fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Faðir Önnu Margrétar tók eigið líf á jólunum – „Ég hafði grafið tilfinningarnar mjög djúpt og í raun aldrei unnið neitt með þær“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 22. janúar 2023 09:00

Anna Margrét Bjarnadóttir. Mynd/Anna Kristín Scheving

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Pabbi minn, Bjarni Rögnvaldsson, tók eigið líf á aðfangadag 1999. Hann var þá 46 ára og ég 22 ára,“ segir Anna Margrét Bjarnadóttir, rithöfundur, í bók sinni, Tómið eftir sjálfsvíg – Bjargráð til að lifa með sorginni.

Í bókinni eru tólf frásagnir fólks sem misst hefur ástvin í sjálfsvígi en auk þess að deilir Anna eigin reynslu af föðurmissinum.

Vonast hún til að bókin geti reynst gagnleg þeim sem ganga í gegnum missi eftir sjálfsvíg eða skyndilegt lát ástvinar.

Foreldrar Önnu Margrétar. Mynd/Aðsend.

„Við pabbi vorum mjög náin og ég var mikil pabbastelpa.  Við gátum talað um allt milli himins og jarðar og hann var tilfinningalega stoð mín og stytta. Hann gat næstum alltaf verið það fyrir mig.“

Hún segir pabba sinn hafa verið mjög veikan þetta ár, 1999.

„Hann var með einhverja blöndu af geðhvarfasýki og þunglyndi. Hann var sjálfur með mikla fordóma gagnvart geðsjúkdómum og hamlaði það allri meðferð. Hann gat ekki hugsað sér að vera inni á geðdeild.“

Anna Margrét ásam eiginmanni sínum, Þorvarði Tjöva Ólafssyni, og börnum þeirra. Þau eru búsett í Bandaríkjunum. Mynd/Aðsend.

Anna Margrét segir skrifin hafa verið ein af  hennar leiðum  í sorgarferlinu.

„Þau fyrstu voru minningargreinin þar sem ég sagði meðal annars frá því að pabbi hefði dáið vegna andlegra veikinda.“

Anna Margrét hefur orðið fyrir fleiri áföllum í lífinu.

Móðir hennar fékk heilablóðfall þegar hún var ungabarn auk þess sem hún er BRCA arfberi og lifir með aukinni hættu á krabbameini.

Hefur hún misst misst fjölda ástvina úr sjúkdómum.

Ítarlegt viðtal við Önnu Margréti verður í DV næsta sunnudag.

Anna Margrét segir það hafa verið krefjandi lífsreynslu að skrifa bókina, oft hafi virst sem einfaldast væri að að gefast upp og hætta við hana.

„Ég á því viðmælendum mínum mikið að þakka fyrir að taka þátt í þessari vegferð með mér og verða minn hvati til að klára og komast í gegnum þetta ferli,“ segir Anna Margrét.

„Vonandi reynist þessi bók gagnleg þeim sem ganga í gegnum þessa erfiðu lífsreynslu og ég vænti þess að lesandinn finni styrk í að sjá hvernig aðrir hafa tekist á við missi, sorg og tómið sem eftir situr. “

Hér má sjá frásagnir þriggja einstaklinga sem Anna Margrét ræddi við og eiga öll það sameiginlegt að hafa misst ástvin af völdum sjálfsvígs.

Auður Ýr Sveinsdóttir 

„Ég hef velt því fyrir mér hve heppin ég er að hafa ekki þurft að burðast með ásakanir gagnvart sjálfri mér um að hafa brugðist honum.

Ég held að ég hafi fyrirgefið mér það fljótlega að hafa ekki getað bjargað honum.

Þannig gat ég fengið frið í hjarta og haldið áfram með lífið. Ég tel að fyrirgefning til sjálfs þíns og ástvinarins, sem þú misstir, sé jafnvel mikilvægasti grunnurinn undir heilbrigða andlega sátt og ró.“

Auður Ýr Sveinsdóttir. Mynd/Anna Kristín Scheving

„Besta ráð mitt til þeirra sem missa ástvin úr sjálfsvígi er að tala við þá sem þeir geta treyst.

Fara margoft yfir hlutina, bæði þá erfiðu en einnig góðar minningar. Allt þarf að skoða frá ýmsum sjónarhornum á meðan bataferlinu stendur. Þá er gott að geta deilt því með góðum vini, vandamanni eða sérfræðingi.

Með því því að tala um áfallið og sorgina veitir þú öðrum hlutdeild í erfiðleikum þínum og lyftir byrðum af hjartanu og það hjálpar til við að öðlast frið.“

Elís Þór Rafnsson

Er ég hugsa tilbaka koma svo oft upp í huga mér textabrot úr laginu Hafið er svart, flutt af Jónasi Sigurðssyni:“

Sumir finna sína föstu hillu,

Sjálfur fann ég aldrei þennan frið. 

Í klettunum ég klifra í leit að syllu, 

klafinn þungur hangir fastur við.

„Mér finnst þessar fáu línur lýsa lífshlaupi hans vel. Glímunni sem pabbi háði, baráttunni sem hann tapaði svo á endanum.

“Sorgin í kjölfar sjálfsvígsins varð einhvern veginn svo nístandi í bland við hálf ruglingslegar hugsanir, endalausar spurningar og sjálfsásakanir.

Ég upplifði mig eins og í leikriti sem ég vildi alls ekki vera í.“

Elís Þór Rafnsson. Mynd/Anna Kristin Scheving.

„Það er svo mikilvægt að fólk kunni og þori að leita sér hjálpar í nærumhverfi sínu og að hlutir séu ræddir innan fjölskyldna.

Við ákváðum strax að segja hlutina eins og þeir voru. Þetta er hluti af okkar lífi og okkar sögu.

Stundum tekur þó á að segja frá þessu því að fólki bregður gjarnan þegar það heyrir hvernig pabbi dó. Það hjálpar engum að þegja yfir svona löguðu.

Við getum ekki sópað erfiðum hlutunum undir teppið og haldið að þeir hverfi þar.”

Mikilvægi áfallahjálpar 

Ásta Markúsdóttir 

„Mér var ekki boðin nein áfallahjálp eftir andlátið.

Mér er minnisstætt þegar ég heyrði í fréttum að strætó hefði farið út af vegi og öllum farþegum hefði verið boðin áfallahjálp. Það var að sjálfsögðu gott en mér fannst verkefnið sem ég var að takast á við vera stærra en útafakstur strætisvagns.

Ég tel þetta vera stærsta áfall sem nokkur manneskja getur orðið fyrir í lífinu.

Söknuðurinn hverfur aldrei.”

Bók Önnu Margrétar, Mynd á bókarkápu/Kolbrún Kristjánsdóttir.

Sorgarstuðningur við aðstandendur sem hluti af sjálfsvígsforvörnum

Í lokakafla bókarinnar, sem Anna Margrét skrifar með Guðrúnu Jónu Guðlaugsdóttur, benda þær á að sorgarstuðningur er mikilvægur hluti af forvörnum.

„Í þessu sambandi er gagnlegt að nefna enska hugtakið „postvention“ sem þýðir stuðningur við nána aðstandendur eftir sjálfsvíg.

Mikilvægt er að auðvelda aðstandendum að ná sér á strik aftur og koma í veg fyrir mögulegan heilsubrest, líkamlegan eða andlegan.

Ákjósanlegt væri að allir nánir aðstandendur, sem missa í sjálfsvígi, fengju viðtal við fagaðila í áfallafræðum fyrstu dagana eftir hinn þungbæra missi.

Því miður er ekkert kerfi til staðar núna sem virkjast sjálfkrafa eftir áfall eins og sjálfsvíg.“

Í lokakaflanum taka þær einnig saman bjargráð fyrir syrgjendur út frá frásögnum í bókinni, kafla sálfræðings og eigin reynslu þeirra beggja.

Sumir viðmælenda bókarinnar hafa leitað fagaðila en aðrir ekki.

Anna Margrét Bjarnadóttir. Mynd/Anna Kristin Scheving.

„Margir þeirra síðarnefndu hafa þó íhugað það á einhverjum tímapunkti eða séð eftir að hafa ekki gert það.

Það er aldrei of seint.

Jafnvel mörgum árum eftir andlát getur aðstoð fagaðila eða jafningja reynst þörf og gagnleg.

Við getum haft ríka þörf fyrir að ræða þessi mál þegar önnur áföll dynja yfir síðar á lífsleiðinni.

Slík áföll kunna að ýfa upp gömul og djúp sár. Það skiptir máli að reyna að láta sorgina ekki verða að þungum steini inni í okkur.

Reynum frekar að hugsa þetta eins og stein sem minnkar og mýkist með tímanum, hann getur orðið að demanti eða litríkum steini þegar frá líður,” segir Anna Margrét Bjarnadóttir, rithöfundur.

Eins og fyrr segir verður  ítarlegt viðtal við Önnu Margréti í DV næstkomandi sunnudag.

Þar segir hún sögu sína allt frá æskuárum og hvernig hún hefur tekist á við áföllin í lífi sínu. 

 

Finnist þér þú þurfa á hjálp að halda, bendir Anna Margrét á eftirfarandi:

Félagasamtök á borð við Pieta og Geðhjálp geta veitt mikilvægan stuðning og er hjálparsími Pieta, s. 552-2218 alltaf opinn, sömuleiðis Hjálparsími Rauða krossins, 1717 og netspjallið 1717.is. Sorgarmiðstöð, s. 551 4141 sinnir stuðningi við aðstandendur og Heilsugæslan getur jafnframt veitt aðstoð.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“