fbpx
Mánudagur 09.september 2024
Fókus

Sakamál – Morðinginn sem vann með Bítlunum

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 6. febrúar 2021 21:00

Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarframleiðandinn Harvey Philip Spector gerði garðinn frægan á 7. áratug síðustu aldar. Hann hafði áður unnið sér til frægðar að vera yngsti eigandi útgáfufélags og hafði skrifað sig inn í sögubækur popp- og rokktónlistar og hafði mikil áhrif á bransann. Hann vann með stórstjörnum á borð við Bítlana, Leonard Cohen, Tinu Turner, Cher og Ramones, svo dæmi séu tekin, og árið 1989 var hann vígður inn í Frægðarhöll rokksins (e. Rock & Roll Hall of Fame) í Bandaríkjunum, og árið 1997 var hann vígður inn í Frægðarhöll lagahöfunda. Merkilegur og dáður maður. Allt þar til árið 2003 þegar svartur blettur féll á mannorð hans til frambúðar.

Held ég hafi drepið

Þann 3. febrúar 2003, um morguninn, gekk Philip Spector út um bakdyrnar á heimili sínu í Los Angeles. Í annarri hendinni hélt hann á byssu og sagði upphátt: „Ég held að ég hafi drepið einhvern.“ Þetta heyrði einkabílstjóri hans, en hann hafði einnig heyrt skoti hleypt af rétt áður en Spector kom út.

Snemma þennan sama morgun hafði Spector hitt lítt þekktu leikkonuna Lönu Clarkson. Bauð hann henni heim með sér. Þau höfðu aðeins verið inni á heimili hans í um klukkustund þegar skotið reið af. Bílstjórinn hringdi strax í neyðarlínuna og lýsti því sem hann hafði heyrt og séð.

Þegar lögregla kom á svæðið fundu þeir Lönu látna. Hún sat líflaus í stól og mátti vel merkja að skotvopnið hefði verið í munni hennar þegar tekið var í gikkinn. Brotnar tennur úr henni fundust á víð og dreif í kringum hana. Ekki leit út fyrir að rannsókn málsins yrði flókin, enda bentu vitnisburður bílstjórans og aðkoman á vettvangi til þess að meiri líkur en minni væru á því að Spector væri morðinginn

Kyssti byssuna

Vegna þess hversu frægur Spector var fóru fjölmiðlar þar ytra á hliðina. Þyrlur, sendibílar frá fréttastofum, stjörnulögfræðingar, sem og forvitinn almenningur fylktust á svæðið. Gat það verið að svo frægur maður hefði tekið 180 gráðu snúning á ferlinum og gerst óforskammaður morðingi? En syndsamlegt slúður, en spennandi.

Spector sjálfur virtist lítið hafa á móti innspýtingunni í frægðina og gekkst upp í hlutverki hins ranglega sakaða manns, en hann hélt því fram að Lana hefði óvart látið lífið eftir að hún „kyssti byssuna“, eins og Spector orðaði það sjálfur í viðtali.

Það fylgja forréttindi því að vera ríkur og þekktur. Í staðinn fyrir gæsluvarðhald gekk Spector frjáls gegn 120 milljóna króna tryggingu.

Engin merki um þunglyndi

Réttarhöldin byrjuðu í mars 2007. Vörn hans byggði á því að Lana Clarkson hefði framið sjálfsvíg. Saksóknari benti þó á að ekkert í lífi Lönu benti til þess að hún væri í sjálfsvígshugleiðingum.

Krufning benti til þess að byssan hefði verið neydd upp í hana. Réttarmeinafræðingur benti einnig á að þegar Lana fannst hefði hún enn verið með veski sitt á öxlinni, en það væri frekar óvenjulegt ef um sjálfsvíg hefði verið að ræða, eins væri óvenjulegt að fremja sjálfsvíg heima hjá ókunnugum. Lana hafði einnig keypt sér mörg skópör nokkrum dögum fyrr, sem þótti gefa til kynna að hún hefði ekki verið að hugsa um að stytta sér aldur.

Ef þú reynir að fara

Eitt mikilvægasta sönnunargagn ákæruvaldsins var vitnisburður annarra kvenna sem greindu frá því að Spector ætti sögu um að veifa skotvopnum framan í fólk. Hann færi hratt frá því að vera verulega sjarmerandi yfir í að vera ógnvekjandi, oft undir áhrifum áfengis og lyfja. Það hefði bara verið tímaspursmál hvenær bani hlytist af þessu hátterni.

„Hann gekk upp að mér, beindi byssunni að höfði mér og sagði: „Ef þú reynir að fara þá drep ég þig,“ sagði ein kona fyrir dómi. Önnur greindi frá sambærilegu atviki og sagði: „Ég var hrædd. Ég efaðist ekki um að ef ég reyndi að fara þá myndi hann drepa mig.“

Myndir af vettvangi bentu einnig til þess að um morð hefði verið að ræða. Lana sat lífvana í stól, neðri hluti andlitsins horfinn eftir skotið og byssan undir vinstri fótlegg hennar.

Lagaprófessor við háskólann í Suður-Kaliforníu sagði að ef ekki væri fyrir þá staðreynd að Spector væri ríkur og frægur hefðu réttarhöldin aldrei tekið svona langan tíma þar sem yfirþyrmandi sönnunargögn lægju fyrir sem bentu til sektar.

Réttlætið sigraði

Svo fór að málið var tekið fyrir tvisvar. Í fyrra skiptið tókst kviðdómi ekki að komast að einróma niðurstöðu og því þurfti að taka málið fyrir aftur. Í seinna skiptið var niðurstaðan einróma – Spector var sekur um morð og var dæmdur í fangelsi, 19 ár til lífstíðar.

Ekki voru margir sem trúðu á sakleysi Spectors. Jafnvel sonur hans, Louis, sagði í kjölfar sakfellingarinnar: „Ég hef blendnar tilfinningar gagnvart þessu. Ég er að missa föður minn, sem mun verja lífinu í fangelsi, en á sama tíma hefur réttlætið sigrað.“

Með líkkistu í kjallaranum

Fyrrverandi eiginkona hans, Veronica Spector, sem var söngkona hljómsveitarinnar The Ronettes, dró upp ógnvekjandi mynd af Spector í endurminningum sínum.

Hún lýsti honum sem ofbeldismanni sem átti það til að hegða sér undarlega. Hún sagði hann hafa átt líkkistu sem hann geymdi í kjallaranum sem átti að minna hana á þá hótun að hann myndi myrða hana ef hún yfirgæfi hann. Hún fór frá Spector árið 1972, hún hljóp út af heimilinu berfætt með aðstoð móður sinnar.

Spector gæti þó haft gagn af líkkistunni, en hann lést þann 21. janúar síðastliðinn af völdum COVID-19.

Veronica deildi í kjölfarið hjartnæmum minningarorðum þar sem hún sagði andlát Spector sorgartíðindi bæði fyrir tónlistarheiminn sem og hana persónulega.

„Því miður gat Phil ekki lifað lífinu eðlilega fyrir utan upptökuverið. Myrkrið tók sér stað í sál hans og mörg líf eyðilögðust vegna þess. Ég brosi þó enn þegar ég heyri tónlistina sem við gerðum saman, og mun ávallt gera það. Tónlistin er eilíf.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fær borgað fyrir að borða – Opnar sig um skuggahliðarnar

Fær borgað fyrir að borða – Opnar sig um skuggahliðarnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórleikari hótaði að berja mann og annan um síðustu helgi

Stórleikari hótaði að berja mann og annan um síðustu helgi