fbpx
Mánudagur 20.maí 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

EurovisionSjá allar

Fókus

Jonestown-fjöldamorðin og fjöldasjálfsvígin

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 30. september 2018 17:00

Jonestown. 909 meðlimir sértrúarsafnaðar dóu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 18. nóvember 1978 fyrirskipaði Jim Jones, leiðtogi Peoples Temple kirkjunnar, öllum meðlimum hennar, sem bjuggu í Jonestown í Gvæjana að fremja „byltingarkennt sjálfsvíg“ með því að drekka eitrað púns. Alls létust 918 manns þennan dag í Jonestown, þar af var þriðjungurinn börn. Fjöldasjálfsvígin í Jonestown var allt þar til hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á Bandaríkin í september 2001 sá atburður þar sem flestir Bandaríkjamenn höfðu látist í einu en náttúruhamfarir eru þar undanskildar.

Jim Jones stofnaði söfnuðinn 1956 og var fólk af öllum kynþáttum velkomið í hann en það var harla óvenjulegt á þessum tíma. Meginmarkmið kirkjunnar var að sögn að aðstoða fólk í neyð. Í fyrstu var kirkjan staðsett í Indianapolis í Indiana en var flutt til Redwood Valley í Kaliforníu 1966. Jones átti sér draum um samfélag byggt á gildum kommúnisma þar sem allir lifðu saman í friði og sátt og legðu sitt af mörkum fyrir samfélagið. Honum tókst að koma skipulagi sem þessu á í litlum mæli í Kaliforníu en átti sér draum um að stofna búðir utan Bandaríkjanna. Þessar búðir áttu að vera að fullu undir hans stjórn og meðlimir Peoples Temple áttu að hjálpa fólki á svæðinu. Til að þetta gæti gengið upp og áhrifa bandarískra stjórnvalda gætti ekki áttu þessar búðir að vera fjarri Bandaríkjunum. Jones fann afskekkt svæði í Gvæjana, sem er í Suður-Ameríku, sem hentaði þörfum hans. Hann samdi um leigu á landsvæði 1973 við þarlend stjórnvöld og hófst þá mikil vinna við að ryðja skóg svo hægt væri að reisa búðir fyrir safnaðarmeðlimi. Uppbyggingin tók langan tíma enda þurfti að flytja allt byggingaefni til Jonestown sem hét fullu nafni Jonestown Agricultural Settlement. Þegar kom fram á árið 1977 bjuggu aðeins um 50 manns í búðunum og Jones var sjálfur enn í Bandaríkjunum.

Draumaríkið

En það breyttist fljótt þegar Jones frétti að verið væri að vinna að umfjöllun um hann þar sem hann yrði afhjúpaður. Greinin var við að fara í prentun og innihélt meðal annars viðtöl við fyrrverandi safnaðarmeðlimi. Nóttina áður en greinin var prentuðu flaug Jones ásamt nokkur hundruð safnaðarmeðlimum til Gvæjana. Fólkið settist að í Jonestown.

Jonestown átti að vera draumaríki en þegar safnaðarmeðlimirnir komu þangað voru hlutirnir ekki eins og þeir höfðu búist við. Ekki var búið að byggja nægilega mörg hús til að hýsa alla og því höfðu kojur verið settar upp í húsunum, sem voru tilbúin, og því var þröngt á þingi. Kynjaskipt var í húsin þannig að hjón máttu ekki vera í sama húsinu. Hitinn og rakinn í Jonestown var kæfandi og margir veiktust. Þá þurftu safnaðarmeðlimirnir að vinna langa vinnudaga í hitanum, stundum allt að 11 klukkustundir. Hátalarar voru settir upp úti um allt í búðunum og var nær endalausum prédikunum Jones útvarpað. Hann hafði mikið að segja og talaði oft heilu næturnar svo örþreytt fólkið átti erfitt með svefn. Sumir voru mjög sáttir við að búa í Jonestown en aðrir vildu gjarnan losna þaðan en það var ekki auðvelt. Búðirnar voru í miðjum frumskógi og vopnaðir verðir stóðu vörð um þær. Þeir sem vildu fara þurftu að fá leyfi hjá Jones til þess og slík leyfi vildi hann ekki veita.

Jim Jones.
Viðstaddur mótmæli í San Francisco árið 1977.

Þingmaður kemur í heimsókn

Leo Ryan, þingmaður frá Kaliforníu, hafði heyrt ávæning af að eitthvað slæmt væri á seyði í Jonestown. Hann ákvað því að fara þangað og kanna ástandið. Í för með honum voru ráðgjafi hans og kvikmyndatökulið frá NBC-sjónvarpsstöðinni auk nokkurra ættingja safnaðarmeðlima. Ekki var annað að sjá en allt væri í góðu lagi. Um kvöldið var boðið til veislu með góðum mat og dansleik. Þá laumaði einhver miða til eins úr kvikmyndatökuliðinu með nöfnum fólks sem vildi gjarnan yfirgefa búðirnar. Þá varð hópnum ljóst að sumum var haldið gegn vilja sínum í Jonestown.

Næsta dag, 18. nóvember 1978, tilkynnti Ryan að hann væri reiðubúinn til að taka alla þá sem vildu yfirgefa Jonestown með til Bandaríkjanna. Aðeins örfáir safnaðarmeðlimir þáðu boðið en fólk óttaðist viðbrögð Jones. Fólkið var flutt á brott í vörubíl en Ryan ákvað að verða eftir til að tryggja að enginn, sem vildi fara, hefði orðið eftir. Þá réðst einn safnaðarmeðlima á hann og reyndi að skera hann á háls. Það tókst ekki en ljóst var að Ryan og hópur hans voru í hættu og yfirgaf hann því búðirnar. Vörubíllinn komst á leiðarenda á flugvöllinn en flugvélarnar voru ekki tilbúnar til brottfarar þá. Á meðan fólkið beið var dráttarvél með tengivagn ekið upp að þeim. Af tengivagninum stukku safnaðarmeðlimir sem hófu skothríð á fólkið. Fimm féllu, þar á meðal Ryan. Margir til viðbótar særðust.

Fjöldasjálfsvígin

Í Jonestown fyrirskipaði Jones öllum að safnast saman við veisluskálann. Þegar allir voru komnir ávarpaði Jones söfnuð sinn. Hann var örvæntingarfullur og virtist pirraður. Hann var ósáttur við að einhverjir safnaðarmeðlimir hefðu yfirgefið Jonestown og lét eins og hlutirnir yrðu að gerast hratt. Hann sagði fólkinu að ráðist hefði verið á Ryan og fylgdarmenn hans og að vegna þessa væri Jonestown ekki lengur öruggur staður. Hann var fullviss um að bandarísk yfirvöld myndu bregðast harkalega við vegna árásarinnar.

„Þegar fallhlífarhermennirnir koma munu þeir skjóta sum af saklausu börnunum okkar.“

Hann sagði söfnuðinum að eina leiðin út úr þessu væri að fremja „byltingarkennt sjálfsvíg“. Ein kona tók til máls og andmælti honum en hann færði rök á móti og söfnuðurinn setti sig þá upp á móti konunni. Þegar fréttist að Ryan væri dáinn lá Jones enn meira á og virtist enn æstari. Hann hvatti safnaðarmeðlimi til sjálfsvígs og sagði að ef hermenn kæmu myndu þeir pynta börnin og gamla fólkið, það væri ekki hægt að lifa við.

Stórir pottar voru fylltir af gosdrykkjum og blásýra og valíum sett út í. Kornabörn og börn voru fyrst færð að pottunum og sprautur notaðar til að koma eitruðum drykknum upp í þau. Því næst drukku mæðurnar eitrið. Því næst var röðin komin að öðrum safnaðarmeðlimum. Sumir voru dánir áður en aðrir gátu drukkið eitrið. Ef fólk var ekki samvinnuþýtt sáu vopnaðir verðir um að „hvetja“ það áfram. Það tók fólk um fimm mínútur að deyja eftir að það drakk eitrið.

912 manns létust af völdum eitursins. Af þeim voru 276 börn. Jones lést af völdum skots í höfuðið en ekki er vitað hvort hann skaut sig sjálfur eða ekki. Í heildina létust 918 manns á flugvellinum og í Jonestown.  Örfáir lifðu þetta af, annaðhvort með því að flýja inn í skóginn eða fela sig í búðunum.

Af hverju?

Líklegast fæst aldrei svar við af hverju fólkið kaus að fylgja Jones í dauðann og svipta sig lífi en eins og svo oft er raunin í trúarsöfnuðum virðist sem leiðtoginn, Jones, hafi haft eitthvert heljartak á safnaðarmeðlimum og hafi getað stýrt þeim nánast að vild.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Setja upp bekk á Hornströndum til minningar um Solveigu

Setja upp bekk á Hornströndum til minningar um Solveigu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Úlfar býr ávallt til Eurovision-drykkjuleik: „Drekktu sopa ef Gísli Marteinn er fyndinn eða óviðeigandi“

Úlfar býr ávallt til Eurovision-drykkjuleik: „Drekktu sopa ef Gísli Marteinn er fyndinn eða óviðeigandi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Yfirheyrslan – Eva Laufey Kjaran

Yfirheyrslan – Eva Laufey Kjaran
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sprenging í sölu á BDSM klæðnaði – Hálsólar og svipur rjúka út: „Við erum búin að bíða lengi eftir þessu“

Sprenging í sölu á BDSM klæðnaði – Hálsólar og svipur rjúka út: „Við erum búin að bíða lengi eftir þessu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Netverjar æfir yfir nýjum Batman – „Best geymdur í vampíru- og stelpumyndum“

Netverjar æfir yfir nýjum Batman – „Best geymdur í vampíru- og stelpumyndum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hlustaðu á glænýjan smell Svölu – Draumkennt popplag samið á Íslandi og Í Los Angeles

Hlustaðu á glænýjan smell Svölu – Draumkennt popplag samið á Íslandi og Í Los Angeles