
Undanfarið hefur einkasamtölum bandarískra stjórnmálamanna í þrígang verið lekið til fjölmiðla. Orðræðan þar hefur vakið athygli en hún einkennist af kynþáttafordómum, gyðingahatri og þykir nokkuð ofbeldisfull.
Dæmi um það sem finna má í þessum samtölum er jákvætt viðhorf til nasista, hótanir um pólitískt ofbeldi og niðrandi tal í garð annarra kynþátta en hvítra. Reuters rekur að þessi orðræða sé merki um öfgafulla skautun í samfélaginu sem virðist vera orðin hversdagsleg.
Fyrst ber að nefna hópspjall ungra repbúlikana sem var lekið í Politico sem fjallaði um orðræðuna þann 14. október. Þar mátti finna gróft grín þar sem ítrekað var talað um að senda andstæðinga eða þá sem eru ósammála í gasklefa. Einn skrifaði berum orðum: Ég elska Hitler.
En repúblikanar sitja ekki einir að orðræðunni. Skilaboð sem Jay Jonas, frambjóðandi demókrata í Virginíu, sendi árið 2022 láku út í byrjun mánaðar en þar sagði Jonas að einn stjórnmálamaður repúblikana ætti að vera skotinn á færi og að sjálfur myndi Jonas feginn pissa á grafir pólitískra andstæðinga sinna.
Paul Ingrassa, maðurinn sem Donald Trump ætlaði að koma í embætti hjá opinberri eftirlitsstofnun, þurfti að stíga til hliðar í vikunni eftir að því var lekið að hann hafi sagt í einkaskilaboðum að hann væri með nasista slagsíðu.
Samkvæmt sérfræðingum í orðræðu stjórnmála og netheima, eru þessi einkaskilaboð birtingarmynd þess að fólk hefur falska öryggiskennd í stafrænum samskiptum og leyfir sér því að ritskoða sig minna. Fólk virðist telja sig geta treyst viðmælendum sínum, jafnvel þegar um hópspjall er að ræða.
Sérfæðingarnir segja þetta dæmi um tegund hatursorðræðu sem mætti kalla einkahatursorðræðu, þ.e. er ekki ætluð til opinberrar birtingar. Það hjálpi ekki til að forsetinn, Donald Trump, tjái sem með mjög óhefluðum hætti svo margir íhaldsmenn líta svo á að orðbragð sem hefði ekki þótt við hæfi fyrir nokkrum árum síðan sé núna fullkomlega ásættanlegt.
„Þeim finnst eins og Trump hafi tekið völdin í popkúltúrnum og að demókrötum skorti jarðtengingu. Gegnum gangandi er svokallað andvókið. Ef þú getur verið ögrandi – sagt eitthvað óviðeigandi – þá færðu að vera með í hópnum. Þetta er dýnamíkin í kjarna trumpisma.“
Þetta sé svokölluðu jaðarjarlamenning (e. edgelord culture) sem sé fyrirbrigði sem á rætur að rekja til netheima þar sem fólk er viljandi að reyna að valda hneyksli eða uppþoti með því að segja stuðandi hluti.
Einaskilaboðin sem láku hafa valdið fjaðrafoki og fordæmingu þvert á flokka. Þó hefur varaforsetinn JD Vance reynt að afsaka skilaboð ungra repúblikana með því að vísa til þess að þar séu óhörðnuð ungmenni á ferðinni. Það gefur villandi mynd af stöðunni þar sem allir í hópspjallinu voru komnir á þrítgusaldur og sumir jafnvel á fertugsaldur. Á sama tíma fordæmdi varaforsetinn skilaboðin sem láku frá frambjóðanda demókrata.
Þetta er gott dæmi um skautunina í bandarískum stjórnmálum. Enginn vill taka nokkra ábyrgð heldur aðeins benda á aðra. Ef repúblikanar gera eitthvað af sér þá er strax farið í að rekja sambærilega eða algjörlega ótengda hluti sem demókratar hafa gert, og svo öfugt. Og ef það kæfir ekki gagnrýnina þá er óásættanleg orðræðan afsökuð sem grín eða ádeila.