fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Missti eiginmann og stjúpdætur fyrir 10 árum – VÍS segir konuna vera að ljúga dauða þeirra og neitar að borga

Heimir Hannesson
Laugardaginn 10. október 2020 18:45

Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslensk kona sem krafði VÍS um bætur vegna dauða eiginmanns hennar og stjúpdætra í Víetnam fyrir 10 árum er enn með réttarstöðu sakbornings. VÍS trúir ekki sögu konunnar og kærði hana fyrir tryggingasvik en líftryggingin er enn ógreidd.

Nú í október er áratugur liðinn síðan íslensk kona af víetnömskum uppruna missti víetnamskan eiginmann sinn og tvær stjúpdætur í mannskæðu sjóslysi undan ströndum Víetnams. Konan var rétthafi dánarbóta í líftryggingu sem fjölskyldan tók aðeins örfáum mánuðum fyrir slysið. Tryggingin var keypt í kjölfar þess að sölumaður VÍS setti sig í samband við konuna og bauð henni tryggingarnar. Konan, að sögn lögmanns hennar, hafði aldrei frumkvæði að töku slíkra trygginga. Í kjölfar kröfu konunnar um útgreiðslu bóta vegna andláts þriggja fjölskyldumeðlima hennar neitaði VÍS konunni um bætur og kærði hana til ríkislögreglustjóra. Síðan þá hefur málið skoppað um á milli embætta í kerfinu og hefur meðal annars verið á borði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóra, Ríkissaksóknara, Interpol í Frakklandi, tveggja lögmannsstofa í Víetnam og annarra tveggja á Íslandi, nefndar um eftirlit með störfum lögreglu og nú dómsmálaráðherra.

Forsögu málsins má, sem fyrr segir, rekja til mannskæðs sjóslyss í Víetnam þann 2. október 2010. Fjölskyldan var þá á ferðalagi í Víetnam og stödd í báti við strendur Hoang Chau, á eyjunni Cat Hai við borgina Hai Phong. Mikið hvassviðri olli því að bátnum hvolfdi og drukknuðu maðurinn og tvö börn hans.

Rannsóknin níu ára gömul í næstu viku

Þau voru öll líftryggð hjá VÍS. Um það er ekki deilt. Í upphafi árs 2011 barst VÍS óformleg tilkynning um andlátin, en formleg tilkynning barst félaginu svo í lok apríl. Töf á formlegri tilkynningu mátti rekja til tafa á gagnaöflun frá Víetnam. Tilkynningu lögmanns fjölskyldunnar um dauða fylgdi meðal annars staðfesting yfirvalda í Hoang Chou-héraði á andláti feðginanna og dánarvottorð, gefin út af yfirvöldum í Víetnam.

Hálfu ári eftir að hafa krafið tryggingafélagið um útgreiðslu bóta í takt við skilmála líftrygginga þeirra þriggja látnu, kærði VÍS konuna til alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra, vegna gruns um tryggingasvik og skjalafals. Dró tryggingafélagið í efa að dauði þeirra hefði átt sér stað með þessum hætti, eða átt sér stað yfirhöfuð.

Í kvörtun konunnar til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu sem DV hefur undir höndum er upphaf rannsóknar lögreglu á málinu rakið. Kemur þar fram að rannsókn hafi hafist við framlagningu kæru VÍS 12. október 2011 og miðaði fyrst og fremst að því að fá úr því skorið hvort eiginmaður konunnar og stjúpdætur hefðu í raun látist og hvort dánarvottorð væru í raun rétt og ófölsuð. Rannsóknin fagnar því níu ára afmæli í næstu viku.

Símar hleraðir og gramsað í bankareikningum

Lögregla virðist, af gögnum máls að dæma, hafa gengið nokkuð vasklega til verks í upphafi máls. Dómari veitti lögreglu hlerunarheimild með úrskurði sínum 28. september 2011. Þá úrskurðaði annar dómari að lögreglu væri heimilaður aðgangur að öllum bankareikningum konunnar. Næstu mánuðum varði lögregla í gagnaöflun, meðal annars frá Víetnam. Virðist lögregla hafa leitað liðsinnis Interpol í Hanoi. Segir í bréfi Interpol að embættismenn í Hoang Chau, hvar konan segir fjölskyldu sína hafa látist, geti ekki staðfest undirritun sína á umrædd dánarvottorð. Staðfesti Interpol í Frakklandi að umrædd gögn væru að öllum líkindum fölsuð.

Þarna var málið þó fjarri því upplýst. Í tölvupósti frá starfsmanni alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra sem hafði annast samskipti við Interpol í Hanoi og í Frakklandi kom fram að ekki væri hægt að túlka svör alþjóðalögreglunnar á þann hátt að andlát fólksins hefði borið að með þeim hætti sem konan lýsti í kröfu sinni til VÍS.

VÍS og konan skauta fram hjá lögreglu

Árið 2013 leitaði VÍS til lögmannsstofu í Víetnam og óskaði eftir að hún framkvæmdi sína eigin rannsókn á málinu. Leituðu lögmennirnir meðal annars til Alþýðunefndar Hoang Chau-héraðs og strandgæslunnar. Niðurstaða rannsóknarinnar var að ekkert sjóslys hefði orðið á þessum slóðum á þessum tíma.

