Nótt eina í júní árið 1996 hringdi móðir nokkur fráviða í neyðarlínuna. Hún tilkynnti þar að maður hefði brotist inn á heimili hennar og stungið hana og tvo unga syni hennar. Aðeins fimm mínútum síðar mætti lögregla á heimili Darlie Lynn Routier og mætti þeim hryllileg sjón. Sex ára drengurinn Devon var látinn af völdum fjögurra djúpra stungusára og yngri bróðir hans, Damon sem var fimm ára, var þungt haldinn. Móðir drengjanna, Darlie, var með djúpan skurð á hálsi og áverka á höndum. Henni var ekið í flýti á gjörgæslu þar sem tókst að bjarga lífi hennar, en Damon litli lést í sjúkrabílnum.
Í kjölfarið fór af stað rannsókn sem átti eftir að leiða til þess að átta mánuðum síðar var Darlie dæmd til dauða. En hvað átti sér stað þessa örlagaríku nótt, og hvers vegna er enn barist fyrir því næstum þremur áratugum síðar að málið verði tekið aftur upp og Darlie sýknuð?
Athugið að myndir og lýsingar hér að neðan gætu komið illa við lesendur
Fljótlega eftir að Darlie fékk eftir meðvitund, eftir aðgerðina sem bjargaði lífi hennar, var hún yfirheyrð af lögreglu. Hún var enn undir áhrifum sterkra verkjalyfja. Hún lýsti því sem svo að þetta örlagaríka kvöld hafi hún og synir hennar, Devon og Damon, sofnað yfir sjónvarpinu. Eiginmaður hennar, Darin, hafi sofið á efri hæð hússins ásamt yngsta syninum, Drake sem var átta mánaða.
Darlie hafi svo hrokið upp klukkan 2:30 um nóttina og séð mann standa yfir henni með hníf. Maðurinn hafi svo tekið á flótta og veitti Darlie honum eftirför þar til hún kom inn í þvottahús þar sem hún fann hníf á gólfinu. Hún hafi tekið upp hnífinn til að geta varist manninum ef hann kæmi aftur. Á sama tíma áttaði hún sig á því að hún hafði verið skorin á háls og stungin. Hún fór þá til að athuga með drengina síðan og áttaði sig á því að þeir voru alvarlega slasaðir.
Eiginmaður Darlie var líka yfirheyrður og lýsti atvikum sem svo:
„Ég heyrði öskur. Ég hleyp niður. Darlie var að öskra: Devon, Devon, Devon, Devon, Devon, Devon. Ég meina, hún var bara að fríka út. Ég næ til Devon og hann er með tvo stóra skurði ofarlega á brjóstkassanum og hann liggur á bakinu og bara rétt blikkar agunum. Ég hugsaði strax að hefja þyrfti endurlífgun. Ég tek um höfuð hans og fer að blása, en um leið og ég blæs þá kemur loftið út um brjóstkassann og blóð gusast yfir mig. Það var ekki nóg að hafa rétt í þessu vaknað upp í verstu martröð lífs þíns, heldur er barnið þitt líka að deyja fyrir framan þig. Og maður veit bara ekkert hvað maður á að gera.“
Rannsakendur sáu ekkert athugavert við lýsingu eiginmannsins. En eitthvað við lýsingu Darlie kom óþægilega við þá. Hvernig gat hún sofið á meðan hún og drengirnir voru stungin? Hvers vegna gat hún ekki lýst manninum sem hún sagðist hafa séð?
„Þegar það kom tími til að lýsa þessum meinta sakborningi, þá gat hún ekki lýst honum, jafnvel þó hann hafi átt að krjúpa, sitja eða standa ofan á henni,“ sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Dean Poos.
Það sem meira var þá gat lögregla engin sönnunargögn fundið inn á heimilinu um þennan meinta innbrotsþjóf og þar að auki hafði engu verið stolið. Svo virtist sem að þessi meinti þrjótur hafi komist inn á heimilið með því að skera í sundur flugnanet úr vír sem var í glugga bílskúrsins. Hins vegar var enn ryk á gluggakistunni sem benti til þess að enginn hafi komið inn. Auk þess fannst ljóst hár á netinu, en Darlie var á þessum tíma ljóshærð. Ekki nóg með það heldur fannst í eldhúsinu hnífur sem á var þráður úr flugnanetinu.
Í húsasundi þremur húsum frá heimili Darlie fannst sokkur með blóðblettum. Blóðið reyndist tilheyra litlu drengjunum og sokkurinn var af Darin. Lögregla taldi ljóst Darlie hefði komið sokknum fyrir til að afvegaleiða lögreglu.
„Það sem einkennir gjarnan mál, þar sem mæður koma við sögu í morði barna, er að í kjölfarið er reynt að hylma yfir brotin með viðvaningslegum hætti. Enginn vill trúa því að móðir gæti gert börnunum sínum svona. En á einhverjum tímapunkti, andspænis yfirþyrmandi áþreifanlegum sönnunargögnum, þá verður maður að horfast í augu við það,“ sagði Poos. Eins fannst engin blóðug slóð frá heimilinu, og ekki heldur nein fótspor.
Rannsakendur töldu sennilegustu skýringuna þá að Darlie hefði banað drengjunum. Hún hafi svo veitt sjálfri sér áverka til að selja þá sögu að óþekktur maður hefði ráðist á þau. En hvers vegna? Nú þurfti ákæruvaldið að leiða í ljós hvata Darlie fyrir ódæðinu. Var þá ráðist í að mála upp mynd af sjálfselsku ljóskunni. Darlie var sögð eigingjörn dekurdrós sem sá móðurhlutverkið sem fyrirstöðu. Með því að losa sig við drengina gæti Darlie endurheimt lúxuslífið og þar að auki fengið peninga úr líftryggingum þeirra.
Réttarmeinafræðingur bar vitni fyrir dómi og sagði ljóst að Darlie hefði sjálf skorið sig á háls. Sérfræðingur í blóðslettum sagði að aftan á náttbol Darlie hafi fundist blóðblettir úr drengjunum mætti rekja til þess að hún hafi lyft hnífnum yfir höfuð sér til að geta stungið syni sína af meiri krafti.
Blóð úr Darlie hafi fundist í vaskinum í eldhúsinu sem benti til þess að þar hefði hún staðið þegar hún skar sjálfa sig á háls, og svo hafi hún reynt að þrífa blóðið upp.
Það sem gerði þó útslagið í málinu var myndband sem var spilað í dómsal sem var tekið um viku eftir morðin. Myndbandið var tekið í kirkjugarðinum þar sem litlu drengirnir voru grafnir. Á því sem hefði verið sjö ára afmæli Devon fór Darlie ásamt fjölskyldu og vinum að leiði hans til að halda upp á afmælið. Þar söng fjölskyldan afmælissöngin og spreyja kjánaþráðum (e. Silly string) yfir gröfina. Lögregla taldi þennan fögnuð ekki sæmandi móður sem átti að vera að syrgja börn sín. Þetta myndband skipti miklu máli, en kviðdómur horfði átta sinnum á það á meðan hann réði ráðum sínum.
„Þarna var á ferðinni móðir sem átti að hafa orðið fyrir hrottalegri árás. Hún hafði misst tvö börn en var samt bókstaflega úti að dansa á gröfum þeirra,“ sagði saksóknarinn Greg Davis fyrir dómi. Ákæruvaldið var meðvitað um mikilvægi myndbandsins og leiddu því til stuðnings fram hjúkrunarfræðinga og lækna sem voru á vakt þegar Darlie var tilkynnt að synir hennar væru dánir. Hún hafi ekki orðið fráviða af sorg heldur verið skuggalega róleg og yfirveguð.
Kviðdómur komst að einróma niðurstöðu. Darlie var sek og bæri að gjalda fyrir brot sín með lífinu. Darlie var flutt á dauðadeild og þar situr hún enn.
Ekki eru þó allir sannfærðir um sekt Darlie og það sem meira er, einn meðlimur kviðdóms hefur í gegnum árin skipt um skoðun og telur nú að mistök hafi átt sér stað. Stuðningsaðilar Darlie hafa bent á að ýmislegt í málflutningi ákæruvaldsins komi hreinlega ekki heim og saman við þá kenningu sem þeir seldu kviðdómi.
Samkvæmt vitnisburði læknis þá hefði Damon litli ekki náð að lifa í nema níu mínútur eftir að hann var stunginn. Hann lét þó ekki lífið fyrr en eftir að viðbragðsaðilar mættu á svæðið. Darlie hringdi í neyðarlínuna fimm mínútum og 40 sekúndum áður en lögregla mætti á svæðið og lögregla varði svo tveimur mínútum í að tryggja vettvanginn áður en sjúkraliðum var hleypt inn. Því hefði Darlie aðeins haft eina og hálfa mínútu til að hlaupa framhjá þremur húsum, niður í húsasund, til að koma fyrir blóðugum sokknum og þar sem engar blóðslettur fundust í húsasundinu sjálfu hefði hún því næst þurft að hlaupa aftur heim og skera sig á háls. Ansi vel að sér vikið að ná þessu á 90 sekúndum.
Fjölskylda Darlie hefur bent á að á vettvangi hafi fundist blóðug fingraför sem tilheyrði engum úr fjölskyldunni. Eitt fannst á hurðinni að bílskúrnum og annað á skenk fyrir aftan sófa í stofunni. Þessi fingraför hafi lögregla virt að vettugi.
Fjölskyldan hefur eins bent á að mögulega hafi innbrotsþrjóturinn ekki ætlað að stela neinu heldur hafi hann verið nauðgari. Mikið af ofbeldisfullum nauðgunum höfðu átt sér stað í nágrenninu á þessum tíma, en þeim glæpum svipaði um margt til málsins. Þar hafði nauðgarinn brotist inn á heimili þolenda sinna, ráðist að þeim með hnífum sem hann fann í eldhúsinu, og verið með sokk yfir höndum sínum til að skilja ekki eftir fingraför. Nágrannar Darlie hafa einnig greint frá því að í aðdraganda morðanna hafi dularfullum bíl verið ekið um nágrennið, og hafi ítrekað stoppað við hús Darlie. Eins hafi verið tilkynnt um tilraun til innbrots í nágrenninu klukkutíma fyrir morðin.
Eins beri læknum ekki saman um hvort Darlie hafi getað veitt sjálfri sér áverkana. Til að mynda hafi skurðurinn á hálsinum verið djúpur og hefði hann verið 2 millimetrum lengri þá hefði slagæð farið í sundur og Darlie hefði dáið.
Varla hafi Darlie séð fram á að auðgast á andláti sona sinna þar sem líftrygging þeirra nam aðeins um milljón krónum á meðan hún hefði fengið hátt í 100 milljónir ef eiginmaður hennar hefði látið lífið. Og ef Darlie hreinlega nennti ekki að vera móðir lengur, hvers vegna hefði hún leyft átta mánaða syni sínum að lifa?
Varðandi myndbandið úr kirkjugarðinum þá hafi það verið slitið úr samhengi. Það hafi verið klippt svo á það vantaði harmþrungna minningarstund sem fjölskyldan hélt áður en afmælisfögnuðurinn tók við. Darlie sagði sjálf að fögnuðurinn hafi verið leið til að heiðra minningu sonar hennar.
„Við höfðum sent boðskort, keypt gjafirnar og hann var myrtur þremur dögum áður en veislan átti að fara fram. Þetta var gert í minningu þeirra. Saksóknarinn afskræmdi þessa stund yfir í eitthvað ljótt.“
Eins sé vitnisburður lækna og hjúkrunarfræðinga í ósamræmi við það sem formlega var skráð í atvikalýsingu á sjúkrahúsinu. Þar kom fram að Darlie hafi verið undir áhrifum róandi og verkjastillandi lyfja. Hún hafi grátið, verið hrædd og í miklu uppnámi.
Á það hefur verið bent að kviðdómur fékk ekki að sjá almennilegar myndir af áverkum Darlie, en Charles Samford, sem sat í kviðdóminum, hefur nú fengið að sjá myndirnar og sagði:
„Eftir að ég sá myndirnar, þá upplifði ég að hún væri saklaus. Hún skar sig ekki sjálf, og hún barðist greinilega á hæl og hnakka til að verja sig. Ég trúi því af öllu hjarta að Darlie Routier sé saklaus. Það er hafið yfir allan vafa.“
Áverkunum hafi verið lýst fyrir dómi sem yfirborðskenndum en í raun hafði stunga á hægri hendi Darlie, sem er rétthent, verið svo djúp að hún náði inn að beini.
Ákæruvaldið taldi grunsamlegt að Darlie hafi stöðugt verið að breyta frásögn sinni, og að ósennilegt sé að hún hafi í raun og veru sofið á meðan synir hennar voru myrtir og hún stungin. Fjölskylda hennar hefur þó bent á að minnisleysi sökum áfalls sé þekkt í svona aðstæðum. Darlie muni í raun ekki nákvæmlega hvað gerðist en heilinn á henni hafi reynt að fylla upp í eyðurnar með því litla sem eftir stóð. Og ef hún væri í raun að ljúga, hefði hún þá ekki gætt betur að því að halda sig við eina og sömu söguna?
Hér að ofan er aðeins farið yfir hluta af þeim fjölmörgu spurningum sem enn er ósvarað í málinu. Eins mætti minnast á vitnisburð lögreglumannsins sem var fyrstur á vettvang, en hann fór í berhögg við upptöku frá Neyðarlínunni. Lögreglumaðurinn sagðist hafa mætt eiginmanni Darlie þegar hann kom að húsinu, en á upptökunni heyrist skýrt að Darin var við hlið Darlie að huga að drengjunum. Á upptökunni heyrist enn fremur þegar lögreglumaðurinn mætti inn á heimilið.
Og dæmin eru enn fleiri. Svo mörg að ógerningur væri að gera grein fyrir þeim í einni samantekt. Darlie bíður þess enn að vera tekin af lífi. Hún hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Það gera enda fleiri, meðal annars eiginmaður hennar og yngsti sonurinn. Fyrir þá sem vilja kafa dýpra ofan í málið má benda á eftirfarandi vefslóðir: