fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Íslensk stjórnvöld notuðu „svartan lista“ Kínverja til að handtaka fólk: „Þegar ég neitaði að láta þá fá farsímann minn hótuðu þeir að beita valdi”

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 27. október 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimsókn þáverandi forseta Kína, Jian Zemin, til Íslands sumarið 2002 dró heldur betur óvæntan dilk á eftir sér. Meðlimir hópsins Falun Gong boðuðu komu sína til landsins til að mótmæla Jian Zemin og þeim mannréttindabrotum sem viðgengust í Kína. Nokkra sumardaga fyrir tæpum tveimur áratugum var um fátt annað rætt en hreyfinguna Falun Gong, enda atburðarásin hreint út sagt mögnuð.

„Svarti listinn“

Þann 10. júní fullyrti Fréttablaðið að íslensk stjórnvöld hefðu fengið „svartan lista“ í hendurnar, lista yfir nöfn þeirra sem iðkuðu Falun Gong. Átti að leggja blátt bann við að iðkendurnir kæmust inn í landið vegna heimsóknar Jian Zemin. Íslensk stjórnvöld hvorki játuðu né neituðu að listinn kæmi frá Kína, en viðurkenndu tilvist listans. Í frétt Fréttablaðsins var því haldið fram að það væri krafa kínverskra stjórnvalda að Falun Gong-liðar mættu ekki koma inn í landið á meðan Jian Zemin væri hér staddur og að hann mætti ekki einu sinni berja iðkendurna augum. Þetta samþykktu íslensk stjórnvöld.

Hvaðan kom listinn? Það fór illa ofan í landsmenn að Kínverjar hefðu svo mikil ítök á Íslandi.

„Fyrst og fremst eru þessar aðgerðir gerðar í því skyni að tryggja allsherjarreglu og gera íslenskum lögreglumönnum kleift að tryggja öryggi þjóðhöfðingja sem sækir landið heim í boði forseta íslands,“ sagði Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, og bætti við að einnig væri leitast við að vernda mótmælendurna sjálfa og almenning með þessum aðgerðum. Hin umdeilda Falun Gong-hreyfing leit fyrst dagsins ljós árið 1992. Var um að ræða endurnýjun á fornri, kínverskri orkuleikfimi og héldu forsprakkar hreyfingarinnar fram að með því að gera fimm æfingar gæti fólk bætt heilsu sína svo mikið að lyf og hefðbundnar lækningar væru óþarfi. Gekk þetta vel í nokkur ár og fjölgaði meðlimum Falun Gong hratt og örugglega. Í ársbyrjun 1999 voru um fimmtíu milljónir manna farnar að kenna sig við Falun Gong, ekki bara í Kína heldur víðs vegar um heiminn. Í apríl sama ár hófust ofsóknir á hendur Falun Gong-liðum, og var það meðal þess sem iðkendurnir vildu mótmæla á Íslandi.

„Við vitum ekki af hverju þessar ofsóknir hófust. Líklegast hefur stjórnvöldum ekki litist á það hversu margir voru farnir að stunda Falun Gong og þess vegna litið á þetta sem ógnun við yfirvaldið. Það er í sjálfu sér fáránlegt því Falun Gong er ekki pólitískt fyrirbæri – það eina sem við gerum er að stunda æfingar og tala fyrir bættri siðvitund og friði. En síðan bann var lagt við Falun Gong hafa yfir 50.000 manns verið handteknir, meira en 10.000 hafa verið sendir í þrælkunarbúðir án dóms og laga, 200 hafa verið dæmdir í fangelsi og 1.000 manns hafa verið vistaðir á geðsjúkrahúsum. Það versta er að yfir 200 manns hafa svo verið drepnir fyrir það eitt að leggja stund á æfingarnar,“ sagði Kevin Yang, Falung Gong-iðkandi í samtali við DV þann 10. júní 2002. Sagði hann tilgang Falun Gong á Íslandi vera fyrst og fremst friðsamlegan.

„Við erum stödd hér á landi til þess með friðsemd að biðja forseta Kína að hætta ofsóknunum og til að segja Íslendingum hvað Falun Gong er í raun og veru. Við erum friðsamlegt fólk sem leggjum stund á öndunaræfingar og hugarleikfimi en erum ekki ofbeldisfullir mótmælendur. Við erum samfélaginu skaðlaus og vonumst til að Íslendingar styðji okkur í baráttunni til að ná fram mannréttindum í Kína, svo sem trú- og málfrelsi.“

Allir vinir Falun Gong-liðar héldu því statt og stöðugt fram að heimsóknin yrði friðsamleg.

Spilað inn á veikleika lögreglu

Svo fór að um sjötíu iðkendum Falun Gong var synjað um innkomu í landið í kjölfar frétta um „svartan lista“ stjórnvalda. 26 þeirra komu með flugvélum frá Bandaríkjunum og voru fluttir í Njarðvíkurskóla þar sem þeir voru í haldi lögreglu. Á fimmta tug félaga í Falun Gong, sem komu frá Kaupmannahöfn um hádegi, og nokkrum með síðdegisvélum frá Evrópu, var einnig synjað um landvist. Flestir voru af asískum uppruna þótt fólk af ýmsum þjóðernum væri í hópnum. Sólveig Pétursdóttir sagði í samtali við Morgunblaðið að hún efaðist um að áætlanir hópsins væru jafn friðsamlegar og gefið hefði verið út.

„Með þessari aðferð er hreyfingin að spila inn á veikleika íslensku lögreglunnar sem er fámenn, en um leið að spilla opinberri heimsókn erlends þjóðhöfðingja til landsins. Það er ljóst að íslenska lögreglan, eins góð og vel þjálfuð og hún er, getur ekki tekist á við fjöldamótmæli og um leið tryggt öryggi forsetans og fylgdarliðs hans. Þess vegna var nauðsynlegt fyrir íslensk yfirvöld að bregðast við þeim straumi mótmælenda til landsins sem var fyrirsjáanlegur,“ sagði hún og benti á hve vel íslensk stjórnvöld hefðu unnið að því að efla samskipti við kínversk stjórnvöld.

„Hluti af því að byggja upp og treysta samskipti ríkja er opinberar heimsóknir. Íslenskir ráðamenn, forseti og ráðamenn hafa á undanförnum árum haldið í opinberar heimsóknir til Kína. Það er eðlilegt að endurgjalda slíkar heimsóknir og sýna kínversku þjóðinni að við tökum af sömu gestrisni á móti þeirra fulltrúum. Ef lögreglunni tekst ekki að tryggja öryggi erlendra þjóðhöfðingja hér á landi í tengslum við opinberar heimsóknir þá er ljóst að það verður ekkert af slíkum heimsóknum. Þannig að við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort eðlilegt sé að friðsöm hreyfing geti með skipulögðum aðgerðum og flutningi á fjölda mótmælenda hingað til lands haft þannig áhrif á ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um hverjir koma hingað í heimsókn.“

Þetta eru æfingarnar Í helgarblaði DV var farið yfir Falun Gong-æfingarnar.

Hótuðu að beita valdi

Meðal þeirra Falun Gong-liða sem haldið var í Flugstöð Leifs Eiríkssonar var þýski námsmaðurinn Peter Rechnagel. Hann sagði í viðtali við DV að hann hefði verið í yfirheyrslum í sex klukkustundir. Bætti hann við að lögreglan hefði þjarmað að honum og ekki gefið honum skýringu á handtökunni.

„Ég kom úr flugvélinni um klukkan 3 eftir hádegi og þegar ég kom að vegabréfsárituninni var ég fluttur í yfirheyrsluherbergi. Þar var ég spurður um mína trú, líf mitt og ýmissa annarra persónulegra spurninga. Þetta tók um klukkutíma og eftir að hafa svarað þessum óþægilegu spurningum sögðu þeir mér að fara,“ sagði Peter og bætti við að hann hefði beðið lögregluna um að tala við þýska sendiráðið. Lögreglumenn lofuðu honum að gera það en að Peter ætti að bíða eftir lögfræðingi.

„Ég beið í tvær mínútur eftir þessum lögfræðingi eða þar til lögreglumennirnir komu aftur og tjáðu mér að ég væri handtekinn. Þá tóku þeir nánast allt af mér; veskið, bakpokann, og þegar ég neitaði að láta þá fá farsímann minn hótuðu þeir að beita valdi svo að ég lét hann af hendi,“ sagði Peter. „Enn seinna komu þeir aftur og tjáðu mér að ég væri ekki handtekinn en ætti samt sem áður að fara með næstu vél aftur til Frankfurt.“

Peter var í stopulu sambandi við Ragnar Aðalsteinsson lögfræðing meðan á þessu stóð. Ragnar beitti sér einmitt mikið fyrir Falun Gong-liða og taldi það skýrt lögbrot að halda fólkinu föngnu. Þögul mótmæli voru haldin fyrir utan Njarðvíkurskóla, þar sem 26 iðkendur voru í haldi, til að sýna Falun Gong-liðum stuðning. Í frétt Morgunblaðsins um mótmælin stendur til að mynda þetta:

„Mótmælendur lýstu furðu sinni og vanþóknun á innilokun fólksins við Óskar Þórmundsson varðstjóra. Varðstjóri sagði að fólkinu liði vel og hafnaði fullyrðingum um að það væri í fangelsi; tæknilega séð væri það ekki komið inn í landið og væri því „í takmarki“ þar til fyrirmæli bærust frá íslenskum stjórnvöldum um annað.“

Klassísk leiðtogaheimsókn Ólafur sýndi forseta Kína meðal annars Þingvelli.

Lofuðu að hlýða lögreglu

Svo gerðist það síðla kvölds 11. júní að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, og Sólveig Pétursdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, ákváðu að heimila öllum Falun Gong-meðlimum sem voru í haldi á Íslandi landgöngu.

„Í ljósi viðræðna hefur verið samþykkt að lögregluyfirvöld taki við yfirlýsingu framangreindra talsmanna Falun Gong-félaga þar sem þeir heita því að fara í hvívetna að fyrirmælum lögreglu meðan á heimsókn forseta Kína hingað til lands stendur, virða öryggissvæði og koma saman á sérstökum svæðum samþykktum af lögreglu. Jafnframt hefur verið ákveðið að veita landgöngu öllum þeim Falun Gong-meðlimum sem dvalið hafa í dag í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Njarðvíkurskóla að því tilskildu að þeir undirriti samsvarandi yfirlýsingu og að framan greinir. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að takmarka sem kostur er komu fleiri meðlima Falun Gong á næstu dögum,“ sagði í tilkynningu frá stjórnvöldum.

Einn af þeim sem gagnrýndu aðgerðir stjórnvalda í þessu máli var Björn Bjarnason, sem þá var oddviti minnihluta Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn. Hann sagði í pistli á heimasíðu sinni „harkalegt að gera iðkendur Falun Gong útlæga frá Íslandi, á meðan kínverski valdsmaðurinn er hér á landi með miklu fylgdarliði sínu.“ Ferðamálafrömuðir höfðu einnig áhyggjur af ástandinu, þar á meðal Tómas Þór Tómasson, markaðsstjóri Ferðamálaráðs.

„Óneitanlega hefur þetta verið töluvert rætt og menn spyrja sig um umfang þessara aðgerða. Það er engin launung á því að fólk í ferðaþjónustunni hefur áhyggjur af þessu og þeirri neikvæðu afspurn sem þetta kann að valda,“ sagði hann.

Ekki sanngjörn gagnrýni

Þann 15. júní var síðan efnt til langþráðs mótmælafundar á Austurvelli í tilefni af opinberri heimsókn Jian Zemin, forseta Kína. Um tvö þúsund manns tóku þátt í fundinum sem ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna og námsmannahreyfingarnar stóðu fyrir. Margir Falun Gong-liðar tóku þátt í mótmælunum. Áberandi voru á fundinum gul mótmælaspjöld og borðar með boðskap Falun Gong og margir voru með svarta klúta fyrir munni til marks um að tjáningarfrelsi væru skorður settar í Kína. Fjölmargir fundarmenn lýstu einnig yfir andúð sinni á framgöngu stjórnvalda í málefnum fylgismanna Falun Gong.

Daginn áður hafði Jian Zemin eytt deginum með þáverandi forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Sagði Ólafur í samtali við DV að fundur hefði verið árangursríkur. Meðal þess sem var rætt voru málefni er vörðuðu sjávarútveg, jarðhita og ferðamennsku. Ólafur sagði mikilvægt fyrir íslensku þjóðina að rækta samskiptin við Kína og að ítarlegar umræður um stöðu lýðræðis hefðu farið fram.

Mættur Jian Zimen mætti til landsins, þótt honum hafi verið ógnað af veru Falun Gong-liðum á landinu.

„Ég lýsti því fyrir forsetanum að hið opna lýðræðislega samfélag væri mjög ríkur þáttur, ekki aðeins í stjórnkerfi okkar Íslendinga heldur einnig í viðhorfum okkar og menningu og að það væri okkur kappsmál að leggja áherslu á þessa þætti í viðræðum okkar við aðrar þjóðir,“ sagði Ólafur. Hann gladdist yfir því að Íslendingar hefðu tekið Falun Gong-liðum opnum örmum.

„Mér finnst það í raun ekki sanngjörn gagnrýni á stjórnvöld að við höfum ekki gefið Falun Gong tækifæri til þess að láta rödd sína heyrast. Ég held að margar mótmælendahreyfingar hefðu fagnað því að hafa jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum og fengið jafn víðtækan stuðning meðal þjóðarinnar og Falun Gong hefur fengið á Íslandi.“

Hvernig gátu listar yfir iðkendurna orðið til?

Nokkrum dögum síðar sendu Falun Gong-iðkendur frá sér tilkynningu og þökkuðu íslenskum almenningi fyrir gestrisnina.

„Í hinum óvæntu og ófyrirsjáanlegu erfiðleikum sem mættu okkur hér, voru það þið, fólkið á Íslandi og fjölmiðlar Íslands, sem sýnduð okkur fulla samstöðu og samhygð. Samhygð til þess að standa vörð um alheimssannindin, sannleiksiðkun, kærleika og umburðarlyndi og til varnar grundvallarréttindum og frelsi fólks til skoðana, tjáningar og samfélags. Við erum ykkur innilega þakklát fyrir að sýna kínverska einræðisherranum með sameiginlegu átaki ykkar að mannréttindi og frelsi eru virt í lýðræðissamfélagi. Stuðningur ykkar hefur sýnt heimsbyggðinni að ofsóknirnar á hendur Falun Gong eru ekki einungis mannréttindamál heldur einnig siðferðislegt mál. Þið hafið sýnt öllum heiminum að Íslendingar muni undir öllum kringumstæðum standa vörð um það sem er rétt. Ótrúlega kröftugur stuðningur ykkar hefur hjálpað öllum Falun Gong-iðkendum í Kína að hljóta áheyrn. Góðvild og styrkur allra ykkar sem tókuð ykkur tíma til þess að veita okkur lið og styðja málstað okkar hefur snert okkur djúpt. Þið verðið okkur ævinlega hjartfólgin. Það sem þið gerðuð til þess að styðja Falun Gong er sögulegur minnisvarði um góðvild ykkar. Með dýpstu virðingu þökkum við fólkinu á Íslandi. Sameiginlega getum við haldið á lofti grundvallaratriðunum, sannleiksiðkun, kærleika og umburðarlyndi og gert heiminn betri öllum til handa,“ sagði meðal annars í tilkynningunni.

Þótt Falun Gong-liðar hefðu horfið jafn fljótt á brott og þeir komu skildi heimsókn þeirra eftir sig margar spurningar í íslensku samfélagi. Var það helst þessi „svarti listi“ sem íslensk stjórnvöld kokgleyptu frá þeim kínversku sem var umdeildur. Meðal þeirra sem veltu fyrir sér aðgerðum stjórnvalda í heimsókn Falun Gong var kennarinn og Falun Gong-iðkandinn Þórdís Hauksdóttir, en hún skrifaði meðal annars í skoðanapistli í Morgunblaðinu í júlí:

„Þeirri ákvörðun íslenskra stjórnvalda að takmarka komu Falun Gong-iðkenda til Íslands var framfylgt með vafasamri aðferð. Hvernig gátu listar yfir iðkendurna orðið til? Eins og fyrr var sagt er Falun Gong hvorki félag né skipulögð samtök af neinu tagi, og skrá iðkendur því hvergi nöfn sín, né sækja um aðild að einu né neinu. Listarnir hljóta því að hafa verið búnir til með því að fylgjast með fólki, komast að nöfnum þess og skrá þau. Ef íslensk stjórnvöld fengu ekki umrædda lista frá stjórnvöldum í Kína hvaðan komu þeir þá? Hvaða önnur ríki myndu leggja á sig þá miklu vinnu sem felst í því að leita uppi einstaklinga sem leggja stund á ákveðið form kínverskra æfinga til sjálfsræktar?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi