fbpx
Mánudagur 22.apríl 2024
Fókus

Mannréttindalögfræðingurinn Claudia Ashanie Wilson: Upp á líf eða dauða – Hættuleg einangrunarstefna

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 18. október 2020 08:00

Claudia Ashanie Wilson segir mikilvægt að konur af erlendum uppruna hafi sterkar fyrirmyndir. Mynd/Stefán Karlsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Claudia Ashanie Wilson hefur ástríðu fyrir málefnum hælisleitenda og flóttafólks. Hún er fyrsti innflytjandinn frá landi utan Evrópu til að öðlast lögmannsréttindi á Íslandi og varð í sumar meðeigandi að lögmannsstofunni Rétti.

Hér birtist í heild sinni forsíðuviðtal við Claudiu úr helgarblaði DV sem kom út 9. október.

„Claudia Ashanie Wilson var fjórtán ára þegar hún ákvað að verða lögfræðingur. „Ég var alltaf að horfa á lögfræðidramað The Practice og fannst þetta vera mjög spennandi starf. Sérstaklega var ég hrifin af lögfræðingnum Ellenor og vildi vera eins og hún. Ég man að kennarinn minn sagði að ég yrði örugglega fínn lögfræðingur því ég talaði svo mikið,“ segir Claudia og hlær.

Hún er fædd og uppalin í Montego Bay, annarri stærstu borg Jamaíka, en ævintýraþráin leiddi hana til Íslands þegar hún var aðeins 18 ára gömul. „Ég stefndi alltaf á að verða viðskiptalögfræðingur, keypti mér kennslubók í viðskiptalögfræði aðeins 14 ára gömul en skildi ekkert í henni. Ég lét það ekki stoppa mig og kom með bókina með mér þegar ég flutti til Íslands.“

Það er heldur ólíkt að alast upp á Jamaíka eða á Íslandi. Hún bjó í stóru húsi með foreldrum, ömmu, afa, frændum, frænkum og fjórum systkinum. Pabbi Claudiu er prestur en mamma hennar sjálfstætt starfandi, rak um tíma leigubílaþjónustu og verslun.

Claudia Ashanie Wilson. Mynd/Stefán Karlsson

Örlagarík bréfaskipti

„Við krakkarnir vorum mikið að klifra í trjánum, tína ávexti og synda í ánni. Stundum veiddum við fisk og elduðum hann jafnvel bara við ána. Yfirleitt var ég úti allan daginn. En það eru breyttir tímar og ég er viss um að krakkar á Jamaíka eru jafn mikið í símanum og tölvuleikjum eins og krakkar hér.“

Claudia var alltaf góður námsmaður og frá sjö ára aldri hafði hún það sérstaka hlutverk að lesa fyrir afa sinn sem var ólæs og hafði aldrei gengið í skóla. „Ég las fyrir hann öll bréf sem hann fékk og skrifaði líka fyrir hann. Alltaf þegar hann hóaði í mig og kallaði Teacher! þá vissi ég að ég ætti að koma að lesa eða skrifa fyrir hann. Ég var sannfærð um að ég yrði kennari, alveg þar til ég byrjaði að horfa á The Practice.“

Líklega hefur fjórtán ára Claudiu ekki órað fyrir framhaldinu. Hún kom til Íslands árið 2001 og átti þetta bara að vera heimsókn. Hún hafði þá staðið í bréfaskriftum við ungan íslenskan mann sem bauð henni að heimsækja sig en á þessum tíma hafði hún aldrei einu sinni komið til Evrópu. Til að gera langa sögu stutta varð þessi maður síðar eiginmaður Claudiu og þau eignuðust saman tvíburana Owen Rúnar og Aaron Frey sem verða 15 ára í desember.

Claudia segist alltaf hafa verið með mikla réttlætiskennd, en áhugi hennar fyrir mannréttindalögfræði og jafnréttismálum jókst eftir skilnað.

Claudia Ashanie Wilson. Mynd/Stefán Karlsson

Varð meðeigandi í sumar

Claudia útskrifaðist frá lagadeild Háskólans í Reykjavík árið 2014 og hlaut lögmannsréttindi árið 2016. Lokaritgerð hennar fjallaði um Dyflinnarreglugerðina og rétt hælisleitenda til að andmæla endursendingu til öruggs þriðja ríkis.

Hún er fyrsti innflytjandinn frá landi utan Evrópu til að öðlast lögmannsréttindi á Íslandi. Claudia hefur starfað hjá lögmannsstofunni Rétti – Aðalsteinsson & Partners, frá árinu 2013 og í sumar var tilkynnt um að hún væri orðin meðeigandi. Helstu starfssvið Claudiu eru mannréttindi, útlendinga- og flóttamannaréttur, gjaldþrotaskipti og refsiréttur. Þá hefur hún sérhæft sig í öflun atvinnuleyfa fyrir erlenda sérfræðinga til að starfa hjá íslenskum fyrirtækjum sem og erlendum fyrirtækjum með starfstöðvar hérlendis.

Samhliða lögmannsstörfum sínum er Claudia stundakennari við Háskóla Íslands, Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og situr í fagráði SOS barnaþorpa á Íslandi. Þá hefur hún nýlega tekið sæti í fagráði Jafnréttissjóðs Íslands og stjórn í Íslandsdeildar Amnesty International.

Sterkar fyrirmyndir

Um tíma sat Claudia í stjórn Samtaka kvenna af erlendum uppruna og segir þá reynslu hafa skipt hana miklu. „Skilnaðurinn hafði mikil áhrif á mig. Það var erfitt að ganga í gegnum skilnað svona langt frá fjölskyldu minni og mér fannst ég vera svolítið ein. Ég átti þó góða að og fór að hugsa um hvernig þetta væri fyrir aðrar konur af erlendum uppruna þegar þetta var erfitt fyrir mig sem þó þekkti aðeins inn á réttarkerfið á þeim tíma, þekkti samfélagið og talaði góða íslensku. Ég ákvað að taka þátt í starfi Samtaka kvenna af erlendum uppruna til að hjálpa öðrum konum en á endanum voru það allar hinar konurnar sem hjálpuðu mér,“ segir Claudia auðmjúk.

Áður hafði hún aðallega séð í fjölmiðlum fjallað um konur af erlendum uppruna sem hluta af einhvers konar samfélagslegu vandamáli og þær í hlutverki fórnarlamba. Þarna kynntist Claudia hins vegar metnaðarfullum og sjálfstæðum konum sem höfðu komið sér vel fyrir í íslensku samfélagi.

„Þetta opnaði augu mín fyrir því að þó að ég sé af erlendum uppruna þá á það ekki að koma í veg fyrir að ég geti verið virkur samfélagsþegn. Þarna voru sannkallaðar kjarnakonur, í góðum störfum með góða menntun. Þær sýndu mér að allt er hægt. Sannarlega eru kerfisbundnar takmarkanir þegar kemur að möguleikum kvenna af erlendum uppruna en saman getum við minnkað skaðleg áhrif þeirra og breytt viðhorfinu.“

Hún segir mikilvægt að hafa sterkar fyrirmyndir og er þakklát fyrir að geta nú sjálf talist vera sterk fyrirmynd fyrir konur af erlendum uppruna á Íslandi.

