Það er óljóst hvort David Raya eða Aaron Ramsdale standi í marki Arsenal gegn Sevilla í Meistaradeild Evrópu á morgun.
Raya gekk í raðir Arsenal frá Brentford í sumar og var ekki lengi að hirða byrjunarliðssætið af Ramsdale þrátt fyrir að sá síðarnefndi hafi staðið sig afar vel í rammanum undanfarin tvö tímabil.
Raya hefur hins vegar gert nokkur mistök og leiddu ein þeirra til marks gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á laugardag.
Ramsdale var ekki í hóp í leiknum þar sem eiginkona hans var að eignast barn en hann æfði með Arsenal í dag og er klár í slaginn á morgun.
Þá mæta Skytturnar Sevilla á útivelli í mikilvægum leik eftir að hafa tapað gegn Lens í síðustu umferð.
Enskir miðlar velta því upp í dag hvort Ramsdale fái tækifærið í markinu í leiknum í kjölfar mistaka Raya um helgina.