Stjórnendur rannsóknarleiðangurs Perseverance segja að þessi undarlegi steinn geti veitt vísbendingar um fortíð Mars.
Steinninn hefur fengið heitið „Atoko Point“ eftir steini, sem er svipaður á litinn og er í Miklagljúfri. Atoko Point sker sig svo sannarlega úr á Mars því allt í kringum hann eru mun dekkri steinar. Í tilkynningu frá NASA segir að steinninn hafi fundist nærri Washburn fjalli.
Myndin af honum var tekin í lok maí. Talið er að hann sé 45 cm á breidd og 35 cm á hæð.
Vísindamenn telja ekki útilokað að steinninn hafi borist á núverandi stað með fornri á eða þá að hann hafi myndast neðanjarðar úr kviku og hafi að lokum komið upp á yfirborðið vegna veðrunar þess.
Perseverance hefur verið við störf á Mars síðan í febrúar 2021 og hefur verið við rannsóknir á Jezero gígnum síðan en þar er talið að hafi eitt sinn verið stöðuvatn. Aðalverkefni Perseverance er að finna ummerki um líf til forna. Hefur hann nú þegar tekið 24 jarðvegssýni sem verða send til jarðarinnar í framtíðinni.