fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Einar Kárason sendi bókasvikara óútgefið handrit af nýjustu bókinni – Hluti af alþjóðlegum svikum

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 5. október 2021 20:00

Einar Kárason rithöfundur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einar Kárason, rithöfundur, lenti á dögunum í klóm bókasvikara sem herja á íslenska höfunda í jólabókaflóðinu. Svikararnir reyna að fá send PDF-skjöl með handritum að óútgefnum bókum og gekk Einar í gildruna. Ástæðan fyrir þessum svikum er hins vegar á huldu og málið afar dularfullt. „Þetta er efni fyrir einhvern sakamálahöfund að komast til botns í,“ segir Einar.

„Ég fékk póst frá norskum þýðanda sem hefur þýtt fjórar eða fimm bækur eftir mig. Hún sagðist hafa þýtt Stormfugla og vildi líka þýða nýju bókina,“ segir Einar sem nýverið sendi frá sér bókina Þung ský. Pósturinn barst nokkrum dögum fyrir útgáfudag og Einar beðinn að senda PDF-skjal með bókinni, sem hann gerði.

„Pósturinn kom til mín að morgni dags, ég svaraði strax og sendi afrit af bókinni. Ég sendi síðan póst á réttindaskrifstofu Forlagsins og lét vita af þessu. Hún Valgerður Benediktsdóttir, sem er yfir þar, bað mig þá að skoða póstinn frá þýðandanum betur því það hefði verið að svindla á fólki. Ég uppgötvaði þetta þá. Ég hafði látið teyma mig í gildru,“ segir Einar.

Var afskaplega upp með sér

DV sagði frá því í gær að Hildur Knútsdóttir, rithöfundur, hafi fengið svikapóst skömmu fyrir útgáfu nýju bókarinnar hennar, Myrkrið á milli stjarnanna, sem kemur út í dag. Hún taldi í fyrstu að virtur norskur þýðandi hafi viljað koma bókinni hennar á framfæri við norska ritstjóra og var afskaplega upp með sér. Hildur hins vegar beið með að senda PDF-skjalið og hafði fyrst samband við Valgerði hjá réttindaskrifstofu Forlagsins, sem sér um réttindamál höfunda Forlagsins á erlendri grundu.

Pósturinn var skrifaður á íslensku og þegar Hildur gúgglaði sendandann, Tone Myklebost, kom í ljós að hún hefur þýtt bækur frá íslensku yfir á norsku og hlaut heiðursviðurkenningu á Alþjóðlegri bókmenntahátíð í Reykjavík nú í september og var því hér á landi nýverið.

Valgerður var hins vegar fljót að sjá að þetta var svikapóstur. Eitt af því sem kom upp um sendandann var að í netfangi hans var skrifað r og n – rn – í staðinn fyrir m í nafninu Myklebost.

Sama netfang notað

Merkilegt nokk þá fékk Einar póst frá sama netfangi og taldi hann sig því vera að senda Tone Myklebost handritið að bókinni sinni. Sami svikari hefur því sett sig í samband við bæði Hildi og Einar, og hefur DV heimildir fyrir því að fleiri íslenskir höfundar sem taka þátt í jólabókaflóðinu hafi nýverið fengið svikapóst frá einmitt þessu netfangi.

„Þarna var geisilega vel vandað til verka. Ég veit bara ekki hvað nokkur ætlar að gera við þetta. Það er hægt að fá þessa bók prentaða, sem rafbók eða hljóðbók. Ég veit ekki hverjir ætla að keppa við það. Þetta er mjög undarlegt mál,“ segir hann. Einari brá því ekki svo þegar hann komst að svikunum þar sem hann skilur ekki hver hefði not af handritinu. Honum finnst þó undarlegt að einhver skuli vanda sig svona við þessi svik. „Það er eitthvað skrýtið í gangi. Maður passar sig í framtíðinni,“ segir hann og bætir við: „Ég les um það í DV ef þú kemst að einhverju!“

Í millitíðinni kemur síðan í ljós að svikarinn ítrekar beiðni sína til Hildar.

Hið undarlegasta mál

DV hafði því næst samband við Valgerði hjá réttindaskrifstofunni. Hún kannaðist vel við málið og hafði einmitt nýverið varað höfunda hjá Forlaginu við svikum sem þessum. Hildur nefndi að hafa heyrt slíkar viðvaranir en þær voru gleymdar þegar hún fékk póstinn.

