Fréttamaðurinn fyrrverandi og skemmtikrafturinn Ómar Ragnarsson tók sig til á mánudagsmorgun og birti á Facebook-síðu sinni myndband þar sem hann, að eigin sögn, raular ljóð sem vinur hans, Kristján Hreinsson skáld, hafði birt á Facebook-síðu sinni.
Ómar segir að ljóðið hafi gripið sig og hann því ákveðið að semja lag. „Það greip bæði mig og fleiri og þegar slíkt gerist verður stundum eitthvað nýtt til á svipstundu. Í þessu tilfelli var það lag, sem spratt fram eins og föt utan um fallega manneskju. Datt í hug að negla lagið niður til minnis með því að taka mynd af textanum og raula það inn um leið. Bara svona frumstæð tilraun í anda augnabliksins,“ skrifaði Ómar við myndbandið.