Breska móðirin deilir mynd af sér þegar hún náði botninum sem má sjá hér að ofan.
Emma, 46 ára, hefur verið edrú síðastliðin þrjú ár og vill vekja athygli á baráttunni við alkóhólisma því hún veit hvernig er að vera á þeim stað. Um tíma hélt hún að hún myndi ekki lifa þetta af.
„Ég hélt að ég myndi deyja, alveg hundrað prósent,“ segir hún í samtali við The Sun.
„Ég þekki ekki sjálfa mig á þessum myndum og ég gekk svona um göturnar.“
„Ég vil að það verði ekkert stigma í kringum fíkn. Þegar ég hugsaði um alkóhólista þá varð það einhver róni sem drakk úr pappírspoka á bekk, en alkóhólismi tók mjög fljótt yfir líf mitt,“ segir Emma, en fráfall foreldra hennar varð til þess að hún sótti huggun í flöskuna.
„Ég naut mikillar velgengni, ég var sjálfstæð og mér hefði aldrei dottið í hug að þetta gæti gerst fyrir einhvern eins og mig,“ segir hún.
Hún hvetur fólk til að leita sér hjálpar, það sé erfitt en þess virði.