„Þjófarnir fylgjast með því hvaða höfundar eru að koma með bækur í haust, rétt eins og síðastliðið haust,“ segir Valgerður. „Í sömu viku eða mánuði og bækurnar koma út skrifa þeir höfundum, útgefendum, umboðsmönnum eða þýðendum og biðja um PDF. Í póstinum þykjast þeir vera þýðendur, útgefendur eða umboðsmenn og vilja fá að sjá handrit sem eru í vinnslu. Í sumum tilfellum hafa þjófar sent póst á höfund eða á mig og þóst vera ákveðinn útgefandi sem ég hef verið í tölvupóstsambandi við dagana áður,“ segir hún og finnst henni málið hið undarlegasta.

Afar dularfullt

RUV greindi frá því í febrúar að Björn Halldórsson, rithöfundur, hefði fengið tölvupóst frá manneskju sem gaf sig út fyrir að vera aðalritstjóri virtrar útgáfu í New York, þeirrar sömu og gefa út bækur Elenu Ferrante í Bandaríkjunum, og sagðist hafa mikinn áhuga á nýrri óútgefinni skáldsögu hans.

Fjallað var um slík mál í New York Times í fyrra undir yfirskriftinni: Why on Earth is Someone Stealing Unpublished Book Manuscripts? Þar kom fram að þetta vandamál hafi verið viðvarandi í minnst þrjú ár, og slíkum svikapóstum fari fjölgandi. Þá gáfu tvö stór útgáfufélög út viðvaranir vegna málsins, en póstarnir voru að berast jafn til heimsþekktra höfunda sem nýliða. Málið er hins vegar það dularfyllsta því engar fregnir hafa borist af því að nokkrum handritum hafi verið lekið á netið, engar fregnir af fjárkúgunum og í raun alls ekki vitað hvað þessir aðilar hafa í hyggju að gera við handritin.

Þaulskipulagðir svikarar

Valgerður segir að þessir svikarar séu þaulskipulagðir og sem dæmi þá finna þeir út hver hefur þýtt bækur höfundar á ákveðin tungumál og senda svo skeyti í nafni þýðandans til að biðja um PDF-skjal.

Þá finnst henni óhuggulegt að svo virðist sem svikararnir hafi einhvern aðgang að tölvupósthólfinu hjá mörgum sem þeir senda þessa pósta. „Menn eru margir sammála um að svo virðist sem þeir geti lesið pósta í inboxinu hjá okkur. Þjófarnir hafa til dæmis innsýn í hvort sá sem þeir þykjast vera hafa skrifað mér póst áður,“ segir hún.

Stutt er síðan Valgerður skrifaði Facebookfærslu þar sem hún beindi orðum sínum til höfunda, þýðenda og ritstjóra bóka: „Bókaþjófarnir á netinu eru á ferð þessa dagana og biðja mörg ykkar um pdf nýrra bóka. Ekki senda pdf nema að vel athuguðu máli. Kannið hvort netfangið sé rétt þegar þið ýtið á „reply“. Þjófarnir breyta gjarna „m“ í „rn“ og „com“ í „co“. Þeir skrifa bæði á íslensku og ensku.“

Útgáfustjóri Bjarts tekur þar þátt í umræðunni: „Þetta virðist hluti af alþjóðlegu tölvupóstsvindli sem gengur út að ná óútgefnum handritum ófrjálsri hendi. Og litla Ísland ekki undanskilið. Við höfum lent í þessu og enn eru falsaðir póstar, ma. í mínu nafni, að berast höfundum og erlendum útgefendum.“

Þá deildi Hildur frétt DV frá í gær á sinni Facebooksíðu og þar hafa einnig skapast umræður.  Ljóðskáld hjá Benedikt bókaútgáfu segist hafa fengið póst frá aðila sem þykist vera útgáfustjóri Benedikts en þegar betur var að gáð endaði vefslóðin á @benedikf.in

New York Magazine fjallaði ítarlega um þessi mál nú í ágúst og umfjöllunina má finna hér: For years, a mysterious figure has been steling books before their release. Is it espionage? Revenge? Or a complete waste of time? 

Hildur lenti í óprúttnum bókasvikara – Ástæðan er enn mikil ráðgáta

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“