Vonar að sjúkraflutningsmenn fyrirgefi henni bullið
„Fyrirhuguð fjölskylduferð í pottinn í fallega veðrinu í gær endaði í sjúkrabíl og næturdvöl á LSH, þar sem ég bíð nú eftir aðgerð við fjölda beinbrota á ökkla/legg,“ segir Halla Tómasdóttir, fyrrum forsetaframbjóðandi, í Facebook-færslu. Segir Halla að sundbolnum hafi nú verið skipt út fyrir búning merktum Landspítalanum og að hún megi búa sig undir að vera í gifsi frá tám og upp í nára í 6-8 vikur.
Þá hrósar Halla heilbrigðisstarfsfólki í hástert. „ Er í góðum höndum þess frábæra starfsfólks sem hér vinnur þrekvirki við erfiðar aðstæður og sýnir manni þrátt fyrir það ekkert nema hlýju og alúð. Er þeim einlæglega þakklát og treysti þeim til að kippa afbökuðum fæti aftur í form. Sjúkraflutningsmennirnir voru einnig einstakir, og vona ég að þeir fyrirgefi konunni á sundbolnum allt bullið sem uppúr henni valt à sínum fyrsta rótsterka verkjalyfjaskammti, wow!,“ segir Halla í færslunni.
„Já kæru vinir, það má segja að heimkoman hafi verið hörð lending, en þessu verður mætt af æðruleysi og þakklæti, hefði svo sannarlega getað farið verr. Þigg með þökkum allar ykkar góðu óskir, virka örugglega betur en allt heimsins morfín! Farið varlega í hálkunni elskurnar!,“ segir Halla sem brosir greinilega í gegnum tárin.