Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest að Arsenal hafi verið sektað fyrir brot á reglum enska bikarsins í tengslum við leik liðsins gegn Manchester United í þriðju umferð keppninnar í janúar síðastliðnum.
Samkvæmt tilkynningu frá sambandinu komst það að þeirri niðurstöðu að Arsenal hefði brotið reglugerð sem snýr að miðum sem gestaliðið á að fá. Fékk United ekki þá miða sem félagið átti rétt á.
Sambandið komst að þeirri niðurstöðu að Arsenal hefði ekki fylgt reglunum og fékk félagið 500 þúsund punda skilorðsbundna sekt. Sektin verður ekki innheimt ef Arsenal sýnir fram á að félagið geti fullnægt þessum kröfum í þriðju umferð bikarsins á þessu tímabili.
Þess má geta að United vann leikinn í vítaspyrnukeppni.