fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Stöndum saman gegn sjálfsvígum

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 6. september 2018 10:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stöndum saman gegn sjálfsvígum er yfirskrift opins málþings í tilefni Alþjóðlegs forvarnardags sjálfsvíga í húsakynnum Decode við Sturlugötu milli kl. 15 og 17 mánudaginn 10. september. Þar verður meðal annars fjallað um forvarnir gegn sjálfsvígum, geðrækt, tíðni sjálfsvígstilrauna meðal ungs fólks og starfsemi Píetasamtakanna á Íslandi. Kyrrðarstundir í minningu þeirra sem tekið hafa eigið líf verða haldnar í Dómkirkjunni, Akureyrarkirkju, Egilsstaðakirkju og Selfosskirkju kl. 20 mánudaginn 10. september og í Útskálakirkju kl. 20 sunnudaginn 9. september. Allir eru velkomnir á viðburðina og er aðgangur ókeypis.

Málþingið hefst með opnunarávarpi Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Þar mun hún segja frá áformum stjórnvalda um framkvæmd nýrrar sjálfsvígsforvarnarstefnu. Í stefnunni eru meðal annars lagðar til aðgerðir til að draga úr áhættu á sjálfsvígum, bæta þjónustu, efla seiglu, styðja aðstandendur og takmarka aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum. Aðaláhersla er lögð á að skapa vettvang fyrir þekkingu og forvarnir á sviði sjálfsvíga á Íslandi.

Í kjölfar ávarps heilbrigðisráðherra munu Sigrún Daníelsdóttir, verkefnisstjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis, og Ingibjörg Eva Þórisdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu fjalla um niðurstöður kannana á vegum Rannsóknar og greiningar um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir ungs fólks á Íslandi. Eftir erindið mun Edda Arndal, forstöðumaður Píeta á Íslandi, fjalla um reynsluna af fyrstu sex mánuðunum í starfi Píeta á Íslandi. Píeta veitir einstaklingum í sjálfsvígsvanda og aðstandendum þeirra stuðning og ráðgjöf. Að loknu kaffihléi slær Alda Karen Hjaltalín, ráðgjafi og fyrirlesari frá New York, botn í málþingið með erindi undir yfirskriftinni Hugurinn þinn. Þar fjallar hún um geðrækt, heilaræktunarstöðvar og tengsl hugar og líkama. Fundarstjóri á málþinginu verður Þorsteinn Guðmundsson, leikari og annar tveggja verkefnisstjóra Bataskóla Íslands.

Efnt verður til kyrrðarstundar í Dómkirkjunni og nokkrum öðrum kirkjum á landsbyggðinni í tilefni forvarnardagsins. Í Dómkirkjunni mun sr. Jóna Hrönn Bolladóttir flytja hugvekju, Heiðrún Jensdóttir, aðstandandi, segja frá reynslu sinni af því að missa nákominn ættingja í sjálfsvígi og Eyþór Ingi Gunnlaugsson flytja tónlistaratriði. Jónas Þórir mun leika á orgel kirkjunnar. Í lok kyrrðarstundarinnar verður kveikt á kertum til minningar um látna ástvini. Frekar upplýsingar um viðburðina er að finna á www.sorg.is

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hvetur þjóðir heims til að efna til dagskrár í tilefni af Alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga þann 10. september ár hvert. Þema dagsins að þessu sinni er Stöndum saman gegn sjálfsvígum og felur í sér hvatningu til samfélagsins í heild um að beita sér sameiginlega fyrir því að fækka sjálfsvígum. Árlega taka um 40 manns sitt eigið líf á Íslandi  og er sá fjöldi nokkuð hærri en í nágrannalöndunum.

Eftirtaldir aðilar standa að dagskránni undir merkjum 10sept hópsins hér á landi: Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Hugarafl, Landspítalinn – geðsvið, Minningarsjóður Orra Ómarssonar, Ný dögun, stuðningur í sorg, Píeta samtökin, Rauði krossinn og Þjóðkirkjan.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið, númerið er ókeypis og opið allan sólarhringinn.
Nánari upplýsingar hér: https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/hjalparsiminn-1717
Píeta samtökin bjóða einnig upp á þjónustu í síma 552-2218 fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaðahegðun.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segir undirskriftalistann gegn Bjarna plebbalegan og óvirðingu við lýðræðið

Segir undirskriftalistann gegn Bjarna plebbalegan og óvirðingu við lýðræðið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá á nýjan leik

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í opinni dagskrá á nýjan leik