Við þá niðurstöðu sætti konan sig ekki og réð sína eigin lögmenn. Samkvæmt lýsingu lögmanns konunnar hér á landi var niðurstaða þeirrar athugunar þvert á niðurstöðu lögmanna VÍS í Víetnam. Munu lögmenn hennar hafa fengið staðfestingu á andláti eiginmanns og stjúpdætra hennar frá yfirvöldum í Hoang Chau, auk þess sem þeir munu hafa komist í samband við vitni fyrir tilstilli lögreglustjóra þar í landi. Mun vitnið hafa komið að líkum þeirra þriggja. Segir í gögnum þeim er DV hefur undir höndum að embættismaðurinn Ngugen Dinh Huong hafi bæði verið sá sem gaf víetnömskum lögmönnum VÍS sínar upplýsingar um að enginn hefði látist, og sá sem staðfesti svo seinna dauða þeirra. Misskilningur manna á milli sagði Huong ástæðu þess að rangar upplýsingar bárust til þeirra fyrrnefndu.

Þessi sami embættismaður staðfesti svo að fólkið hefði verið jarðsett í Than Loi.

Tómlæti lögreglu algjört

Árið 2013 hafði íslensk lögregla þannig tvístaðfest dánarvottorð þeirra þriggja sem létust, undirritaða yfirlýsingu vitnisins sem kom að líkunum í kjölfar slyssins auk myndbandsupptöku af vitnisburðinum, staðfestingu á jarðsetningu fólksins í Víetnam og staðfestingu embættismannsins í Hoang Chau, þeim sama og lögmenn VÍS vitnuðu til í sinni skýrslu, á andláti fólksins. Fór lögmaður konunnar fram á það við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu að gögnin yrðu yfirfarin og málið látið niður falla.

Árið 2014 hafði ekkert af þessu gerst. Sendu þá lögmenn konunnar bréf á lögregluna þar sem málið var sagt hafa dregist úr öllu hófi og krafan um niðurfellingu ítrekuð. Engin svör bárust. Sama bréf var svo sent árið 2015 og enn bárust engin svör.

Árið 2016 barst konunni tilkynning frá lögreglu um að málið yrði látið falla niður og að hún hefði ekki lengur stöðu sakbornings. Ekki var mánuður liðinn þegar VÍS kærði niðurfellingu rannsóknar lögreglunnar til ríkissaksóknara. Í janúar 2017 felldi ríkissaksóknari úr gildi ákvörðun LRH og skipaði lögreglunni að halda rannsókn sinni áfram. Í úrskurði ríkissaksóknara sagði að málinu yrði ekki lokið nema það þætti „fullreynt“ að fá svör frá víetnömskum stjórnvöldum eða fulltrúum þeirra í sendiráði Víetnams í Kaupmannahöfn um hvort frásögn konunnar hefði sannleiksgildi.

Ekki er að sjá á gögnum málsins að lögregla hafi aðhafst mikið í málinu eftir úrskurð ríkissaksóknara. Eitt gagn í málinu bendir meira að segja til þess að bréf íslensku lögreglunnar sem lögreglan hafði fyrir því að skrifa, hafi svo gleymst í skúffu hjá ríkislögreglustjóra og aldrei verið sent. Bréfið er á ensku en í þýðingu blaðamanns hefst það svo: „Við höfum fengið fyrirspurn frá lögreglunni í Reykjavík varðandi gamalt mál frá árinu 2011. Þeir eru að reyna að loka málinu.“

Enn gerðist ekkert og í febrúar 2019 kærði konan, í annað sinn, dráttinn hjá lögreglu til Ríkissaksóknara. Niðurstaða Ríkissaksóknara var að skipa lögreglu að drífa þetta af, í stuttu máli. Í júní það sama ár kærði konan dráttinn til nefndar um eftirlit með lögreglu. Vísaði nefndin málinu til lögreglunnar aftur.

Í september á þessu ári var lögmanni konunnar svo tilkynnt að málið væri komið á skrifborð enn eins embættismannsins: dómsmálaráðherra, þar sem það situr enn. Hvers vegna það er þar veit reyndar hvorki konan né lögmaður hennar. Í bréfi sem lögmaðurinn sendi dómsmálaráðherra og DV hefur undir höndum er þess, enn á ný, krafist að upplýst verði um stöðu rannsóknarinnar og hún látin niður falla.

30 milljónir undir í áratug

Konan höfðaði dómsmál á hendur VÍS þar sem hún krafðist þess að fá dánarbætur greiddar út árið 2013 en málið fæst ekki afgreitt fyrr en niðurstaða í lögreglurannsókninni liggur fyrir. Útgreiðsla bóta sem konan á heimtingu á nemur 30 milljónum, og því um mikla hagsmuni að ræða, bæði fyrir konuna og VÍS.

Á þessum níu árum hafa að minnsta kosti tveir lögmenn aðstoðað konuna og þeir embættismenn sem fyrst höfðu með málið að gera hjá hinum ýmsu embættum eru flestir horfnir til annarra starfa og nýir komnir í þeirra stað.

Þess má geta að hámarksrefsing við tryggingasvikum í íslenskum lögum er sex ára fangelsi. Sem fyrr segir hefur konan haft réttarstöðu grunaðs í níu ár

 

Þessi frétt birtist fyrst í helgarblaði DV. Fyrir upplýsingar um áskrift má senda póst á askrift@dv.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala