fbpx
Fimmtudagur 26.nóvember 2020
Pressan

Trump og Biden tókust á í kappræðum í nótt – Mun betri en þær síðust en breyta litlu

Kristján Kristjánsson
Föstudaginn 23. október 2020 04:37

Mjótt er á mununum í augnablikinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump og Joe Biden tókust á í sjónvarpskappræðum í nótt en þetta voru síðustu kappræður þeirra áður en Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu þann. 3. nóvember næstkomandi. Kappræðurnar fóru fram í Nashville og voru með breyttu sniði. Nú var lokað fyrir hljóðnema frambjóðendanna í tvær mínútur þegar þeir svöruðu ákveðnum spurningum svo mótframbjóðandinn gæti tjáð sig í friði en fyrri kappræður þeirra einkenndust af framígripum.

Fréttaskýrendur eru almennt sammála um að kappræðurnar hafi verið mun yfirvegaðri en þær fyrri og hafi farið betur fram. Margir segja að Trump hafi staðið sig mun betur en síðast en það hafi ekki dugað honum því Biden hafi staðið sig miklu betur en hann og sé sigurvegari kvöldsins. En auðvitað eru ekki allir sammála um þetta og skipta stjórnmálaskoðanir fólks eflaust einhverju máli hvað þetta varðar. Flestir eru þeirrar skoðunar að kappræðurnar muni ekki breyta miklu um afstöðu kjósenda, ekkert nýtt hafi komið fram og frambjóðendunum hafi ekki tekist að nýta þær sér til framdráttar.

Framkoma þeirra var einnig gjörólík á meðan á kappræðunum stóð. Biden horfði beint í myndavélina þegar hann talaði og virtist fullur sjálfsöryggis þegar rætt var um helstu málin. Trump beitti hins vegar sinni taktík með að ráðast á andstæðinginn eða höfða til innsta kjarna stuðningsmanna sinna þegar hann lenti í mótlæti og var gagnrýndur.

Biden lét Trump heyra það strax í upphafi þegar rætt var um kórónuveirufaraldurinn, sem hefur orðið á þriðja hundrað þúsund manns að bana í Bandaríkjunum, og sagði:

„Hver sá sem ber ábyrgð á dauða svo margra ætti ekki að vera forseti Bandaríkjanna. Hann segir, þið vitið, að við séum að læra að lifa með þessu. Fólk er að læra að deyja með þessu.“

Trump svaraði þessu með að segja að nú væri farið að sjást til lands og þjóðin að komast út úr faraldrinum. Ekki væri hægt að loka samfélaginu því þá verði ekkert samfélag eða þjóð eftir.

Þjóðaröryggismál

Þegar kom að umræðu um þjóðaröryggi lenti þeim aftur saman. Þeir voru spurðir út í fréttir um að Íran og Rússland hafi komist yfir upplýsingar um bandaríska kjósendur í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosningarnar. Biden sagði að ríki sem reyna þetta „muni finna fyrir því ef ég verð kjörinn forseti“ og sagði að stjórnvöld í Moskvu vilji ekki að hann sigri því „þau þekkja mig og ég þekki þau“. Trump sakaði Biden um að hafa fengið 3,5 milljónir dala frá Rússum og sagði „enginn hefur verið harðari við Rússland en ég“.

„Ef þú fékkst fullt af peningum frá Rússlandi . . . þá ertu líklega enn að fá þá.“

Þessu svaraði Biden:

„Ég hef ekki fengið penní frá nokkru erlendu ríki í lífinu.“

Hann skoraði síðan á Trump að birta skattskýrslur sínar eða „hætta að tala um spillingu“.

Trump reyndi síðan að draga Hunter, son Biden, inn í umræðuna og sagði að hann hefði fengið háar greiðslur frá úkraínsku fyrirtæki. Biden sagði að þetta hafi verið rannsakað nokkrum sinnum og ekkert hafi komið fram sem tengi Hunter við neitt vafasamt. Hann benti einnig á að mál hafi verið höfðað á hendur Trump til embættismissis vegna tilrauna hans til að misbeita valdi sínu með því að þrýsta á forseta Úkraínu í því skyni að reyna að komast yfir hugsanlega skaðlegar upplýsingar um fjölskylud Biden.

Kynþáttamálin

Staða kynþáttamála í Bandaríkjunum var einnig til umræðu og lenti frambjóðendunum saman vegna innflytjenda sem er haldið föngnum í einhverskonar fangabúðum við landamærin, þar á meðal börn sem hafa verið aðskilin frá foreldrum sínum.

Kristen Welker stýrði kappræðunum. Mynd:EPA-EFE/JIM BOURG / POOL

Biden sagði Trump vera „einn mesta rasistann sem setið hefur á forsetastóli á síðari tímum“ en Trump svaraði því að hann væri „minnsti rasistinn í salnum“ en í því samhengi er rétt að taka fram að Kristen Welker, sem stýrði kappræðunum, er svört.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Stefan Löfven – „Það sem við gerum núna sker úr um hverjir verða enn hjá okkur um jólin“

Stefan Löfven – „Það sem við gerum núna sker úr um hverjir verða enn hjá okkur um jólin“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta mun bóluefnið gegn kórónuveirunni kosta

Þetta mun bóluefnið gegn kórónuveirunni kosta