Færeyjar unnu ótrúlegan 2-1 sigur á Tékklandi í undankeppni HM í gær og eru vonir þessarar ríflega 50 þúsund manna þjóðar um að komast í lokakeppnina á lífi fyrir lokaumferðina, tölfræðilega séð hið minnsta.
Hanus Sorensen kom Færeyingum yfir á 67. mínútu en Adam Karabec, leikmaður franska stórliðsins Lyon, jafnaði um tíu mínútum síðar. Martin Agnarsson gerði svo sigurmark heimamanna skömmu síðar.
Mikið er fjallað um sigur Færeyja í fjölmiðlum um heim allan, enda bjuggust afar fáir við sigri þeirra í gær, sem einnig má sjá á því hvernig veðbankar mátu leikinn.
Færeyska liðið er nú stigi frá öðru sæti riðils síns, þar sem Tékkland situr, en það sæti veitir þátttöku í umspili um sæti á HM næsta sumar. Vondu fréttirnar eru þó þær að Tékkar eiga eftir að mæta Gíbraltar heima á meðan Færeyingar heimsækja Króata.
Það er þó óhætt að dást að Færeyjum fyrir að láta stærri þjóðir hafa fyrir hlutunum, þó ekki verði nema það þegar uppi er staðið. Fyrir helgi vann liðið þá 4-0 sigur á Svartfellingum.
Til að setja árangur Færeyja í samhengi má þess geta að tveir leikmenn, Gunnar Vatnhamar og Jóan Símun Edmundsson, spila á Íslandi. Þá spila fimm í heimalandinu en hinir spila í dönsku úrvalsdeildinni, pólsku úrvalsdeildinni, slóvensku B-deildinni og ensku D-deildinni.