Landspítalinn var sýknaður af öllum kröfum Elsabetar Sigurðardóttur
„Það eru svo fá úrræði fyrir fólk sem glímir við geðsjúkdóma. Sérstaklega karlmenn. Þeir eru alltaf í feluleik með líðan sína. Þessu þarf að breyta.“ Þetta segir Elsabet Sigurðardóttir en sonur hennar, Kristinn Ísfeld Andreasen, svipti sig lífi í nóvember árið 2008. Nokkrum dögum áður leitaði hann sjálfur á bráðasvið geðdeildar þar sem hann þarfnaðist aðstoðar. Honum var hinsvegar vísað frá.
Árið 2013 fór Elsabet í mál við Landspítalann vegna þess að Kristni var ekki boðin innlögn. Hún segir læknamistök hafa gert að verkum að sonur hennar var sendur út í opinn dauðann. Læknir Kristins studdi kröfu Elsabetar og sagði fyrir dómi að það hefði átt að leggja Kristin inn á geðdeild þegar hann óskaði eftir því. Spítalinn var sýknaður af öllum kröfum Elsabetar í héraðsdómi sama ár.
Í sýknudóminum segir meðal annars: „Það er mat dómsins að starfsmenn geðdeildar Landspítalans hafi ekki sýnt af sér gáleysi, hvorki stórfellt né almennt, þegar þeir ræddu við Kristin 12. nóvember 2008 og andlát hans verði ekki rakið til athafna þeirra.“
Elsabet segir lækna hafa logið fyrir dómstólum og ásakar ákveðna menn um að hafa einfaldlega mokað yfir málið. „Þeir rannsaka sig sjálfir. Auðvitað voru þeir sýknaðir.“
Hún kveðst ætla að halda áfram í þessari baráttu þar sem heilbrigðiskerfið hafi lítið sem ekkert breyst frá því að sonur hennar svipti sig lífi. „Það þarf að gera eitthvað í þessu. Auðvitað snýst þetta fyrst og síðast um peninga en ekki mannslíf og því þarf að breyta.“
Nánar er fjallað um málið í helgarblaði DV.