Um 60 prósent fólks pissar í sturtunni samkvæmt niðurstöðum könnunar á vegum Abcotechbrand, og heldur örugglega að það sé alveg saklaust. En þetta getur valdið skaða til langtíma, sérstaklega hjá konum.
Ástralski læknirinn Dr. Zac varar við þessu athæfi, sérstaklega ef þetta er orðið að vana hjá þér í sturtunni. News.com.au greinir frá.
Hann segir að það sé algengur misskilningur að þvag sé dauðhreinsað, því jafnvel heilbrigt fólk er með bakteríur í þvaginu sínu. Þess vegna, ef þú pissar í sturtunni, geturðu verið að dreifa bakteríum yfir húðina, fætur og önnur svæði, sem er slæmt, sérstaklega ef þú ert með sár. Það getur aukið líkurnar á sýkingu. Áhættan er meiri ef þú ert með þvagfærasýkingu, og þetta ættu konur sérstaklega að hafa í huga þar sem þær eru fjórum sinnum líklegri en karlar til að fá þvagfærasýkingu.
Dr. Zac segir að þetta hefur einnig neikvæð áhrif á grindarbotninn hjá konum. „Kvenlíkaminn er hannaður til að pissa í sitjandi eða hnébeygju stöðu, þannig þegar kona pissar standandi er erfitt fyrir grindabotnsvöðvann að slaka á og tæma þvagblöðruna alveg.“
Með tímanum getur það skapað álag á þvagblöðruna og valdið vandamálum.
„Þú getur skilyrt blöðruna með þessu, þannig að þegar þú heyrir vatn renna þá þarftu að pissa,“ segir Dr. Zac
„Sem getur með tímanum leitt til ofvirkrar blöðru eða þvagleka.“
Það er því best að – konur sérstaklega – takmarki þetta athæfi, eða jafnvel sleppi alveg.