fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Ljósmynd sem aldrei gleymist – Hver var maðurinn sem féll af slíkum þokka til bana í árásunum á tvíburaturnana?

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 18. september 2022 22:07

Mynd/Richard Drew

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þessi umtalaða, og oft umdeilda, ljósmynd var tekin klukkan 9:41:15 að morgni 11. september 2001 og sýnir hún mann falla til jarðar úr norðurturni tvíburaturnanna eftir hryðjuverkaárásirnar.

Hún var birt í dagblaðinu The Times daginn eftir og aðeins liðu nokkrar mínútur þar til fjölmiðlar um heim allan höfðu birt hana. Myndin var aftur á móti harðlega gagnrýnd og meðal annars kölluð hryllileg, kaldrifjuð og viðbjóðsleg. Gengu sumir svo langt að segja myndina lýsa kvalalosta og siðleysi fréttaljósmyndarans, Richard Drew.

Viðbrögðin við birtingu myndarinnar voru það harkaleg að hún var ekki birt opinberlega í sex ár.

Það voru margar afar truflandi ljósmyndir teknar þennan örlagaríka dag. En af einhverjum ástæðum virðist þessi mynd, í allri sinni kyrrð ólíkt mörgum öðrum teknar þennan dag, hreyfa sérstaklega við fólki.

Uppgjöf eða viljastyrkur og einbeiting?

Hún er þekkt undir nafninu ,,The Falling Man.”

Sumir sjá í myndinni uppgjöf. Aðrir sjá einstakan viljastyrk og einbeitingu.

Maðurinn á myndinni virðist afslappaður, allt að því þokkafullur. Það er sem hann hafi meðtekið örlög sín og sé jafnvel sáttur við að deyja. Hann er þráðbeinn, fyrir utan vinstra hné sem beygist í falli upp á 150 km/klst.

Það ber að hafa hafa í huga að reiknað hefur verið út að fallið hafi tekið 23 sekúndur. Það er býsna langur tími sem maður áttar sig kannski hvað best á með að stilla klukku upp á 23 sekúndur.

Þá fyrst gerir maður sér grein fyrir hversu margar hugsanir fara í gegnum kollinn á ekki lengri tíma.

Margar spurningar

En af hverju truflar myndin fólk jafnvel enn þann dag í dag? Hver er maðurinn á myndinni? Stökk hann af eigin vilja eða féll hann úr turninum? Var hann kannski þegar látinn þegar að myndin var tekin?

Richard Drew var að ljósmynda á tískuviku New York þegar fréttir bárust af eldi í tvíburaturnunum. Eins og aðrir hafði Drew ekki hugmynd um hvað olli en hafði heyrt af einhvers konar sprengingu. Hann yfirgaf því fyrirsæturnar og tók næstu að turnunum.

Hann segist aldrei gleyma þeirri sjón sem beið hans. Svæðið var þakið eldi, reyk og braki. Lyktin var engu lík, um var að ræða fnyk örvæntingar og dauða, og út um allt var að finna skelfingu lostið fólk sem hljóp um stefnulaust í skelfingu sinni.

Óhreinu börnin hennar Evu

En það var fólkið sem féll hvert af öðru úr turnunum sem fangaði athygli Drew sem byrjaði þegar að mynda. Það var þó fyrst þegar að hann sá myndirnar í tölvu sinni síðar um daginn að hann áttaði sig á hversu átakanlegar þær í raun og sann voru.

Fjöldi manns kaus að stökkva í stað þess að brenna inni.

Enginn veit hversu margir létu lífið við fall eða stökk úr turnunum en talið að það séu á milli 100 og 300 manns.

Það kom aftur á móti illa bæði við almenning og stjórnvöld að viðurkenna að sum fórnarlömb árásanna hefðu kosið að stökkva í stað þess að brenna inni í eldhafi turnanna.

Embætti réttarlæknis New York borgar neitaði meðal annars að skrá eitt einasta dauðsfall að völdum stökks. Það er að segja sjálfsvíg.

Hver getur dæmt?

Ástæðurnar er margar en margir telja þær að stórum hluta trúarlegar. Mikill fjöldi kaþólikka býr til að mynda í New York en kaþólska kirkjan fordæmir sjálfsvíg. Sama má segja um fleiri þjóðfélagshópa og þótt fæstir hafa viðurkennt það opinberlega þótti mörgum þeir sem stukku hafa ,,gefist upp.“

Það liðu mörg ár áður en þögnin í kringum fólkið sem stökk var rofin og það almennt viðurkennt sem sömu fórnarlömbin og þau sem ekki létu lífið ,,fyrir eigin hendi.”

Hver gat í raun sett sig í spor þessa fólks?

Hver var hann?

Í rúma tvö áratugi hefur verið lagt kapp á að finna út nafn mannsins.

Svo virðist að hann sé hugsanlega af latneskum uppruna, með hökutopp, stuttklippt hár og fremur grannvaxinn.

Flestir telja fatnað hans benda til að hann hafi starfað á veitingastað þar sem jakki hans minni á fatnað bakara og matreiðslumanna.

Það voru tveir veitingastaðir í turninum, Windows on the World og Cantor Fitzgerald og vann fjöldi manna af latneskum, austurlenskum og indverskum uppruna á báðum stöðum.

Aldrei fundust lík 79 starfsmanna Windows on the World né þeirra 21 sem létust við störf á Cantor Fitzgerald.

Brenna eða stökkva?

Lengi vel var álitð að um væri að ræða Norberto Hernandez, kökugerðarmann á Windows on the World á 106 hæð norðurturnsins. Í fyrstu var Hernandez fjölskyldan viss um að um Norberto væri að ræða en eftir því sem tækninni fleygði fram fylltust þau meiri efa og í dag segja þau að ekki sé um Norberto að ræða.

Talið er að allt að 300 manns hafi kosið að stökkva.

Í dag telja margir að maðurinn hafi verið Jonathan Briley, 43 ára tækni mann sem starfaði á Windows on the World. Systir hans og eiginkona segja að vissulega sé margt við útlit og fatnað mannsins sem bendi til um að um Jonathan hennar sé að ræða. Þær eru þó ekki vissar í sinni sök.

Í dag er ljósmyndin kölluð meistaraverk og álitin ein áhrifamesta fréttamynd allra tíma. Hinn fallandi maður er í dag táknmynd allra þeirra sem kusu að taka örlög sín í eigin hendur þennan dag.

Að brenna eða stökkva.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“