Svar Erik ten Hag á blaðamannafundi í dag fyrir leik Manchester United gegn FC Kaupmannahöfn annað kvöld olli töluverðum ruglingi sem nú hefur verið leiðréttur.
Liðin mætast í Meistaradeild Evrópu á morgun en United er komið með bakið upp við vegg.
Ten Hag var á fundinum spurður út í meidda leikmenn og ræddi þar á meðal Sergio Reguillon.
„Sergio æfði alla vikuna en við þurfum að sjá hvort hann verði klár,“ sagði Ten Hag.
Margir héldu hins vegar að Ten Hag hafi sagt „Sancho“ en ekki „Sergio“ og olli þetta ruglingi, enda Sancho algjörlega úti í kuldanum hjá United þar sem hann hefur átt í stríði við Ten Hag.
Svo birtist hins vegar frétt á Manchester Evening News þar sem fram kom að félagið hefði staðfest að stjórinn hafi verið að ræða Reguillon en ekki Sancho.