fbpx
Mánudagur 18.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Sonur Kristjáns afplánar lífstíðardóm í Bretlandi – „Ég missti trúna á mannkynið í smá tíma“

Auður Ösp
Föstudaginn 22. febrúar 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sonur Kristjáns Jóhanns Matthíassonar var einungis 14 ára gamall þegar hann hlaut lífstíðardóm í Bretlandi fyrir stinga unglingspilt í hjartað. Áður en hann framdi verknaðinn, árið 2007, hafði hann ánetjast kannabisefnum og var kominn í slæman félagsskap. Á þeim tíma sem hann hefur setið inni hefur hann snúið við blaðinu og náð undraverðum árangri. Kristján segir það hafa gert gæfumuninn að Brandon var fluttur í opið úrræði á seinasta ári. Þar hafi hann loksins fengið tækifæri til betrunar. Brandon á sér þá ósk heitasta að geta búið hjá föður sínum á Íslandi í framtíðinni og Kristján bindur vonir við að þeir feðgar muni sameinast á ný.

Kristján Jóhann Matthíasson.

Í febrúar 2016 ræddi ég fyrst við Kristján, en þá hafði Brandon setið í fangelsi í tæp átta ár. Kristján hafði þá aðeins einu sinni fengið að heyra í honum í síma.

Líkt og fram kom þá á Kristján tvo syni með konu sem hann kynntist þegar hann bjó í Bretlandi á árum áður, þá Brandon Richmond, 22 ára, og Darrell, sem er 28 ára. Sambúð Kristjáns og konunnar gekk ekki upp á sínum tíma og Kristján flutti aftur til Íslands. Eldri sonurinn Darrell kom reglulega í heimsókn til föður síns en sambandið við Brandon var mun stopulla.

Brandon Richmond.

„Hann kom einu sinni til Íslands, þá 11 ára, og heimsótti mig í Keflavík þar sem hann dvaldi í tvær vikur. Honum fannst bærinn vera óttalegt krummaskuð.“

Kristján vissi á þessum tíma að sonur hans væri í slæmum málum og væri farin að fikta við hassreykingar, og jafnvel sterkari efni. Kristján var hins vegar að eigin sögn svo grænn að hann gerði sér einfaldlega ekki grein fyrir að því að sonur hans væri á fallbraut. Áður hafði Brandon staðið sig vel í skóla og sjaldan lent í vandræðum. Að sögn Kristjáns var níðst á syni hans fyrir að vera svokallað „half caste“, af blönduðum kynþætti.

„Það var rosalega mikil klíkumyndun í kringum hann. Hann passaði ekki neins staðar inn.“

Fékk taugaáfall og brotnaði saman

Aðeins hálfu ári síðar fékk Kristján að vita að sonur hans sæti í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að manndrápi. Brandon hafði verið í slagtogi með unglingagengi og kvöld eitt í mars 2007 eltu þeir uppi 16 ára pilt að nafni Kodjo Yenga og öskruðu: „Drepum hann, drepum hann!“ Yenga var því næst barinn með kylfum og að lokum veitt hnífstunga í hjartað.

Breskir fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um morðið á Kodjo Yenga á sínum tíma. Ljósmynd/Skjáskot af vef BBC.

Breskir fjölmiðlar fjölluðu þónokkuð um málið á sínum tíma og vakti það upp umræður um vaxandi gengjamenningu í Lundúnum, hækkandi glæpatíðni og neikvæð áhrif þess á ungdóm landsins. Á þeim tíma sem Kodjo Yenga var drepinn höfðu 26 ungmenni verið drepin af gengjum í London á árinu 2007. Fram kom að verknaðurinn hefði verið innvígsluathöfn í götuklíku.

Kristján segist hafa fengið taugaáfall og brotnað niður við fréttirnar. Þar sem honum reyndist erfitt að nálgast upplýsingar um framgang málsins og líðan sonar síns þá þurfti hann einkum að reiða sig á upplýsingar frá breskum fjölmiðlum sem fjölluðu ítarlega um málið.

Kodjo Yenga var 17 ára gamall.

Kristján lýsti þessu þannig árið 2016:

„Ég hringdi fjölda símtala og mér tókst á einum tímapunkti að móðga breskan embættismann með því að benda honum á að þeir væru að brjóta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að líklega væri betur tekið á málum barnungra fanga í Bangladess. Eftir það voru allar dyr lokaðar.“

Kristjáni tókst loks í eitt skipti að ná sambandi við son sinn. „Það var eftir endalausa ýtni. Mér tókst að tala einhverja embættiskonu til.“ Símtalið var ansi tilfinningaþrungið.

