fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Matur

Rakel er hamfarabakari: „Alltaf verður þetta hálf ógeðslegt á bragðið“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 6. október 2018 09:30

Rakel og listaverkin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Því miður þá hef ég í alvöru aldrei bakað neitt sem gæti litið út fyrir að vera gert úr bakaríi. Það er alltaf eitthvað „smá“ sem klikkar,“ segir Rakel Óla Sigmundsdóttir, 33ja ára grunnskólakennari, eiginkona, þriggja barna móðir og afleitur bakari að eigin sögn.

Rakel er það sem við gætum kallað hamfarabakara. Kökur og annað bakkelsi liggur ekki fyrir okkar konu og á orðatiltækið æfingin skapar meistarann alls ekki við í hennar tilviki. Hún tekur það ekki mjög nærri sér, enda hefur henni aldrei fundist gaman að baka og hefur mikinn húmor fyrir hinum ýmsu kökuklúðrum sem hafa fæðst í eldhúsinu.

Rakel ásamt syni sínum, Sigmundi Ævari Ármannssyni.

Frumraunin klikkaði gjörsamlega

„Mér hefur aldrei þótt gaman að baka. Föndur og hvers kyns handavinna hentar mér afskaplega illa. Hæfileikar mínir voru frekar í íþróttunum,“ segir Rakel og hlær. „Eftir að ég eignaðist börn hefur mér fundist ákveðin pressa á að töfra fram einhverjar svakalegar afmælisveislur. Pressan var samt engin með elsta barnið enda samfélagsmiðlar nánast ekkert notaðir þá. Það var í fyrsta skiptið með miðjubarnið, sem er sex ára, sem mér fannst ég þurfa að vera með skreytingar og svakalegar afmæliskökur. Mér fannst þetta samt alltaf hálf fáránlegt að láta aðra stjórna því hvernig ég hagaði hlutunum. Ég fór því frekar þá leið að pósta myndunum á Facebook og sýna hina hliðina, hafa smá húmor fyrir þessu.“

Hvenær rann það upp fyrir þér að þú værir afleit í bakstri?

„Það var eiginlega bara strax eftir fyrstu kökuna. Þetta var Betty deig sem ég hélt að gæti ekki klikkað. Þetta var fyrir þriggja ára afmæli, hún varð eitthvað skrýtin hjá mér. Skreytingin toppaði hana svo algjörlega,“ segir Rakel. Það stendur ekki á svörunum þegar hún er spurð út í skondnustu bakstursminninguna.

Frumraunin fyrir þriggja ára afmæli.

„Það er klárlega fótboltakakan sem ég gerði fyrir fimm ára afmæli sonarins. Ég fékk unglinginn til að hjálpa mér þannig að Betty myndi ekki klúðrast. Hún lét sig svo hverfa úr eldhúsinu þegar kom að því að byrja að skreyta. Ég sagði henni að ég hefði séð frábært ráð frá Evu Laufeyju, að klippa poka til að gera línur. Ég klippti fyrst gatið of stórt og byrjaði á línunni og sá svo að þetta gengi ekki og náði í annan poka og klippti minna gat. Þess vegna eru línurnar svona misstórar. Græna kremið varð líka eitthvað þykkt hjá mér og fór svo að þetta lítur út eins og góður malarvöllur.“

Fótboltakakan margfræga.

Snúðurinn endaði í ruslinu

Klúður í bakstri er ekki það sama og klúður og geta sum mistök orðið alveg hreint unaðsleg á bragðið. Rakel segir allan gang á því.

„Það er eiginlega bara mjög misjafnt. Ég myndi segja að kökurnar séu flestar ætar en kanilsnúðarnir algjörlega óætir. Sonur minn vildi ekki særa tilfinningar mínar í fyrsta skiptið sem ég bakaði þá og sagði að sér fyndist þeir ótrúlega góðir, svo sá ég snúðinn í ruslinu stuttu seinna. Ég hef samt prófað nokkrar uppskriftir en alltaf verður þetta hálf ógeðslegt á bragðið,“ segir hún og hlær en hlátur er einmitt besta meðalið að hennar sögn við svona sykursætum óförum.

„Ég klárlega hlæ að þessu. Ég hef mjög mikinn húmor fyrir bakstrinum mínum og elska hvað fólk hefur gaman að því að sjá þegar ég baka. En ég held samt alltaf þegar ég byrja að baka að nú komi þetta. Mér finnst samt líka pínu gaman að sýna að það þurfi ekkert allt að vera fullkomið. Barnið mun ekkert eiga verri afmælisveislu þó að kakan líti ekki vel út.“

Rakel deilir óförunum á samfélagsmiðlum.

„Dóttir mín hefur aldrei beðið mig um að baka“

En langar þig að vera góð í bakstri?

„Bæði og. Ég veit ekki hvort það sé út af hæfileikunum mínum en hvorki mér né börnunum mínum finnst sætabrauð eitthvað frábært. Það er helst eiginmaðurinn sem væri til í eitthvað nýbakað en ég er búin að segja honum að hann geti auðveldlega bara græjað það sjálfur,“ segir hún. Hún telur jafnvel að bakstursdagar sínir séu taldir.

„Sko, sonur minn átti 6 ára afmæli í febrúar og bað mig um Svamp Sveinsson. Ég held að nú sé hann hættur að biðja mig um köku. Dóttir mín hefur aldrei beðið mig um að baka. Hún er frekar farin að gera það bara sjálf með vinkonum sínum.“

Þetta átti að vera Svampur Sveinsson.

Mikill dassari

Áður en við sleppur Rakel verðum við að spyrja aðeins út í eldamennskuna – er hún jafn slæm og baksturinn?

„Ég myndi segja að ég væri góð að elda. Ég elska að prófa nýjar uppskriftir og legg mikið upp úr hollum og góðum mat. Kannski sem betur fer fyrir fjölskylduna mína því maðurinn minn er vonlaus í eldhúsinu. Mér finnst mjög gaman að elda en finnst bara hundleiðinlegt að baka þannig það gæti kannski verið svolítið málið. Ég er mikill „dassari“ í eldhúsinu og þoli ekki að þurfa að vera svona svakalega nákvæm í bakstrinum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa