fbpx
Fimmtudagur 15.apríl 2021
Fréttir

Reykjavíkurborg sendir leikskólabörn heim vegna manneklu og styttingu vinnuvikunnar – „Má ekkert kosta“ segir borgin

Heimir Hannesson
Fimmtudaginn 28. janúar 2021 15:00

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikskólakennarar sjá ekki fyrir sér að hægt verði að stytta vinnuvikuna án þess að annaðhvort skerða þjónustu við foreldra leikskólabarna eða auka framlög til leikskóla. Borgin segir að það sé víst hægt, og það sé forsenda fyrir styttingu vinnuvikunnar.

Kergja er meðal leikskólakennara vegna framkomu Reykjavíkurborgar gagnvart stéttinni í málum tengdum styttingu vinnuvikunnar. Samið var um styttingu vinnuvikunnar í samningum sem undirritaðir voru um mitt ár í fyrra en sjálf styttingin tók gildi 1. janúar.

Stytting vinnuvikunnar hefur raunar lengi verið kappsmál hjá stéttarfélögum á Íslandi og fögnuðu forkólfar hreyfingarinnar ákaft þegar það lá fyrir að vinnuvika þúsunda starfsmanna hjá hinu opinbera færi úr 40 klukkustundum niður í 36 á nýju ári. Samkvæmt samningnum skal hver vinnustaður fyrir sig útfæra hvernig að styttingunni skuli staðið. Hópur skal skipaður innan hvers vinnustaðar sem vinnur tillögu að útfærslu sem vinnustaðurinn kýs svo um.

Ljóst hlaut að vera að talsverður kostnaður myndi hljótast af því að borga starfsmönnum jafn mikið fyrir minni vinnu. Í skriflegu svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar sem lagt var fram í borgarráði í þarsíðustu viku kom fram að kostnaður Reykjavíkurborgar vegna styttingar vinnuvikunnar yrði 520 milljónir króna. Langstærsti hluti þess kostnaðar hlýst á velferðarsviði borgarinnar, eða 473 milljónir.

Má ekki kosta neitt

Einhver hefur reiknivinnan verið, því mannauðs- og starfsumhverfissvið tók sér tvo mánuði í að koma upp með tölurnar sem hluti af svari við fyrirspurn borgarfulltrúa Miðflokksins. Fyrirspurnin var svohljóðandi: „Hvað er áætlað að stytting vinnuvikunnar muni kosta Reykjavíkurborg á árinu 2021 tæmandi talið eftir sviðum borgarinnar?“

Í ljósi tæmandi orðalags svars Reykjavíkurborgar vakti það athygli að ekkert var minnst á skóla og leikskóla borgarinnar. Mátti því ráða af svarinu að ekki væri gert ráð fyrir því að neinn kostnaður félli til þar vegna styttingar vinnuvikunnar. Fyrir því er einföld ástæða: Reykjavík ætlar ekki að eyða peningum í styttingu vinnuvikunnar í skólum borgarinnar. Í skilaboðum Skóla- og frístundasviðs borgarinnar til leikskólastjóra kom fram að styttingin mætti ekki kosta borgina neitt, og þjónustuna mætti ekki skerða heldur.

Í svarinu segir jafnframt: „Forsenda styttingar hjá dagvinnufólki er að breyting á skipulagi vinnutíma skuli ekki leiða til breytinga á launum starfsfólks eða launakostnaði starfsstaða. Að óbreyttu mun stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks, úr 40 í 36 virkar stundir, hafa veruleg áhrif á starfsemi starfsstaða og svokallað mönnunargat myndast.“

Leikskólastarfsmenn hissa á borginni

Í samtali við DV orðaði leikskólakennari það svo að tvíræð skilaboð borgarinnar yllu leikskólastarfsmönnum „miklum heilabrotum“ um þessar mundir. „Borgin skrifar undir þennan samning. Síðan segir hún að forsenda hans hafi verið að hann mætti ekki kosta neitt en hún er nú samt meðvituð um að stytting vinnuvikunnar mun hafa veruleg áhrif á starfsemi vinnustaða og „mönnunargat“ myndast. Samt koma svo skilaboð um að útfærslan megi ekki kosta neitt og ekki bitna á þjónustunni. Maður skilur ekki neitt í þessu,“ sagði einn leikskólakennarinn sem DV ræddi við í vikunni.

„Nú liggur það í augum uppi að þegar manneskja gengur úr starfi eftir hádegi án þess að afleysing komi á móti myndast skarð og ekki er lengur hægt að halda uppi leikskólastarfi af sömu gæðum og ef um fullmannaðan vinnustað væri að ræða,“ sagði annar. Hvorugur leikskólastarfsmaðurinn vildi koma fram undir nafni, en báðir sögðust þeir spenntir að heyra hvernig borgin ætlaði sér að útfæra þetta með þessum hætti.

Bollaleggingar borgarinnar fjandsamlegar fjölskyldum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins svarar þessari spurningu í aðsendri grein í Fréttablaðinu í vikunni: „Þetta er ekki hægt,“ segir Hildur Björnsdóttir. „Framkvæmdinni fylgdi ekkert viðbótarfjármagn og því fyrirséð að leikskólaþjónusta mun skerðast við útfærsluna,“ skrifar hún. Segir hún útfærslu borgarinnar á þessu ákvæði kjarasamnings ekki vera fyrstu „ísilagða áramótakveðju“ jafnaðarmanna til fjölskyldufólks, en opnunartími leikskólanna var styttur í haust. Hildur segir skerta þjónustu til þess fallna að auka umönnunarbyrði barna á heimilum borgarinnar, og sú aukna byrði er líklegri til þess að falla af meiri þunga á mæður en feður. „Minni atvinnuþátttaka kvenna á vinnumarkaði hefur svo aftur áhrif á tekjuöflun þeirra, framgang í starfi og lífeyriskjör.“

Í samtali við DV áréttar Hildur að hvorki hún né borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins séu andsnúin styttingu vinnuvikunnar, en ekki sé rétt staðið að útfærslunni.

Í grein sinni vísar Hildur til jafnréttismats sem unnið var fyrir borgina vegna hugmynda um styttingu opnunartíma leikskólanna. Niðurstaða matsins var að styttingin myndi leggjast þyngst á einstæða foreldra, láglaunafólk, þá sem minna mega sín í samfélaginu en fyrst og fremst á konur. Engu að síður var ráðist í styttingu opnunartíma leikskólanna til áramóta 2020. Árið er nú 2021, og styttri opnunartímar leikskólanna eru enn í gildi.

Á það er nú bent að verði stytting vinnuvikunnar til þess að draga enn frekar úr veittri þjónustu í leikskólum borgarinnar hljóta sömu rök að eiga við. Þjónustuskerðingin mun leggjast þyngst á þessa sömu hópa.

Stærsta breyting á vinnumarkaði í 50 ár

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og staðgengill borgarstjóra, segist hafa skilning á því að það séu skruðningar í tengslum við þetta verkefni. „Þetta er enda risa breyting, líklega stærsta breyting á vinnumarkaði í að minnsta kosti 50 ár,“ segir hún. Aðspurð hvort hún hafi ekki samúð með því að leikskólakennarar fái þau skilaboð að borgin sé tilbúin til þess að leggja hundruð milljóna á ári í önnur svið en ekkert til skólanna segir Þórdís að það sé ekki hægt að bera saman sólarhringsvaktir á hjúkrunarheimilum borgarinnar og leikskólakennara í dagvinnu. „Það var gert tilraunaverkefni árið 2015 og niðurstaðan þar var sú að þetta er hægt. Við vitum að það er hægt að ná fram styttingu vinnuvikunnar án þess að skerða þjónustu og auka kostnað,“ segir Þórdís.

Hún bendir jafnframt á að þegar tilraunaverkefninu 2015 lauk hafi orðið mikil óánægja. „Það var mikil ánægja með verkefnið og þegar því lauk hafði fólk haft af því miklar áhyggjur að þetta myndi ekki nást inn í kjarasamningana.“ Til þess að þetta geti gengið, útskýrir Þórdís, þarf fólk að endurskipuleggja vinnudaginn, breyta ferlum og verkefnum. „Nágrannalöndin okkar fóru í gegnum þetta á sínum tíma og þá var ýmsu breytt á vinnustöðunum. Ég hef sjálf ekki orðið vör við óánægju, en ég get tekið undir það að það þurfi að spyrja gagnrýnna spurninga,“ segir hún að lokum.

Leikskólakennarar taka ekki í sama streng og Þórdís. „Ef svigrúm væri fyrir aukna hagræðingu í starfi hér hjá okkur, þá hefði borgin fundið það fyrir löngu síðan og nýtt hann til að skera niður kostnað. Á leikskólum borgarinnar hefur allt verið skorið niður við nögl síðustu ár og áratugi. Þetta endar bara á einn veg, með skertri þjónustu,“ segir heimildarmaður DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir lögregluna á Akranesi brjóta lög um persónuupplýsingar

Segir lögregluna á Akranesi brjóta lög um persónuupplýsingar
Fréttir
Í gær

Fiskibátur með tvo um borð strandaði í Krossavík

Fiskibátur með tvo um borð strandaði í Krossavík
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýjar vendingar á gosstöðvum – „Tveir eða jafnvel þrír“ nýir gígar opnuðust í morgun

Nýjar vendingar á gosstöðvum – „Tveir eða jafnvel þrír“ nýir gígar opnuðust í morgun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ingvar Árni fer inn í níu mánuði vegna undirheimauppgjörs – Skotför fundust á BMW bifreið

Ingvar Árni fer inn í níu mánuði vegna undirheimauppgjörs – Skotför fundust á BMW bifreið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona litu skórnir hennar Sólveigar út eftir nóttina – „Veit ekki hvernig nóttin var hjá ykkur“

Svona litu skórnir hennar Sólveigar út eftir nóttina – „Veit ekki hvernig nóttin var hjá ykkur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lektorinn með unglingapartýin í Vesturbænum ekki ákærður

Lektorinn með unglingapartýin í Vesturbænum ekki ákærður