„Ég heyrði að hann var hræddur. Hann vildi ekki ræða málið sjálft við mig en hann sagðist sakna pabba gamla. Ég lagði áherslu á það við hann að hann segði sannleikann. Síðan var símtalinu slitið af starfsmönnum fangelsisins.“

Vistaður með fullorðnum

Vorið 2008 féll dómur í Old Bailey í Lundúnum og var Brandon dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir glæpinn, með möguleika á reynslulausn eftir 16 ár. Annar piltur úr klíkunni fékk einnig lífstíðardóm, og þrír aðrir voru dæmdir í 10 ára fangelsi fyrir aðild þeirra að morðinu.

„Þegar dómurinn var lesinn upp hélt ég fyrst að þetta hefði verið einhver mislestur. Ég missti trúna á mannkynið í smá tíma. Þó svo að ég hafi alltaf sagt að hann eigi að taka út sína refsingu þá var þetta ekki nokkur glóra. Ég var niðurbrotinn, og ekki var mikill skilningur í kringum mann.“

Brandon var um tíma vistaður í unglingafangelsi áður en hann var fluttur í fangelsi nálægt Ipswich sem hýsir fullorðna afbrotamenn. Þar voru aðstæðurnar vægast sagt afar bágbornar og að sögn Kristjáns var gengjamyndun algeng. Þegar ég ræddi við Kristján árið 2016 hafði Brandon dvalið í þrjú ár í unglingafangelsi (Juvenile Detention Center) þar sem aðstæðurnar voru ögn skárri.

Hefur snúið við blaðinu

 Það var síðan á síðasta ári að Brandon var fluttur í Standford Hill, opið fangelsi í Kent.

„Hann hefði ekki fengið að fara þangað nema vegna þess að hann hefur sýnt mjög góða hegðun og ekki lent í slagsmálum eða veseni, jafnvel þó að það hafi verið uppreisn í fangelsinu á sínum tíma,“ segir Kristján.

Kristján heimsótti Brandon í fyrra og segir aðstæðurnar lítið minna á fangelsi, frekar skóla eða íþróttahús. Fangarnir reka til dæmis verslun á staðnum og tækifæri til menntunar eru mjög fjölbreytt. Á heimasíðu fangelsisins kemur fram að markmiðið sé að fangarnir fái að vinna úti í samfélaginu og þá er mikið lagt upp úr samvinnu á milli fanganna þar sem þeir reyndari leiðbeina hinum.

Brandon er að sögn Kristjáns með mikla ástríðu fyrir líkamsrækt og þekkir hann til dæmis nöfnin á öllum þekktustu fitnesskeppendum Íslands.

„Hann er algjörlega búinn að snúa við blaðinu og breytingin er alveg mögnuð. Hann er búinn að vera að lyfta á fullu og orðinn stór og stæðilegur. Hann er búinn að læra einkaþjálfarann og stúdera næringarfræði og svo er hann að bæta við sig námi í pípulögnum.“

Standford Hill er opið fangelsi í Kent.

Betrunarvist getur gert kraftaverk

Kristján segist aldrei hafa reynt að breiða yfir glæp sonar síns. Að sjálfsögðu þurfi sonur hans að taka út refsingu og horfast í augu við gjörðir sínar. Hann telur hins vegar sannað með sögu Brandons að betrunarvist getur gert kraftaverk. Sonur hans hafi snúið við blaðinu eftir að hann var fluttur í úrræði þar sem hann var ekki lengur í „glæpamannaverksmiðju“, innan um fullorðna afbrotamenn.

Kristján hyggst fara og heimsækja Brandon í lok mars en það stendur til að hann fái að fara reglulega í dagsleyfi seinna á árinu. Ef allt gengur að óskum mun hann fá reynslulausn á næsta ári, en Kristján ætlar þó ekki að gera sér of miklar vonir strax. Þegar ég ræddi við Kristján árið 2016 sagðist hann biðja fyrir því að sonur hans yrði nýtur þjóðfélagsþegn þrátt fyrir allt saman. Í dag er ekki ástæða til að ætla annað en að það verði að veruleika.

„Ég er ofsalega bjartsýnn í dag, og stoltur af stráknum mínum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hefur þú séð Lily ? – Rænt fyrir utan Super 1 á Hallveigarstíg

Hefur þú séð Lily ? – Rænt fyrir utan Super 1 á Hallveigarstíg
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Skotárásin í Christchurch með augum pólítískra skopmyndateiknara

Skotárásin í Christchurch með augum pólítískra skopmyndateiknara