fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

„Það hefur enginn hringt í mig, sent mér skilaboð eða nokkuð slíkt“

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 30. nóvember 2018 11:22

Oddný, Unnur og Silja ræddu málið í Morgunútvarpinu í morgun.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nei, eina sem ég hef séð er þessi yfirlýsing sem kom frá þeim eftir hádegið í gær sem var mjög veik að mínu mati. Að þeim þætti leitt að hafa sært einhvern og eitthvað svoleiðis.“

Þetta sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, í morgunútvarpinu á RÚV í morgun þegar hún var spurð hvort hún hefði verið beðin afsökunar á ummælum sem látin voru falla um hana á umtöluðum fundi sex þingmanna þann 20. nóvember síðastliðinn.

„Ég til dæmis fór á Bessastaði í gærkvöldi og þar var mætt Anna Kolbrún [Árnadóttir, þingkona Miðflokksins] meðal annars og náttúrulega Sigmundur Davíð og þau nálguðust mig ekki og gerðu enga tilraun til þess. Það hefur enginn hringt í mig, sent mér skilaboð eða nokkuð slíkt. Mér finnst þessi yfirlýsing sem kom frá þeim í gær eitthvað svona yfirklór til að bjarga því sem bjargað verður,“ sagði Silja Dögg.

Gunnar Bragi hringdi í gærmorgun

Þegar Oddný G. Harðardóttir, þingkona Samfylkinga, var spurð að því sama sagði hún að Gunnar Bragi hafi hringt í hana í gærmorgun. Gunnar Bragi kallaði hana meðal annars „apakött“.

„Þá hafði ég auðvitað ekki séð það sem var birt um hádegisbilið og síðar um daginn. Hann bað mig afsökunar á því sem hann sagði um mig og ég sagði bara: „Allt í lagi. Ég dusta þetta af mér.“ Ég leyfi honum ekki að ráða því hvernig ég geng inn í dagana þannig að mér fannst það allt í lagi en, eins og ég segi og við höfum bent á hér, þá er það miklu alvarlegra sem var birt um hádegisbilið og síðar um daginn,“ sagði Oddný og vísaði í ummæli um Freyju Haraldsdóttur, Lilju Dögg Alfreðsdóttur og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur.

Þurfa að biðja þjóðina afsökunar

Unnur Brá, sem var meðal annars kölluð „kræf kerfiskerling“ sagðist ekki hafa fengið neina afsökunarbeiðni.

„Þeir hafa ekki hringt í mig og þurfa þess ekkert. Ég lít ekki svo á. Það eru svo margir aðrir sem þarf að tala við“ sagði hún og bætti við að málið hefði áhrif á svo marga.

„Ég fór í kokteilinn áður en haldið er til Bessastaða fyrir fyrrverandi þingmenn og maður fann það, þetta snertir ekki bara þá þingmenn sem minnst var á heldur alla þingmenn og allt starf þingsins verður fyrir áhrifum – fyrir utan það að þjóðin er í sjokki yfir því hvernig menn tala um samstarfsmenn sína,“ sagði Unnur sem sagði svo að lokum:

„Fyrirgefningarbeiðnin þarf ekki bara að snúa að þeim sem talað er um heldur gagnvart öllu þinginu og allri þjóðinni. Ég sé þetta þannig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala