fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Matur

Íslenskur bruggmetnaður gerjast í gosgerð – Innlend framleiðsla vekur athygli og eftirtekt

Heimir Hannesson
Föstudaginn 11. desember 2020 14:00

Gosgerðarmeistari lýðveldisins, hjá Öglu Gosgerð. mynd/Agla

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gríðarlegur metnaður innan brugghúsa landsins hefur eflaust ekki farið fram hjá áhugamönnum um slíkar veigar undanfarin ár. Þannig sagði DV nýverið frá því að um eitt hundrað tegundir af íslenskum jólabjór séu nú til sölu í vínbúðum ríkisins. Brugghús í landinu eru nú vel á þriðja tug og bjórtegundir telja nokkur hundruð.

En metnaður í innlendri drykkjarframleiðslu er ekki bundið við áfenga drykki, því nýverið tóku eflaust margir eftir djörfum nýjungum í hillum matvöruverslana. Nöfn eins og „Djöflarót,“ „Yuzulaði,“ og „Kóala,“ bættust við hlið erlendu drykkjanna sem allir þekkja.

Að baki þessu stendur framtaki stendur hin alíslenska Agla Gosgerð, sem vakið hefur umtalsverðan áhuga hjá íslenskum sælkerum. Snemma á árinu sendi Agla frá sér sinn fyrsta drykk og ber hann nafnið „Djöflarót, engiferdrykkur frá helvíti.“ Í kjölfarið fylgdu svo drykkirnir „Yuzulaði, sítrusdrykkur úr klóm drekans“ og „Kóala, svartur galdur undan Suðurkrossi.“

Agla hefur leitast við að selja vöru sína að mestu hjá rótgrónum sjálfstæðum verslunum á borð við Melabúðina, Rangá og Fjarðarkaup í bland við vinsæla bari og veitingastaði.  Forsprakki gosgerðarinnar segir aðgreiningu hennar þó fyrst og fremst liggja í óbeislaðri sköpunargleið og vali á hágæða náttúrulegum hráefnum og tilganginn að umbylta íslenska gosdrykkjamarkaðnum með endurheimt virðingar á gosdrykkjum yfir höfuð.

Nýjasta vara gosgerðarmeistarans nefnist Jólakóla, kraftaverk úr kólalandi og er hún að lenda í völdum verslunum í þessari viku.

“Eftir að hafa leitast eftir ákveðnum einfaldleika við þróun á Djöflarót og Yuzulaði má segja að flækjurnar hafi aðeins farið að vinda upp á sig í framhaldi.  Jólakóla er þar engin undantekning en við höldum áfram að vinna með hágæða hráefni sem fyrr.  Það tók þónokkurn tíma að ná hinum fullkomna samhljóm hátíðanna í Jólakóla og hafði það trúlega með þann fjölda hráefna að gera sem í pottinn fara.  Hin háleynilega uppskrift inniheldur meðal annars kanilstangir, sítrónur, brúnað sykursíróp, stjörnuanís, lakkrís, vanilla, kóríanderfræ, múskat, strásykur, appelsínubörk og allra handa, svo eitthvað sé nefnt.  Það er kannski sérstök ástæða til að hvetja landsmenn til að lesa yfir innihaldslistann aftan á flöskunum á meðan þeir taka fyrstu sopana – þar má kanna hversu vel hver og einn nær að greina þessi fjölmörgu brögð sem flest minna á íslenskar jólahefðir á einhvern hátt. En það er auðvitað stranglega bannað að þamba þetta” segir gosgerðarmeistarinn Sturlaugur Jón Björnsson, alvarlegur.

En það eru ekki eingöngu drykkirnir sem vakið hafa áhuga heldur er útlit á vörulínu gosgerðarinnar sérstakt og minnir um margt á sígildari drykkjavörur.  Allt er þetta þáttur í vegferðinni samkvæmt meistaranum:

“Á sama tíma og við keyrum á framsækninni þá er ákveðin endurvinnsla í gangi í leiðinni, – það er að segja partur af ástríðunni á þessari vegferð er byggður á virðingu á áhuga á fortíð gosdrykkjarmenningarinnar sem má færa rök fyrir að hafi verið í mun meiri blóma hérlendis um miðja síðustu öld.  Þá mátti finna hér ýmsa gosstíla sem ekki sjást lengur í hillum verslana og ætlum við okkur að særa nokkra þeirra fram á meðan við höldum áfram að þróa áður óséða drykki.  Hönnun umbúðanna kallast á við þetta en hún er að miklu leiti byggð á stíl sem var í gangi hér á milli ca 1930-1950 og skartar ákveðnu litavali og áferð sem við eltum mestmegnis.”

Aðspurður hvort það sé ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur, að vaða inn á vel mettaðan coladrykkjamarkað þar sem vörumerki eins og Coca-Cola, Coke Zero, Pepsi og Pepsi Max virðast öllu stjórna, svarar meistarinn að svo sé ekki:

„Eins og nafnið ber með sér er Jólakóla ekki síður Jóladrykkur en kóladrykkur, en auðvitað hvoru tveggja í senn, og þar með eini drykkur sinnar tegundar í verslunum landsins. Þetta sést vel bæði á orðinu “jóla” í nafninu og svo á jólasveininum sem er framan á miðanum. Ýmist ropvatn og kóladrykkir hafa vissulega reynt að smella sér í skárrifötin á þessum tíma árs en skortir með öllu hátíðleika og raunsanna tengingu við þjóðlegar jólahefðir. Þess fyrir utan er Jólakóla, eins og aðrir okkar drykkir, bruggaður með hágæða náttúrulegum hráefnum. Því segi ég; reynið gæðin, látið berast, varist eftirlíkingar – bannað að þamba.“

mynd/Agla

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa