fbpx
Föstudagur 18.júlí 2025
Fókus

„Það síðasta sem hún sagði við mig var: „Mamma, taktu mig.““ – Hefðu ekki átt að deyja

Elsabet Sigurðardóttir kennir læknamistökum um dauða tveggja barna hennar -Guðbjörg lést úr heilahimnubólgu en Kristinn svipti sig lífi eftir að honum var neitað um innlögn

Kristín Clausen
Mánudaginn 6. mars 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elsabet Sigurðardóttir hefur gengið í gegnum martröðina sem allir foreldrar óttast, að missa barnið sitt. Ekki einu sinni heldur tvisvar. Árið 1981 missti Elsabet tveggja ára dóttur sína úr heilahimnubólgu og 27 árum síðar, þann 16. nóvember 2008, svipti sonur hennar sig lífi. Elsabet er sannfærð um að bæði börnin hennar, Guðbjörg Eiríksdóttir og Kristinn Ísfeld Andreasen, væru á lífi ef heilbrigðiskerfið hefði ekki brugðist þeim. Blaðamaður DV hitti Elsabetu á heimili hennar í Grafarvoginum á björtum og fallegum vetrardegi síðastliðinn miðvikudag. Veðursældin þennan dag var svo sannarlega ekki í takt við umræðuefnið en andlát Guðbjargar og Kristins, nístandi sorgin og orkan sem hefur farið í að berjast fyrir réttlætinu hefur markað líf Elsabetar og fjölskyldu hennar.

Óþægileg tilfinning

„Þetta barn var líf mitt,“ segir Elsabet á meðan hún rifjar upp minningar er tengjast dóttur hennar Guðbjörgu. „Hún var yndisleg, alheilbrigð og mjög skýr. Guðbjörg hefði aldrei átt að fara svona.“

Á þessum tíma bjuggu Elsabet og sambýlismaður hennar ásamt dóttur sinni í kjallaraíbúð hjá tengdaforeldrum hennar. Elsabet var komin átta mánuði á leið þegar Guðbjörg, sem var rúmlega tveggja ára, veiktist skyndilega í febrúar 1981. Þá lá hún inni á kvennadeild Landspítalans vegna blæðinga.

„Ég varð alveg ómöguleg þegar ég frétti af því að hún væri orðin veik. Ég gat aldrei verið án dóttur minnar og vitandi að hún væri slöpp gerði að verkum að ég fékk lækni til að útskrifa mig svo ég kæmist heim til hennar.“

Myndin var tekin skömmu áður en hún veiktist.
Guðbjörg Myndin var tekin skömmu áður en hún veiktist.

Mynd: Úr einkasafni

Þegar Elsabet komst loks heim til foreldra sinna, en þar hafði Guðbjörg verið í pössun á meðan hún lá á spítalanum, tók hún strax eftir því að barnið var fárveikt. Fyrr um daginn hafði móðir hennar fengið lækni til að líta á litlu stúlkuna sem hafði kastað upp og var með háan hita. Læknirinn, sem skoðaði Guðbjörgu, hunsaði einkennin og sagði að hún væri með pest sem gengi yfir.

„Þá reyndi mamma líka að róa mig. Hún sagði mér hvað eftir annað að börn veiktust, það væri hluti af því að vera lítill. En ég fann á mér að það væri eitthvað alvarlegt að henni. Þetta var eitthvað öðruvísi.“

Vildi ekki fara með hana á sjúkrahús

Eftir að leið á kvöldið og einkenni Guðbjargar héldu áfram að versna hringdi Elsabet í næturlækni sem kom og kíkti á Guðbjörgu. Á þessum tímapunkti var hún komin með gríðarlega háan hita og svaf. „Ég spurði hvort við ættum ekki að fara með hana beint upp á sjúkrahús þar sem mig grunaði að hún væri með heilahimnubólgu. Ég man enn að þessi læknir hlustaði ekkert á mig. Hann þvertók fyrir að hún væri með heilahimnubólgu og kvaðst ekki sjá ástæðu til að leggja hana inn á spítala. Ég trúði honum. Hann var læknir, ekki ég. Það sem ég sé mest eftir í lífinu er að hafa ekki á þessum tíma fylgt eigin sannfæringu.“

Eftir nokkurra mínútna spjall um líðan Guðbjargar kvaddi læknirinn og gekk út. „Hann sagði að ef henni myndi versna þá mætti ég hringja aftur.“ Eftir því sem leið á nóttina hélt Guðbjörgu áfram að versna. „Ég hringdi að sjálfsögðu aftur en þá tók ég eftir því að hún var komin með stóra flekki (húðblæðingar) á
líkamann.“

Áföllin hafa mótað líf Elsabetu
Kennir læknamistökum um dauða barnanna sinna Áföllin hafa mótað líf Elsabetu

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Læknirinn lét ekki sjá sig og í örvæntingu sinni, þegar komið var undir morgun, fór faðir Guðbjargar heim til foreldra sinna og reyndi hvað hann gat að ná sambandi við einhvern til að koma dóttur sinni að á spítalanum. Að lokum náði hann sambandi við sjúkraliða sem hann þekkti sem ráðlagði honum að fara beinustu leið upp á sjúkrahús með dóttur sína. „Ég var búin að bíða og bíða eftir lækninum sem lét aldrei sjá sig. Biðin var orðin svo löng að ég fór að lokum með hana sjálf.“

Erfiðir sólarhringar

Þegar foreldrar Guðbjargar lögðu bílnum fyrir framan Landspítalann við Hringbraut stóðu tveir læknar úti á bílaplaninu og tóku á móti stúlkunni.

„Þeir hlupu með hana upp stigann og allt í einu flykktust enn fleiri læknar og hjúkrunarfræðingar að stúlkunni okkar.“

Á meðan teymi lækna og hjúkrunarfræðinga sinnti Guðbjörgu var Elsabetu fylgt inn í herbergi þar sem barnalæknirinn Gestur Pálsson tók á móti henni. „Það fyrsta sem hann sagði var: „Af hverju var ekki komið með hana strax?“

Guðbjörg var samstundis lögð inn á gjörgæsludeildina þar sem móðir hennar sat yfir henni. „Á þessum tímapunkti var Guðbjörg nánast meðvitundarlaus, hún rankaði þó við sér öðru hverju.“

Þá segir Elsabet á meðan tárin leka niður kinnar hennar: „Það síðasta sem hún sagði við mig var: „Mamma, taktu mig“.“

Gríðarlegt álag var á gjörgæsludeildinni á þeim tíma sem Guðbjörg barðist fyrir lífi sínu og að auki geisaði gríðarlegt óveður úti. Þakplötur fuku af spítalanum sem var rafmagnslaus um tíma sökum veðurofsans. Elsabet var beðin um að fylgjast grannt með líðan dóttur sinnar og láta samstundis vita ef hún sæi einhverja breytingu.

„Svo kom að því sem ég óttaðist mest. Tæpum þremur sólarhringum eftir að Guðbjörg veiktist fyrst lenti hún í andnauð. Allt fylltist af læknum og ég var sett fram á gang. Þar beið ég á milli vonar og ótta, og reyndi að komast aftur inn, þar til nokkrir læknar komu fram á ganginn. Einn þeirra sagði, „Þetta er búið.“ Ég missti gjörsamlega stjórn á mér.“

Átti bara að halda áfram

Í framhaldinu var Elsabetu komið fyrir í litlu herbergi á gjörgæsludeildinni. „Í minningunni var þetta mjótt herbergi þar sem var sófi og skrifborð, beint á móti lyftunni á bráðamóttökunni á gamla spítalanum. Þarna átti ég að setjast og róa mig. Ég man svo skýrt eftir því að fólk sagði mér aftur og aftur að hugsa um barnið því ég var kasólétt. Síðan var ég send heim.“

