðtölum. Ráðningar ganga mjög vel. Það er mikið framboð af flottu fólki í heiminum og fólk vill vinna á Íslandi,“ segir Birgir.

Eru þetta þá mest erlendir aðilar sem verið er að ráða?

„Nei, alls ekki. Við fengum fimm þúsund umsóknir um störf flugliða, og munum ráða eitt hundrað einstaklinga í það. Það eru allt einstaklingar hér á Íslandi sem er að sækja um þau störf. Svo eru flugmenn og flugstjórar. Það eru kannski helst stöður flugstjóra sem erlendir flugmenn eru að sækja um. Við erum að borga hærri laun en gengur og gerist í Evrópu, svo sá áhugi kemur ekki á óvart,“ segir Birgir.

Skynjar traust þrátt fyrir óvissutíma

Aðspurður hvort svona ör vöxtur á Covid tímum sé sjálfbær segir Birgir svo auðvitað vera. „Við flugum með 100 þúsund farþega á fyrstu sex mánuðunum. Hefði ég viljað hafa fleiri farþega? Auðvitað. En þetta er rjúkandi gangur og það verður að hafa í huga að Bandaríkin eru ekki inni í þessu. Þetta eru því bara ferðamenn til og frá Íslandi og 100 þúsund farþegar til og frá Íslandi er stór hluti þess markaðar.“

„Við hefum rekstur í miðju Covid, í júní árið 2021. Fyrir þá Íslendinga sem vilja til Spánar eða Tenerife eða borgarferð til Evrópu á þessum gríðarlegu óvissutímum er alveg skiljanlegt að það gæti hugsað með sér: „Nei, við skulum bara prófa þetta nýja fyrirtæki eitthvað síðar,““ segir Birgir. „Engu að síður höfum við náð mjög vel til þessa fólks og ferjað allan þennan fjölda og náð þessum stóra bita af markaðnum, svo við erum bara í skýjunum með þennan árangur,“ segir hann.

Ameríka næst, en stopp þar?

Bandaríkin eru næsta skref, verður það game-changer?

„Já. Það er sko meira en að segja það að komast inn á bandarískan markað. Það tók marga mánuði að komast þangað inn, við urðum að breyta bókunarkerfinu og leggja í mikla vinnu,“ segir Birgir og bendir á að það sem margir kalla mekka kapítalismans leggi meira upp úr neytendavernd en mörgum gæti grunað. „Mál eins og aðgengismál fyrir hreyfihamlaða, blinda og heyrnarskerta og neytendavernd, þeir taka þetta allt saman alveg svakalega alvarlega,“ útskýrir Birgir. „Þarna eru bara „hardcore“ reglugerðir sem er ekki að finna í Evrópu.“

En það tókst hjá Birgi og Play-teyminu. Landinn getur nú bókað sér flugmiða til Boston og Baltimore/Washington.

En hvað með framtíðina? Er beint flug til Tel Aviv, Indlands og Los Angeles á döfinni?

„Nei,“ svarar Birgir um leið. „WOW gekk rosalega vel þegar þeir voru í þessu módeli sem við erum að stilla okkur upp í núna. Það fór að halla á ógæfuhliðina þegar þeir fóru að gera út breiðþoturnar í þessa lengri leggi, Los Angeles, Tel Aviv, Miami og fleiri. Við verðum auðvitað að læra af þessu. Við erum bara að fara í það sem að virkar,“ segir Birgir.

Hann bendir jafnframt á að undir lokin hjá WOW, þegar viðræður voru hafnar við flugrekstrarfélagið Indigo Partners, sem sérhæfir sig í rekstri lággjaldaflugfélaga, var WOW einmitt komið aftur í þetta módel: Módelið sem „virkar,“ að sögn Birgis.

„Ekki vera að finna upp hjólið“

Birgir segir áfangastaðina í Bandaríkjunum smell passa inn í þetta módel. „Flugleiðir eins og Þrándheimur – Baltimore hafa nú verið að seljast vel. Þetta er ekkert endilega mest spennandi áfangastaðirnir í heiminum, en þetta selst,“ segir Birgir. „Við erum að hugsa þetta sem samgöngufyrirtæki en ekki einhverja exotíska ferðaskrifstofu.“

Meira strætó, minna leigubíll?

„Nákvæmlega, og ekki vera að finna upp hjólið. Ef einhver er búinn að búa til eftirspurnina og markaðinn á milli, segjum Baltimore og Þrándheims, þá vinnum við okkur inn markaðshlutdeild á þeim markaði með lágum verðum. Í því módeli er ekki verið að setja inn peninga í að þróa nýja áfangastaði. Við erum bara að koma inn og taka sneið af köku sem einhver annar er búinn að baka,“ svarar Birgir.

„Þetta er bara brútal discounting bransi,“ segir Birgir á alþjóðlegri íslensku. „Ef þú kemur inn með lægri kostnað, þá nærðu verðinu niður og þá færðu bókanir. Fólk er að bóka hjá okkur vegna þess að við erum ódýrari.“

Það er þá heldur ekkert á döfinni að fara að bjóða upp á Business Class, eða svoleiðis?

„Nei, þetta verður að snúast um einfalt vöruúrval líka.“

Birgir velur sinn uppáhalds áfangastað

Hjá Play geta Íslendingar nú keypt sér miða til 24 áfangastaða í Evrópu og tveggja í Bandaríkjunum, þó flug sé reyndar ekki hafið til allra þeirra er ljóst að netið þeirra er að stækka hratt. Af léttri njósnastarfsemi blaðamanns inni á samfélagsmiðlum forstjórans að dæma er ljóst að hann hefur verið duglegur að prófa sína eigin söluvöru og er því ekki úr vegi að spyrja:

Hver þessara áfangastaða er þá þinn uppáhalds?

„Það er alveg rosalega góð spurning,“ svarar Birgir. „Ef maður fer alveg eftir tilfinningu, þá er Barcelona það fyrsta sem poppar upp í hugann. Það er staður sem er með allt. Ströndina, heimsborg, veitingastaði, næturlíf, menningu, búðarráp. Á daginn ertu á ströndinni eða að versla og svo um kvöldið ertu kominn á frábæran veitingastað og kannski næturklúbb. Þar er allt til alls,“ segir forstjórinn að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“
Fréttir
Í gær

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða
Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Í gær

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips