fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fréttir

Margir minnast Þorsteins: „Denni var gull af manni en glímdi við drauga“

Þorsteinn Kragh látinn, 56 ára að aldri – Umboðsmaður og tónleikahaldari

Einar Þór Sigurðsson
Þriðjudaginn 28. nóvember 2017 12:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Kragh, fyrrverandi umboðsmaður og tónleikahaldari, lést af slysförum á heimili sínu þann 18. nóvember síðastliðinn, 56 ára að aldri. Útför Þorsteins verður gerð frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag. Þorsteinn fæddist í Reykjavík 9. maí árið 1961.

Í Morgunblaðinu í dag minnast margir Þorsteins með hlýjum orðum og í þeim hópi er tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens, en Þorsteinn, eða Denni eins og hann var gjarnan kallaður, var umboðsmaður Bubba um tíma. Þá var hann umboðsmaður GCD, KK, Jet Black Joe og vann að verkefnum fyrir hljómsveitina Blur. Hann flutti sveitina til Íslands ásamt öðrum þekktum breskum hljómsveitum, Ash og Pulp þar á meðal. Þá sá hann um skipulagningu á útihátíðinni Uxi árið 1995 þar sem Björk og Prodigy komu meðal annars fram.

Dæmdur í fangelsi

Þorsteinn var í fréttum árið 2008 þegar hann var handtekinn í tengslum við umfangsmikið fíkniefnamál. Sumarið 2009 var hann dæmdur í níu ára fangelsi í Hæstarétti fyrir innflutning á 192 kílóum af kannabisefnum og 1,3 kílóum af kókaíni árið áður. Annar maður, Jacob Van Hinte, var dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að málinu.

Urðu fljótt góðir vinir

„Þorsteinn Kragh vinur minn er látinn. Kannski kom fréttin um andlát hans ekki eins á óvart og hún hefði átt að gera. Denni, eins og hann var kallaður, leit út eins og Hollívúddstjarna þegar ég kynntist honum, fríður, karlmannlegur, með brún augu, dökkur á hörund, með þykkt svart liðað hár, samsvaraði sér vel, stæltur á skrokkinn, lágvaxinn og kvikur í hreyfingum og með bros sem opnaði nánast allar dyr,“ segir Bubbi í grein sinni.

Bubbi og Þorsteinn hittust á Eskifirði árið 1982 og urðu vinir. „Ungir menn sem vissum hvorugur að fíkniefnaguðinn hafði merkt sér okkur báða,“ segir Bubbi í grein sinni og bætir við að Denni hafi verið hamhleypa til verka og hann hafi sýnt af sér þvílíkan dugnað og kraft.

„Ég lærði seinna sögu hans, hann reyndist hafa sem lítið barn þurft að ganga í gegnum hluti sem ekkert barn á að þurfa að ganga í gegnum. Sú reynsla markaði hann fyrir lífstíð eins og hún gerir við okkur sem verðum fyrir áföllum sem börn. Meðan við erum ung getum við kastað frá okkur ófreskjum sem sækja að okkur, en með árunum mæðumst við og vörnin dugar ekki til.“

Í jarðarför Pavarotti

Bubbi segir að þeir hafi verið nánast í daglegu sambandi frá 1982 til 1999. „Hann varð umboðsmaður minn og stóð sig vel, ávallt vel klæddur með milljóndollarabros sem opnaði honum heim hinna frægu og ríku. Óperustjörnur komu á hans vegum hingað til lands sem og breskar stórhljómsveitir. Hann var í jarðarför Pavarotti ásamt öllum helstu stjörnum Evrópu og lífið virtist brosa við honum,“ segir Bubbi en Þorsteinn var eini Íslendingurinn sem viðstaddur var jarðarför Pavarotti. Þá flutti hann til landsins þá José Carreras og Placido Domingo á sínum tíma.

Sagðist ekki trúa honum

Í grein sinni bætir Bubbi við að Þorsteinn hafi átt aðra hlið sem fæstir vissu um.

„Þegar ég kvaddi hann jólin 2008 á Litla-Hrauni voru augu hans svo full af skelfingu að það mun aldrei líða mér úr minni.“

„Hann notaði fíkniefni og var dæmdur fyrir að flytja þau inn. Hann sagðist alltaf vera saklaus og hélt því fram við mig eins og aðra. Við töluðum seinast saman 2009. Hann reiddist mér af því ég sagðist ekki trúa honum. Denni var gull af manni, greiðvikinn vinur vina sinna, en það fór ekki framhjá neinum sem til hans þekkti að hann glímdi við drauga. Það var sárt að sjá hann í fangelsi. Þegar ég kvaddi hann jólin 2008 á Litla-Hrauni voru augu hans svo full af skelfingu að það mun aldrei líða mér úr minni. Það brotnaði eitthvað í honum í fangelsinu og hann varð aldrei samur eftir það,“ segir Bubbi í grein sinni en tekur þó fram að hann eigi margar dásamlegar minningar um hann.

„Ein er frá því þegar við fórum til Afríku og enduðum í þorpi þar sem jónur voru gerðar úr breskum dagblöðum og stærðin á þeim slík að við tókum bara hvor sinn smókinn sem dugði okkur til Spánar. Við leigðum okkur hús á Kanarí þar sem ég samdi lögin á Sögur af landi og hann sá um næturlífið. Hann var listakokkur og við elduðum nánast á hverju kvöldi. Það var góður tími. Hann elskaði tónlist og það var alltaf tónlist í kringum hann. Hann elskaði konur og konur elskuðu hann. Hann var góður við elstu börnin mín og þau voru elsk að honum. Innsæi Denna sýndi sig þegar ég varð edrú 1996. Þá sagði hann: Nú get ég ekki lengur unnið með þér. En ég er búinn að finna mann sem er edrú eins og þú og hann er tilbúinn til að vinna með þér. Svo kynnti hann mig fyrir fóstbróður mínum og besta vini, Palla, sem er umboðsmaður minn enn í dag. Við komum og við förum og nú er Denni farinn. En hann lifir í mér og mun gera það meðan ég lifi. Ég sendi aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.“

„Denni átti stóra sigra í lífinu sem ekki má gleyma og hann var rausnarlegur og hugsaði mjög vel um þá sem skiptu hann máli.“

Þráði að vera elskaður og elska

Fleiri minnast Þorsteins í Morgunblaðinu í dag og er Íris Björk Jónsdóttir, oft kennt við GK, ein þeirra. Hún kynntist Þorsteini fyrir 16 árum og segir að það hafi gustað af honum hvar sem hann kom. Lífsgleðin og sjarminn hafi verið engu líkur og auðvelt hafi verið að heillast af honum. Hann var alltaf flottur í tauinu og afar snyrtilegur og smart að sjá. Fljótlega urðum við miklir og góðir vinir, en ég gerði mitt besta til að vera traustur vinur í gegnum hóla og hæðir sem Denni ferðaðist um í lífi sínu á köflum,“ segir hún.

Hún segir að hann hafi verið dulur og með mikla brynju sem erfitt hafi verið að komast inn fyrir. Henni hafi þó oft tekist það. „Mér tókst að láta hann sjá það fallega sem sem í honum bjó – a.m.k. einstaka sinnum tókst mér það,“ segir hún og bætir við að dóttir hans og barnabörn hafi verið hans stolt og yndi. Hann hafi ljómað allur þegar hann talaði um þau. „Þá sá ég mjúka manninn sem mér þótti svo vænt um. Við sem þekktum hann höfum öll mismunandi útgáfur af honum og ég hef mína sem er maður sem þráði að vera elskaður og að elska,“ segir Íris sem bætir við að Þorsteinn hafi átt sér draum um að búa á Spáni og gerast bóndi í Andalúsíu.

„Denni talaði um hversu æðislegt það yrði að vera með nokkra hesta og hænur í bakgarðinum á eldgömlu sveitasetri sem hann myndi gera upp. Hann átti marga vini á þessum slóðum og leið eins og heima hjá sér þegar hann dvaldi þar. Denni átti stóra sigra í lífinu sem ekki má gleyma og hann var rausnarlegur og hugsaði mjög vel um þá sem skiptu hann máli. Líf hans var ævintýri líkast, eða eins og veglegt grímuball þar sem Denni bar best gerðu og veglegustu grímuna,“ segir Íris sem bætir við að nú sé grímuballinu lokið. „Ég þakka fyrir vinskap okkar, traust og hlýju og megi allar góðar vættir vaka yfir þér og þínum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“

Tryggvi segir málið með ólíkindum – „Ég á það, ég má það“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“

Ófögur sjón mætti Kristjáni í gærkvöldi: „Maðurinn sem gerði þetta er í haldi lögreglunnar“
Fréttir
Í gær

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða

Saxenda bætti lífsgleði, lífgæði, liðleika og úthald en SÍ neituðu að halda áfram að niðurgreiða
Fréttir
Í gær

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur

Meira en 10.000 kynsjúkdómatilfelli greind á Íslandi síðan 2020 – Sjáðu hvaða kynsjúkdómur er algengastur
Fréttir
Í gær

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“

Bjarkey strax undir miklum þrýstingi: „Það hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir ráðherra að fara ekki að lögum“
Fréttir
Í gær

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips

Viðbúnaður vegna vélarvana flutningaskips