Erik ten Hag, stjóri Manchester United, segir að leikmenn liðsins séu jákvæðir þó svo að gengið hafi verið hörmulegt undanfarið.
Gengi United hefur verið langt undir væntingum fyrstu mánuði tímabilsins og hefur liðið nú tapað tveimur leikjum í röð 0-3, gegn Manchester City og svo Newcastle.
Á morgun mætir United Fulham og þarf nauðsynlega að vinna.
„Leikmennirnir eru jákvæðir. Þeir vilja bæta upp fyrir þetta því við vitum til hvers er ætlast af okkur. Við höfum fengið tvo stóra skelli en við munum koma til baka. Leikmannahópurinn er sterkur og einnig starfsfólk,“ sagði Ten Hag um stöðu mála.
„Ég er með góðan hóp í höndunum. Við sáum í fyrra að við getum verið mun betri en þetta. Ég tek ábyrgð því ég á að ná meiru út úr leikmönnunum og mun ég reyna allt til að ná því.“
Ten Hag var spurður út í það hvort sigur gegn Fulham væri lífsnauðsynlegur.
„Ég hugsa ekki þannig. Við þurfum að vinna alla leiki. Við undirbúum okkur vel og ég er viss um að leikmennirnir verða klárir í leikinn.“