Jack Wilshere hefur verið ráðinn nýr stjóri Luton Town. Þetta er fyrsta fasta aðalþjálfarastarf þessa fyrrum miðjumanns Arsenal og enska landsliðsins.
Wilshere, sem er 33 ára, tók tímabundið við Norwich í lok síðasta tímabils og stýrði liðinu í tveimur leikjum, en fékk ekki starfið til frambúðar. Hann tekur nú við Luton af Matt Bloomfield, sem var rekinn í síðustu viku eftir dapra byrjun í ensku C-deildinni.
Luton var í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2023-2024 en hefur fallið tvisvar í röð. „Það er mikill heiður að verða ráðinn stjóri Luton,“ sagði Wilshere á heimasíðu félagsins.
Wilshere lék með yngri liðum Luton áður en hann gekk til liðs við Arsenal níu ára gamall. Hann hefur undanfarin ár starfað sem þjálfari í akademíu Arsenal og aðstoðarþjálfari Norwich.
Chris Powell, fyrrum stjóri Charlton og aðstoðarþjálfari enska landsliðsins, verður aðstoðarmaður Wilshere.
Fyrsti leikur hans við stjórnvölinn verður á heimavelli gegn Mansfield á laugardaginn.
Jack Wilshere is our new manager 🧡
— Luton Town FC (@LutonTown) October 13, 2025