„Í fyrra var ég í viðtali á RUV English og deildi eftir það leigubíl með konu sem var með mér í viðtalinu. Hún sagði þá að hana hefði lengið langað að hitta mig og þakka mér fyrir. Hún hafði þá lesið viðtal við mig í Morgunblaðinu sem var tekið eftir að ég útskrifaðist úr lögfræðinni 2014 og þá fannst henni hún líka geta gert það sem hún vildi. Hún hafði menntað sig sem arkitekt í heimalandinu og dreif í að fá námið viðurkennt hér, þrátt fyrir margs konar hindranir. Konan lét það ekki stöðva sig að hún fengi ekki vinnu eftir að hafa fengið viðurkenningu á menntun og stofnaði hún bara sitt eigið fyrirtæki. Það gladdi mig mikið að hafa veitt henni innblástur og það gengur allt mjög vel hjá henni að mér vitandi.“

Heiður að læra af Ragnari

Þegar Claudia hóf að leita að lögmannsstofu til að vinna á í starfsnáminu varð fljótt ljóst hvaða stofa yrði fyrir valinu. „Ég las mér til um hvaða stofur væru mannréttindasinnaðar og alltaf kom upp nafn Ragnars Aðalsteinssonar og Réttur. Ég ákvað því að sækja um þar. Það er ekki hægt að fá betri kennslu en frá Ragnari Aðalsteinssyni. Hann er gangandi alfræðiorðabók og honum eru mannréttindi í blóð borin. Það er heiður að vera lærlingur hans.“

Hún sagði Ragnari strax frá áhuga sínum á málefnum útlendinga og flóttamanna og það var þá auðfengið að vinna að verkefnum þeim tengdum. „Ásamt þessu vann ég með öðrum samstarfsfélögum mínum og var þeim til aðstoðar. Ég hef því breiðan þekkingargrundvöll. Þó að mín helstu áhugasvið séu mannréttindamálin fæst ég líka við önnur verkefni.“

Claudia segir erfitt að velja einstaka mál sem hún sé stoltust af. „Málefni flóttamanna varða líf og dauða umsækjenda um alþjóðlega vernd. Það getur verið erfitt að vinna í lagaumhverfi þar sem stundum virðist skorta á mannúðina. Fyrir mér eru þetta ekki bara verkefni heldur er það mitt hlutverk að reyna að bjarga lífi fólks. Að senda einstaklinga héðan og út í óvissuna getur haft óafturkræfar afleiðingar og það tekur á þegar það gerist.“

Claudia Ashanie Wilson. Mynd/Stefán Karlsson

Afturför en ekki framför

Hún segir Ísland eiga langt í land þegar kemur að móttöku og málsmeðferð flóttamanna og hælisleitenda þó ýmsar réttarbætur hafi átt sér stað í málaflokknum. „Frá mínu sjónarhorni hefur hér frekar orðið afturför en framför síðastliðna mánuði. Við erum að sjá harðari stefnu í útlendinga- og flóttamannamálum sem endurspeglast í þeirri málsmeðferð sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fá hjá íslenskum stjórnvöldum. Lagasetning hefur miðast við að herða stefnuna.“

Árið 2015 gerði innanríkisráðuneytið, nú dómsmálaráðuneytið, samning við Rauða krossinn um að hann myndi taka að sér réttargæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. „Með þessari breytingu gátu þessir einstaklingar ekki valið sér lögmann heldur þurfa þeir að fá lögmanni úthlutað af Rauða krossinum. Ég er síður en svo að gagnrýna þá lögfræðinga sem þar starfa, þeir eru að gera góða hluti undir mjög ströngum skilyrðum, sérstaklega þegar horft er til eðlis samtakanna.

Með þessari breytingu verður hins vegar samþjöppun á þekkingu og málaflokkurinn er afmarkaður á ákveðnum stað. Umræða um málin verður einnig minni í samfélaginu og almenningur verr upplýstur um þá málsmeðferð sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fá. Það er síðan bara eitt og eitt mál sem fjallað er um í fjölmiðlum, þegar samtök á borð við No Borders, Solaris og fleiri hafa látið til sín taka.“

Hún bendir á að það sé engin gróðastarfsemi að veita flóttamönnum og hælisleitendum þjónustu. „Við hjá Rétti höfum verið að taka þessi mál annaðhvort alveg pro bono eða að hluta til,“ segir hún og á þar við að þau taki gjarnan að sér slík mál án þess að þiggja greiðslu fyrir. „Þetta er hluti af stefnu okkar um samfélagslega ábyrgð auk þess sem Réttur vinnur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem stefnan er tekin á aukinn jöfnuð, frið og réttlæti.“

Ráðherra getur firrt sig ábyrgð

Annað sem Claudia gagnrýnir er kærunefnd útlendingamála sem var sett á laggirnar 2015 sem sjálfstæð stjórnsýslunefnd. Með tilkomu nefndarinnar var kæruleið ákvarðana vegna útlendingamála færð frá ráðherra dómsmála og hefur nefndin sömu valdheimildir og ráðherra sem úrskurðaraðili.

Þó að ráðuneytið hafi eftirlit með starfi nefndarinnar er hún alveg sjálfstæð. Ráðuneytið getur ekki gripið inn í. Hér er því verið að minnka pólitíska ábyrgð sitjandi ráðherra sem nú getur alltaf firrt sig ábyrgð með því að segja: Nefndin úrskurðaði þetta, ekki ég.“

Claudia segir að þessi breyting hafi leitt til þess að færri mál komist til dómstóla, en síðan nefndin tók til starfa hefur hún synjað rúmlega 86 prósentum beiðna um frestun á réttaráhrifum, það er heimild umsækjenda til að vera á landi á meðan mál þeirra er rekið fyrir íslenskum dómstólum. Að sögn Claudiu getur verið erfitt að reka dómsmál þegar lögmaðurinn hefur misst öll tengsl við umbjóðanda sinn eftir flutning hans úr landi. Vegna þessa skorti það mikilvæga aðhald sem dómstólnum er ætlað að veita Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála vegna vafasamrar lagatúlkunar og hugsanlega ólögmætrar málsmeðferðar.

Mikil fjölmiðlaumfjöllun var um egypsku Kehdr-fjölskylduna sem vísa átti úr landi í september en þegar lögreglan hugðist sækja fjölskylduna var hún farin í felur og því ekki hægt að vísa henni burt.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra viðraði nýlega hugmyndir um að vista fólk á afmörkuðu svæði eftir að ákveðið hefur verið að vísa því úr landi. Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi sagði Áslaug: „Víða í löndunum í kringum okkur er þessu háttað þannig að aðilar eru á ákveðnu svæði eftir að þeir fá til dæmis neitun frá báðum stjórnsýslustigum til að það sé hægt að framkvæma þetta með auðveldari hætti og það gerist þá ekki að aðilar séu týndir inni í samfélaginu,“ sagði Áslaug og bætti við að lagabreytingu þyrfti til að taka fyrirkomulagið upp.

Claudia segir þessar hugmyndir stórhættulegar. „Þetta er í anda þeirrar einangrunarstefnu sem ríkið hefur verið að beita í auknum mæli. Innanríkisráðuneytið setti á sínum tíma bann við heimsóknum til hælisleitenda sem dvöldust á Fit Hostel. Fólk myndar ekki tengsl við land og þjóð þegar það er einangrað. Bara það í sjálfu sér hefur afleiðingar.

Flóttamannastofnun hefur gefið út leiðbeiningar um áhrif einangrunar á fólk. Þetta hefur afar slæm áhrif á andlega heilsu og margir flóttamenn glíma fyrir við mikla vanlíðan. „Þetta minnir mig á ummæli þáverandi ráðherra í útlendingamálum í Danmörku, Inger Støjberg, vegna flóttamannabúða í Sjælsmark, en þar sagði hún að markmiðið væri að gera aðstæður þeirra eins óbærilegar og mögulegt er.

Með því að einangra fólk á ákveðnu svæði þarf það líka að vera á framfæri ríkisins. Mín reynsla er að fæstir fara í felur eða týnast í kerfinu. Stundum eru þessir einstaklingar með bráðabirgða dvalar- og atvinnuleyfi sem er bara gilt á meðan þeir bíða eftir brottflutningi með aðstoð lögreglu. Það fólk sér því fyrir sér sjálft auk þess að greiða opinber gjöld í sameiginlega sjóði. Það nýtur þó ekki góðs af því, hefur engin réttindi og fær ekki greitt úr sjúkratryggingarsjóði þó að það greiði í hann af laununum sínum árum saman. Ég þekki dæmi um fólk sem hefur verið hér í millibilsástandi til margra ára. Hér skortir alla mannúð.“

Claudia Ashanie Wilson. Mynd/Stefán Karlsson

Fordómar enn til staðar

Claudia segir að hún sjálf og synir hennar hafi vissulega orðið fyrir fordómum í íslensku samfélagi. Í því samhengi nefnir hún dæmi þar sem synir hennar voru í matvöruverslun og voru beðnir um að sýna kvittun fyrir því sem þeir keyptu en vinir þeirra sem voru með þeim, allir hvítir og stóðu þar og horfðu á, voru ekki beðnir um slíkt hið sama þrátt fyrir að hafa einnig verslað í búðinni.

Claudia segir að staða hennar og færni í íslensku geri það ekki að verkum að hún sé orðin laus undan fordómum. Hún upplifir fordóma líkt og hver annar einstaklingur af erlendum uppruna hérlendis. Á hinn bóginn geri staða hennar henni kleift að gera eitthvað í málum sem einkennast af fordómum, til dæmis skapa umræðu, gera rannsóknir og fræða.

Hún segir jafnframt að þó að fordóma sé að finna í íslensku samfélagi hafi baráttuandi almennings margsannað sig þegar kemur að málefnum útlendinga og umsækjenda um alþjóðlega vernd. „Ég tel að íslensk stjórnvöld þurfi að gera betur til að útrýma fordómum og sérstaklega kerfisbundnum fordómum sem finna má víða þegar litið er til lagasetningar og stefnu á ýmsum sviðum,“ segir hún

Unnið sér inn traust

Claudia segist heppin að hafa ástríðu fyrir vinnunni. „Það er ekkert sem gleður mig meira en að hjálpa fólki. Móðurhlutverkið er mér mikilvægt en ég brosi alla daga á leið í vinnuna. Ég hlakka alltaf til þess að takast á við daginn þegar ég veit að ég kem til með að skipta sköpum fyrir líf eða dauða einhvers. Mér finnst gott að geta stuðlað að vellíðan annarra. Það kemur mér á fætur alla morgna.“

Hún segir það vissulega mikla viðurkenningu að vera meðeigandi að Rétti en það breyti þó ekki miklu um hennar daglegu störf. „Fyrst og fremst upplifi ég þetta þannig að ég hafi unnið mér inn traust samstarfsfólks míns. Þetta sýnir líka að þegar maður sinnir vinnunni af ástríðu getur það haft áhrif til góðs. Ég mæti annars bara til vinnu og geri það sem þarf að gera.“

Áhugamál utan vinnunnar hafa ekki verið fyrirferðarmikil en hún segist alltaf vera á leiðinni að hreyfa sig meira. Þá finnst henni gaman að fara út að borða góðan mat og fara í vínsmökkun. Miðað við þróun COVID-19 hér á landi verður þó einhver bið á að hún komist á líkamsræktarstöð eða á vínsmökkunarnámskeið. Hún segist ævintýragjörn, er sannfærð um að ævintýrin eigi eftir að verða fjölmörg í framtíðinni og segir því til staðfestingar: „Ég kom nú til Íslands.“

Athugið að Claudia Ashanie Wilson lét nýverið leiðrétta stafsetningu á nafni sínu hjá Þjóðskrá og er það rétt stafsett hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla
Fókus
Fyrir 4 dögum

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki

Styttist í barnamenningarhátíð í Reykjavík – Vegleg dagskrá og börnin í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 4 dögum

Eva Ruza fer í skóför Felix

Eva Ruza fer í skóför Felix
Fókus
Fyrir 5 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu