fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Skelfilegt útlit í ferðaþjónustunni þrátt fyrir aukna innanlandsneyslu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 15. júlí 2020 09:36

Mynd: Fréttablaðið/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Afar dökk staða blasir við að loknu sumri, undir yfirborði ástands sem virðist nokkuð gott. – Þetta er nokkurn veginn kjarninn í grein sem Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, birtir í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag. Bjarnheiður skrifar:

„Fljótt á litið virðumst við Íslendingar bara vera að koma nokkuð vel út úr COVID-efnahagskreppunni. Eða eins og einhver orðaði það – það er eins og hér hafi aldrei verið neitt COVID. Hingað streymir varningur frá Kína í tonnavís, verslun og þjónusta hefur sjaldan verið blómlegri, heitir pottar seljast eins og heitar lummur og olíufélögin eru ánægð með árangur síðustu vikna, enda ferðast Íslendingar nú innanlands sem aldrei fyrr. Í fjölmiðlum heyrast fréttir af fullbókuðum hótelum á landsbyggðinni, samfélagsmiðlar eru fullir af myndum úr ferðalögum Íslendinga um sitt fallega land. Land, sem þeir eru margir hverjir að uppgötva og upplifa í fyrsta sinn– og sjá með eigin augum og njóta þeirrar fjölbreyttu uppbyggingar í ferðaþjónustu, sem orðið hefur um land allt síðustu ár. Það er allavega jákvætt. En er þá ekki allt í besta lagi?“

Bjarnheiður segir að allt önnur staða blasi við þegar skyggnst sé undir yfirborðið. Stór hluti ferðaþjónustufyrirtækja hafi verið nánast tekjulaus síðan um miðjan mars. Það séu fyrirtækin sem landsmenn eigi yfirleitt lítil viðskipti við, ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur sem þjónusta erlenda ferðamenn. Einnig gistifyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og sérhæfð afþreyingarfyrirtæki.

Bjarnheiður segir að vissulega komi ferðagleði landsmanna innanlands í sumar mörgum fyrirtækjum vel. Hins vegar bendir hún á að innlend neysla innanlandsferðamanna árið 2019 hafi verið 93 milljarðar króna en velta af erlendum ferðamönnum hafi verið 383 milljarðar. Neysla innlendra ferðamanna þyrfti því að fimmfaldast árið 2020 til að ná sömu neyslu í ferðaþjónustunni og í fyrra.

Bjarnheiður skrifar síðan:

„Flest starfsfólk í ferðaþjónustu hefur nú fengið uppsagnarbréf, eftir að hafa verið í einhverja mánuði á hlutabótaleiðinni. Það sama á við um starfsfólk margra fyrirtækja sem eiga sín viðskipti að miklum hluta undir ferðaþjónustu. Ef við einblínum eingöngu á ferðaþjónustufyrirtækin, þá erum við að tala um um það bil 25.000 manns, semnú eru í algjörri óvissu um störf sín og afkomu. Úrræði stjórnvalda til þessa – einkum og sér í lagi hlutabótaleiðin og greiðsla hluta launa á uppsagnarfresti – voru góð og nauðsynleg og komu án efa í veg fyrir gjaldþrotahrinu strax í vor. Nú er sumarið hins vegar hálfnað og ljóst að ferðaþjónustan mun ekki ná sér á það strik sem vonast hafði verið eftir. Óvissan um framvinduna er enn alger.“

Bjarnheiður segir að erfiður vetur sé framundan fyrir bæði ferðaþjónustuna og allt hagkerfið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt