Klæmint Olsen mun ekki klára tímabilið með Breiðablik þar sem samningur hans rennut út um miðjan nóvember. Hann missir af tveimur leikjum í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar vegna þess.
Kristján Óli Sigurðsson fyrrum kantmaður Breiðabliks og sérfræðingur Þungavigtarinnar sagði frá þessu í nýjasta þætti þeirra félaga. Hann segir eiginkonu Klæmint ekki taka það í mál að hann verði áfram á Íslandi.
„Þetta er næst síðasti leikurinn hans Klæmint, samningurinn hans rennur út 16 nóvember og þá eru tveir leikir eftir,“ sagði Kristján Óli.
Breiðablik leikur gegn Gent í Sambandsdeildinni í kvöld sem er þriðji leikur liðsins í riðlinum, liðið er án stiga.
Klæmint er á láni frá Færeyjum og mun ekki framlengja samninginn. Kristján segir eiginkonu Klæmint taka fyrir það.
„Konan hans segir að það sé ekki séns að hann verði áfram á þessu ógeðslega Íslandi, að hann skuli koma heim til Færeyja. Færeyskar húsmæður kalla ekki allt ömmu sína, það er ekki fræðilegur að hún hleypi honum í hina tvo leikina.“
Landsliðsmaðurinn frá Færeyjum hefur reynst Blikum vel en hann kom á láni frá NSÍ Runavík til félagsins, hann er eini leikmaður Blika sem hefur náð að skora í riðlakeppninni til þessa.