Elsabet segir að á þessum tíma hafi engin úrræði verið í boði fyrir syrgjandi foreldra. Það sem hún átti einfaldlega að gera, og gerði, var að fara heim, tína saman dótið hennar og undirbúa jarðarförina. Það var svo lítið talað um sorg og mín upplifun var sú að ég ætti bara að hætta að hugsa um þetta og halda áfram að lifa.“

Elsabet segir að síðar hafi hún komist að því að næturlæknirinn, sem var kallaður út um kvöldið og nóttina áður en Guðbjörg var lögð inn, mætti sallarólegur heim til þeirra í annað skiptið þremur klukkustundum eftir að þau sjálf fóru með Guðbjörgu á sjúkrahúsið.

„Samt hafði hann fengið ítrekuð skilaboð um að þetta væri bráðatilfelli og að hann þyrfti að koma strax. Ef hann hefði sinnt starfinu sínu … Ef hann hefði ráðfært sig við annan lækni … Ef hann hefði hlustað á móðursjúku og örvæntingarfullu móðurina sem skynjaði að eitthvað mikið væri að … Ef hann hefði komið strax um nóttina líkt og við óskuðum eftir …“

Elsabet heldur áfram:

„Ef Guðbjörg hefði verið send beinustu leið á sjúkrahúsið, þegar hann skoðaði hana kvöldið áður en hún var lögð inn, þá væri hún lifandi. Allir eru sammála um það.“

Guðbjörg lést þann 16. febrúar 1981. Dánarorsökin var heilahimnubólga. Rúmlega tveimur vikum eftir andlát Guðbjargar, 3. mars 1981, fæddi Elsabet dreng sem fékk nafnið Kristinn Ísfeld Andreasen.

Læknirinn tók völdin

„Áður en hann kom í heiminn héldum við útförina og lukum öllu sem henni tilheyrði. Eitt af því sem fólk sagði til að hugga mig var að ég væri heppin að geta átt fleiri börn. Ég gleymi þessum orðum aldrei. Það kemur enginn í staðinn fyrir þann sem er farinn. Ég viðurkenni samt að þessi drengur bjargaði lífi mínu. Gagnkvæm ást og að geta knúsað hann þegar sorgin helltist yfir mig. Þetta var gríðarlega erfiður tími.“

Innt svara við því hvort hún hafi álasað sjálfri sér fyrir dauða Guðbjargar svarar Elsabet:

„Ég hefði kannski átt að vera alveg brjáluð. En hvað átti ég að gera? Ég var 19 ára. Læknirinn drottnaði yfir mér og tók völdin af mér. Hann hefur úrræði til að framkvæma en ekki ég.“

Elsabet segir að þessi læknir, sem þá var nýútskrifaður, sé enn starfandi. Það særir hana enn að hann baðst aldrei afsökunar á því að hafa ekki metið ástand dóttur hennar rétt. Læknarnir fengu þó áminningu eftir þetta en faðir Elsabetar, sem var hennar stoð og stytta í lífinu, ræddi við blaðamenn, lækna- og háskólasamfélagið um mistökin sem leiddu til dauða Guðbjargar.

„Hrokinn sem mætti mér eftir þetta nístir enn inn að beini. Að sjá þessa menn – eins og ekkert hafi í skorist. Dauði dóttur minnar rústaði framtíð minni. Ég varð aldrei aftur söm. Drengirnir mínir fæddust sömuleiðis inn í mikla sorg sem markaði djúp spor í tilveru þeirra.“

Á dánardegi Guðbjargar, 16. febrúar 1982, ári eftir að hún lést, fæddi Elsabet annan dreng sem fékk nafnið Þorbjörn. Elsabetu og sambýlismanni hennar reyndist erfitt að finna taktinn í fjölskyldulífinu eftir andlát Guðbjargar. Þegar Þorbjörn og Kristinn voru tveggja og þriggja ára tóku þau ákvörðun um að skilja. Öll börnin eru samfeðra þrátt fyrir að þau beri ekki sama eftirnafn.

„Þetta var gríðarlega erfitt tímabil. Ég vann mikið, tók alla vinnu sem hægt var að fá til að eiga ofan í okkur og á.“

Ólíkur hinum börnunum

Elsabet kveðst strax hafa tekið eftir því að Kristinn var mjög ólíkur Guðbjörgu og síðar Þorbirni. „Hann fæddist auðvitað á sama tíma og ég gekk í gegnum óbærilega sorg. Kristinn var nýfæddur, mjög hvekktur og órólegur. Ég fann á mér að það var ekki allt eins og það átti að vera.“

Þegar Kristinn var þriggja ára fór Elsabet fyrst með hann til læknis sökum hegðunar- og svefnvandmála. „Að mínu mati eru læknar alltof duglegir við að setja börn á lyf. Ég vildi reyna allt áður til þess kæmi svo við prófuðum ýmislegt.“

Átta árum eftir að hún skildi við fyrrverandi eiginmann sinn kynntist Elsabet Herði Sævari og þau eignuðust þrjú börn saman. Elsabet var komin í ágætt starf og sinnti barnauppeldinu eins vel og hún gat.

Til að mynda kynnti Elsabet sér allt um ADHD sem að hennar sögn hafði mikil áhrif á skólagöngu Kristins sem flosnaði upp úr námi eftir grunnskóla. Þá viðurkennir Elsabet fúslega að skilnaðurinn og erfiðar heimilisaðstæður hafi mótað Kristin. Hann bjó um tíma hjá föður sínum og stjúpmóður en á þeim tíma var samband þeirra af skornum skammti. Þá segir Elsabet að skólakerfið og félagsþjónustan hafi brugðist sér og drengjunum hennar þegar þau þurftu virkilega á aðstoð að halda.

Bæði alsystkini hans eru látin.
Elsabet og Þorbjörn Bæði alsystkini hans eru látin.

Mynd: Úr einkasafni

„Skólinn tók ekki á þeim vandamálum sem ég kvartaði undan og því miður hefur lítið breyst. Ef þú ert með eitt veikt barn þá kemur það niður á hinum börnunum. Það sama gerist í skólakerfinu. Ef krakkar í bekknum þurfa sérúrræði þá kemur það niður á hinum krökkunum í bekknum,“ segir Elsabet og bætir við að þá skapist ósjálfrátt fleiri árekstrar og álag. Það sama gerist á heimili þar sem eitt barn er veikt eða með einhvers konar röskun sem hefur áhrif á heimilislífið.

„Kristinn var viðkvæm sál og þurfti að hafa mikið fyrir lífinu.“

Viðkvæm sál

Á unglingsárunum leiddist Kristinn út í óreglu. Að sögn Elsabetar var hann alveg hættur í öllu rugli áður en hann lést. Árið 2002 eignaðist Kristinn dóttur með þáverandi sambýliskonu sinni. Þau skildu en dóttir þeirra var áfram í góðu sambandi við föður sinn.

Haustið 2008 byrjaði Kristinn á nýjum lyfjum í samráði við geðlækni sinn. Lyfið var á þessum tíma tilraunalyf. Í fyrstu hafði Kristinn tröllatrú á þessum nýju lyfjum sem áttu að umbreyta líðan hans. En honum leið alltaf verr og verr.

Aukaverkanir af lyfjunum voru miklar og samhliða þeim átti hann í töluverðu basli í einkalífinu dagana áður en hann svipti sig lífi. Þá hafði hann sleppt því að taka lyfin og var í miklum fráhvörfum vegna þess.

Þann 12. nóvember 2008 var Kristinn sjálfur orðinn svo hræddur við eigin hugsanir um dauðann að hann fékk félaga sinn til að skutla sér á bráðaþjónustu göngudeildar geðsviðs Landspítalans, þegar hann náði ekki sambandi við sinn lækni. Kristinn hafði áður legið inni vegna sjálfsvígshugsana og vonaðist til þess að spítalavist myndi hjálpa sér að komast í betra jafnvægi og vinna bug á þeim.

Fékk ekki innlögn

Kristinn fékk ekki innlögn heldur var vísað frá með uppáskrifuð svefnlyf til að koma svefninum í betra horf og viðtal við áfengisráðgjafa. Í skýrslunni segir að honum hafi verið boðið að koma aftur næsta dag ef sjálfsvígshugsanir gerðu aftur vart við sig en Elsabet fullyrðir að Kristinn hafi aldrei talað um að hann væri velkominn aftur heldur sagði hann þegar hún hvatti hann til að leita aftur á göngudeild geðsviðs næsta dag að það þýddi ekkert. „Þau vilja ekkert hjálpa mér,“ sagði hann.

Smelltu á myndina til að fá hana stærri
Biðjast afsökunar Smelltu á myndina til að fá hana stærri

Í læknaskýrslu frá umræddum degi, 12. nóvember, segir meðal annars:

„Fékk hann sjálfsvígshugsanir og gekk hann um bæinn í gær og með reipi og leitaði að stað til að hengja sig á. Hann hætti við án þess að hafa fundið sér stað. Hefur lítið borðað síðustu daga en fékk sér þó samloku á meðan hann beið eftir viðtalinu. Einnig sefur hann lítið.“

Þá segir í áhættumati læknaskýrslunnar:

„Er ekki með sjálfsvígshugsanir núna. Hann er þó í hættu þar sem hann hefur áður reynt sjálfsvígstilraun og var kominn með plön núna. Einnig er hann hvatvís. Er hann metinn svo að hann sé ekki í sjálfsvígshættu núna er þarf áframhaldandi stuðning til að komast út úr sinni krísu. XXXX XXXXXX var konsúlteraður í síma og erum við sammála um að það þarf að fara betur í hans áfengismál en það sé ekki tímabært að leggja hann inn.“

Elsabet þvertekur fyrir að Kristinn hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hann leitaði á bráðamóttökuna þennan dag. „Hann drakk aldrei áfengi. Honum fannst það ógeðslegt.“

Var boðin aðstoðin sem sonur hennar fékk ekki

Rúmlega fjórum sólarhringum eftir að Kristni var vísað frá geðdeildinni var hann látinn. Kristinn svipti sig lífi með því að hengja sig. 16. nóvember, dagurinn sem Kristinn gafst upp og tók líf sitt mun aldrei renna Elsabetu úr minni. Dagana á undan hafði Kristinn verið mjög langt niðri. Sérstaklega eftir að hafa verið neitað um að fá innlögn. Elsabet segir að Kristni hafi verið tjáð að hann kæmist ekki inn sökum plássleysis á deildinni.

„Hann vildi og reyndi að gera eitthvað í sínum málum en upplifði sig einan í heiminum. Sérstaklega þar sem hann fékk ekki þá læknisaðstoð sem hann þurfti á að halda. Kristinn upplifði svo mikla höfnun.“

Daginn áður en Kristinn lést varð mikill harmleikur í fjölskyldu Elsabetar og hún var í heimsókn hjá nánum ættingja sem átti um sárt að binda þegar einhver óróleiki kom yfir hana.

„Ég dreif mig heim og reyndi að ná í Kristin sem svaraði ekki og svo Þorbjörn sem hafði boðið Kristni með sér í bíó sem hann afþakkaði og sagðist ætla í göngutúr. Ég sendi Þorbjörn heim til Kristins til að athuga með hann, þar sem hann var í nágrenninu, en ég var komin heim í Grafarvoginn. Ég var enn með Þorbjörn í símanum þegar ég heyri hvernig hann byrjar að öskra.

Elsabet segir Kristinn hafa verið viðkvæman dreng.
Kristinn Ísfeld Andreasen Elsabet segir Kristinn hafa verið viðkvæman dreng.

Mynd: Úr einkasafni

Elsabet heldur áfram: „Ég stífnaði öll upp og vissi hvað hafði komið fyrir. Þorbjörn náði loks að segja mér hvað hefði gerst og á sama tíma hringdi maðurinn minn í Neyðarlínuna sem kom á vettvang skömmu síðar. Við vorum varla búin að átta okkur á því hvað hafði gerst þegar rannsóknarlögreglumaður bankaði upp á og bað mig um að skrifa undir hina og þessa pappíra. Til dæmis samþykki á krufningu.“

Hún kveðst enn gáttuð á þessum ónærgætnu vinnubrögðum lögreglunnar en á þessum tímapunkti vissi hún í raun og veru enn ekki hvort drengurinn hennar væri lífs eða liðinn. Hún var ekki búin að bera kennsl á lík sonar síns.
Nokkru síðar komu tveir einkennisklæddir lögreglumenn og vottuðu fjölskyldunni samúð sína.

„Þeir settust niður með mér og buðu mér alla þá aðstoð sem ég vildi. Hvort sem væri lyf, áfallahjálp eða innlögn. Ég skildi þetta ekki. Sonur minn var látinn af því að hann fékk ekki aðstoð en mér var boðið það sem hann fékk ekki? Ég var orðlaus og er enn.“

Spítalinn sýknaður

Elsabet segir næstu vikur og mánuði á eftir hafa liðið í hálfgerðri móðu. Hún er fullviss um að sonur hennar væri enn á lífi ef hann hefði fengið viðeigandi aðstoð. „Það eru svo fá úrræði fyrir fólk sem glímir við geðsjúkdóma. Sérstaklega karlmenn. Þeir eru alltaf í feluleik með líðan sína. Þessu þarf að breyta.“

Árið 2013 fór Elsabet í mál við Landspítalann vegna þess að Kristni var ekki boðin innlögn. Læknir Kristins studdi kröfu Elsabetar og sagði fyrir dómi að það hefði átt að leggja Kristin inn á geðdeild þegar hann óskaði eftir því. Spítalinn var sýknaður af öllum kröfum Elsabetar í héraðsdómi sama ár.

Í sýknudóminum segir meðal annars: „Það er mat dómsins að starfsmenn geðdeildar Landspítalans hafi ekki sýnt af sér gáleysi, hvorki stórfellt né almennt, þegar þeir ræddu við Kristin 12. nóvember 2008 og andlát hans verði ekki rakið til athafna þeirra.“

Elsabet segir lækna hafa logið fyrir dómstólum og ásakar ákveðna menn um að hafa einfaldlega mokað yfir málið. „Þeir rannsaka sig sjálfir. Auðvitað voru þeir sýknaðir.“

Hún kveðst ætla að halda áfram í þessari baráttu þar sem heilbrigðiskerfið hafi lítið sem ekkert breyst frá því að sonur hennar svipti sig lífi. „Það þarf að gera eitthvað í þessu. Auðvitað snýst þetta fyrst og síðast um peninga en ekki mannslíf og því þarf að breyta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Sýndi ótrúlega danstakta í Leifsstöð

Sýndi ótrúlega danstakta í Leifsstöð
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram – „Gott að vera tengdur innra barninu í sér“

Vikan á Instagram – „Gott að vera tengdur innra barninu í sér“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Friðarsamningar milli Harry og kóngsins hafnir – Fulltrúar hittust á leynifundi

Friðarsamningar milli Harry og kóngsins hafnir – Fulltrúar hittust á leynifundi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þess vegna lifa konur lengur en karlar

Þess vegna lifa konur lengur en karlar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Julia með stórskemmtilegt myndband frá Íslandi – „I Wonder What Björk Is Doing Right Now. Kría!“

Julia með stórskemmtilegt myndband frá Íslandi – „I Wonder What Björk Is Doing Right Now. Kría!“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan nær hámarki í dag – myndasyrpa frá föstudagskvöldinu

Grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan nær hámarki í dag – myndasyrpa frá föstudagskvöldinu