Joao Felix var kynntur til leiks sem leikmaður Chelsea í dag. Það gekk þó ekki vandræðalaust fyrir sig.
Felix er á mála hjá Atletico Madrid en fer á láni til Lundúnaliðsins út yfirstandandi leiktíð.
Hann framlengdi við Atletico til 2027 áður en hann fór til Chelsea.
Chelsea borgar 11 milljónir evra í lánsfé fyrir Felix og greiðir öll hans laun þar til í vor.
Þegar Chelsea tilkynnti leikmanninn á Twitter var skrifað #HolaFelix.
Felix er hins vegar portúgalskur, ekki spænskur og hefði því með réttu átt að standa #OláFelix.
Þessu voru knattspyrnuáhugamenn fljótir að átta sig á og létu Chelsea fá það óþvegið. Færslan var lagfærð en þá höfðu mörg þúsund manns séð hana.
Chelsea hefur verið í vandræðum á leiktíðinni og er í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Felix hefur verið hjá Atletico síðan 2019 og er hann dýrasti leikmaður í sögu félagsins.